Samstarfssáttmáli

Skrifað í forskriftarbók í skólanum

Við hjónin eigum þrjú börn á grunnskólaaldri. Af ýmsum ástæðum eru þau öll í sitthvorum skólanum. Tvö eru í grunnskólum Reykjavíkur og eitt í skóla nágrannasveitarfélagi.

Við höfum því forréttindastöðu þegar kemur að því að upplifa og reyna starfið í skólunum. Almennt hefur reynslan okkar af samstarfi við kennara og skólayfirvöld verið mjög góð. Kennarar barna okkar hafa sýnt frumkvæði og sköpunargáfu í samskiptum við heimilin og það er auðvelt að finna að hverjum nemanda er mætt með umhyggju.

Í morgun vorum við á fundi í einum skólanum, þar sem báðir kennarar árgangsins hittu foreldra í upphafi skólastarfs. Tilgangur fundarins var meðal annars að koma á samstarfssáttmála milli skóla og heimilis, með því að skilgreina hvert er hlutverk skólans og hvert er hlutverk heimilisins.

Foreldrarnir á fundinum fengu nokkrar mínútur í minni hópum til að setja á blað sínar hugmyndir hvert hlutverk skólans væri og hvert hlutverk heimilisins. Til vara mátti setja niður á blað hvað við teldum ekki vera hlutverk skólans og ekki heimilisins. Að lokum deildu hóparnir með hver öðrum því sem fram kom í samtalinu milli foreldranna.

Meðal þess sem foreldrum fannst vera hlutverk skólans var að leiðbeina, veita uppeldi, skapa tækifæri til náms, kenna nemendum að við erum ólík, með ólíkar þarfir og ólíkar skoðanir, og kenna samskipti. Hlutverk heimilisins var m.a. að skapa börnunum öruggt og nærandi umhverfi svo þau gætu notið skólans og fræðslunnar þar, veita uppeldi og kenna virðingu fyrir reglum, s.s. stundvísi.

Á sama hátt var það niðurstaða fundarins að það væri ekki hlutverk skólans að mismuna nemendum og hunsa þarfir þeirra. Eins er það ekki hlutverk heimilis að sýna neikvæðni í garð skólans og starfsemi hans.

Út frá þessum hlutverkum voru dregin gildi, sem fundurinn vill sjá í fyrirrúmi í samstarfi heimilis og skóla. Þau voru

  • Öryggi
  • Umhyggja
  • Virðing
  • Vinátta

Af því að þetta er sáttmáli, heitum við því hér með að leggja okkur fram um að láta börnunum okkar í té og kenna þeim að miðla til annarra: öryggi, umhyggju, virðingu og vináttu.

Samstarfssáttmáli er málið.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.