Aðgerðasinnar þjónustunnar

Árni:

Bænin á að leiða til þess að við verðum eins konar aðgerðasinnar, aðgerðasinnar þjónustunnar. Þetta var eitt af því sem við Kristín ræddum í messunni í Víðistaðakirkju í morgun. Við vitnuðum líka nýja trúarjátningu eftir Ármann Gunnarsson, djákna, sem dvelur um þessar mundir við rannsóknir á aðstæðum stéttleysingja á Indlandi.

Ármann hefur skarpa sýn á réttlæti og þjónustu og í játningunni segir hann meðal annars:

Ég trúi á Jesú Krist, vin minn og frelsara, sem fæddist inn í þennann heim til að leita að hinu týnda og frelsa það. Á Jesú vin minn sem tók sér stöðu með þeim sem eru útilokuð frá nægtarborðinu, þeim sem eru hungruð, án klæða, í fangelsum, þyrst, útskúfuð, öðruvísi, með þeim sem þræla við að búa til kaffið mitt, fötin mín og matinn minn, dótið mitt, já með þeim sem vinna öll þau störf sem verður að vinna í hverju samfélagi en þau sem eiga fé og völd vilja ekki vinna sjálf – með verkafólki og ummönnunarstéttum.

Ég trúi á Jesú Krist, vin minn, sem gagnrýndi óhræddur valdastéttir, fræðimenn og fariseia. Ég trúi á Jesú bróðir minn, sem vildi frekar standa með þeim lægst settu og kallaði þau til starfa sem þjóna sína. Hann er hinn hungraði, fátæki, þyrsti sá sem er sviptur frelsi, hinn nakti stéttlausi maður.

Ég trúi á Jesú Krist systur mína, sem elskar mig og segir mér að ef ég vilji endurgjalda þessa ást verði ég að elska vini hans og systkyni … öll þau sem lifa án fullra mannréttinda í heiminum.

Ég held að við getum lært af þessu. Ég held að okkur væri hollt að prófa að hugsa um okkur sem samfélags-aðgerðasinna og sem þjóna í umhverfinu okkar.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.