Bænir í geðveikri messu

Í dag var geðveik messa í Laugarneskirkju. Okkur langar að deila bænarefnum dagsins með lesendum bloggsins.

Geðsjúkdómar

Elsku góði Guð, í dag felum við þér þau okkar sem glíma við eða hafa glímt við geðsjúkdóma. Takk fyrir gjafir þeirra og lærdóm sem þau færa samfélaginu okkar. Umvef þau með ást þinni og umhyggju og lát þau aldrei gleyma að þau eru óendanlega mikilvæg í þínum augum. Styrk aðstandendur og fagfólk og gerðu ráðamenn meðvitaða um ábyrgð og verkefni í málaflokknum. Við biðjum í Jesú nafni.

Ebóla

Almáttugi Guð, við komum fram fyrir þig með áhyggjur okkur út af ebólufaraldrinum sem geisar í Vestur-Afríku og teygir anga sína út um allan heim. Viltu styrkja þau öll sem glíma við sjúkdóminn – þau sem hafa smitast, búa á svæðum þar sem faraldurinn geisar, eiga ættingja sem hafa smitast eða dáið, við biðjum þig sérstaklega fyrir börnum sem hafa misst foreldra sína vegna ebólu. Viltu vera með þeim sem sinna læknis- og hjúkrunarstörfum og berjast við sjúkdóminn. Viltu gefa stjórnvöldum og alþjóðastofnunum visku og dómgreind til að bregðast við hratt og örugglega. Viltu gera okkur öll meðvituð um að það eru ekki Þau sem glíma við ebólu heldur Við öll. Við biðjum í Jesú nafni.

Náunginn

Drottinn Guð, við þökkum þér fyrir allar góðar gjafir sem frá þér eru komnar. Hjálpaðu okkur að nota þær sjálfum okkur og öðrum til blessunar og þínu nafni til dýrðar. Gerðu okkur meðvituð um neyð náungans og gefðu okkur hugrekki til að koma til hjálpar. Takk fyrir listir og listafólk, kennara og umönnunarstéttir, heilbrigðisstarfsfólk og þau sem gæta öryggis. Blessa þau sem hafa tekið að sér ábyrgðarstörf í þágu almennings og gef þeim visku og réttlætiskennd. Við biðjum í Jesú nafni.

Friður

Drottinn Guð, við biðjum fyrir kirkju þinni og öllum konur og körlum sem þjóna þér og útbreiða orð þitt og kærleika. Blessa öll þau sem láta kærleiksboðorðið sem þú gefur okkur móta líf sitt og veru. Í dag þökkum við þér fyrir hana Malölu og það sem hún kennir okkur, nefnilega að friður, samtal og menntun er alltaf betra svar en ofbeldi og yfirgangur. Hjálpaðu okkur að líkjast henni, eins og hún líkist þér. Við biðjum í Jesú nafni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.