Skilaboð frá Skrímslaborg

Sölli í kvikmyndinni Skrímsli ehf.

Við horfðum á Chris Martenson í uppáhaldsþættinum Silfri Egils í gær og hlustuðum á það sem hann sagði um orkuna. Hún er víst höfuðatriði í efnahagskerfum. Sturtið 100 milljónum dollara á sker úti í hafi. Ekkert gerist fyrr en þið bætið orkunni við. Þá fara hjólin að snúast.

Chris Martenson setti líka aðgengi að orku á heimsvísu í samhengi við hagvöxt og efnahagslíf. Við höfum búið við stöðuga aukningu af orkuframboði í heiminum hingað til (frá við til kola, til olíu sem flæðir út um allt). Nú horfumst við í augu við að með hverju árinu sem líður minnkar aðgengi okkar að hefðbundnum orkugjöfum. Þetta minnkar ekkert endilega með látum, en toppinum er náð. Við þurfum að hugsa neyslu og uppbyggingu hagkerfa út frá þeirri staðreynd.

Farsæld og vellíðan samfélaga í framtíðinni liggur ekki síst í því að þekkja með hvaða hætti þau geta verið sjálfbær með orku og nýtingu hennar. Á Íslandi er jarðvarminn sá orkugjafi sem við þurfum að læra að nota og nýta sem best.

Mikilvægi orku og hvernig hún er nýtt er viðfangsefni teikninmyndarinnar Skrímsli hf. Hún gerist í Skrímslaborg þar sem Sölli, Maggi og öll hin skrímslin vinna við að hlaða niður skelfingaröskrum barna til að knýja borgina og skrímslaefnahaginn. Hagvöxtur Skrímslaborgar byggir á því að því meir sem skrímslin ná að hræða lítil börn með því að birtast undan rúmum og út úr skápum, því meiri orka er til staðar til að láta hjólin snúast.

Eins og í öllum góðum sögum þá á sér stað hreyfing og þroski einstaklinga og samfélags. Helsti lærdómurinn sem Sölli og Maggi draga af starfssemi sinni er að hlátur barna skapar miklu meiri orku af sér en skelfing og grátur.  Það er því samfélaginu til góða að nota tækni og þekkingu til að skapa gleði og vellíðan en ótta og skelfingu.

Sambandið á milli orku og þess hvernig fólki líður er bæði viðfangsefni Skrímsla hf. og fyrirlestra Chris Martenson. Orkan er undirstaða alls vaxtar og hreyfiaflið í samfélaginu. Með minnkandi orku minnka möguleikar á að bæta lífsstíl fólks. En þýðir það óhjákvæmilega að lífsgæði fólks muni minnka?

Nei.

Flottur lífsstíll og lífsgæði haldast ekki í hendur. Orku má nota til að ýta undir aukna neyslu en slíkt leiðir ekki endilega til góðs. Flottur lífsstíll tryggir ekki hamingju. Og ef hann er ekki sjálfbær viðheldur hann ranglæti sem bitnar á öðru fólki.

Lífsgæði eru ekki fólgin í því að hámarka neyslu. Hlátur og gleði eru betri uppspretta velferðar og vellíðunar en ótti og skelfing.

Skilaboð dagsins eru því þessi:

Notum orkuna til góðs.

Minnkum óttann.

Hlæjum meira.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.