Aldrei aftur

Árni og Kristín:

Þegar við vorum að skríða inn í unglingsárin á síðustu öld hélt angistin yfir mögulegu kjarnorkustríði fyrir okkur vöku. Listrænar útfærslur á hörmungum kjarnorkuvetrar og afleiðingum hans fyrir mannfólkið rötuðu iðulega á sjónvarpsskjáinn. Fréttir af ísköldu vopnakapphlaupi stórveldanna voru daglegt brauð í fjölmiðlum.

IMG_3198

Sextíu og fimm ár eru liðin síðan kjarnorkusprengjum var varpað á borgirnar Hiroshima og Nagasaki í Japan, við lok heimsstyrjaldarinnar síðari. Við þessi tímamót er þess virði að nema staðar og íhuga sársaukann sem fylgir þeim.

Það er sársaukinn yfir fórnarlömbum árásarinnar, þeim sem dóu og þeim sem þjáðust og þjást enn þann dag í dag vegna afleiðinga sprengjunnar á líkama og náttúru.

Það er sársaukinn yfir því að enn þá lifir heimurinn við kjarnorkuvá sem ógnar friði og stöðugleika. Það er sársaukinn yfir því að frá því sprengjan féll árið 1945, skiptist heimurinn í ríki sem hafa tekið sér rétt til að að framleiða og eiga þessi gjöreyðingarvopn, og mikinn meirihluta ríkja sem eiga þau ekki.

Við tökum undir með þeim sem hafna því að ójafnvægi og klofningur á borð við þetta sé afsprengi menningar okkar. Heilræði Biblíunnar til manneskjunnar er að velja lífið svo að allir fái lifað. Í þeim anda berjumst við gegn kjarnorkuvopnum. Það er ekkert pláss fyrir vopn sem ógna lífi manneskjunnar og jarðarinnar, eins og kjarnorkusprengjan gerir.

Kalda stríðið og kjarnorkuváin heldur ekki vöku fyrir unglingunum okkar í dag. En það er full ástæða til að minnast fórnarlamba sprengjunnar í Hiroshima og Nagasaki 6. og 9. ágúst og snúa huga okkar og hjarta til þeirra sem þar þjáðust. Við erum þakklát fyrir framtak opinberra aðila og almennra borgara sem hafa látið sitt af mörkum til að velja lífið.

Aldrei aftur Hiroshima.
Aldrei aftur Nagasaki.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.