Betri heimur með betri umræðu

Outside

Á Eyjubloggi birtist fyrr í gær færslan Betri heimur án trúarbragða eftir Valgarð Guðjónsson. Máli sínu til stuðnings nefnir Valgarður meðal annars tíu jákvæðar yrðingar um trúleysi.

Skilja má pistil Valgarðs sem svo að hinn trúlausi aðhyllist betri lífsskoðun þar sem þessi tíu atriði gildi um hann – og aðeins hann.  Okkur sýnist í fljótu bragði sem þessar yrðingar eigi jafnframt við mikinn fjölda trúaða einstaklinga, til að mynda þá sem tilheyra þjóðkirkjunni á Íslandi.

Sá sem er trúaður og tilheyrir þjóðkirkjunni (og hér tölum við um þjóðkirkjuna sérstaklega því það er okkar trúfélag og við þekkjum hana best):

  1. getur komið í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma með því að nota smokk – og hefur getað lengi
  2. lætur alveg vera að fordæma þá sem laðast að eigin kyni
  3. hefur enga þörf fyrir að myrða lækna sem fara að lögum
  4. neitar ekki börnunum sínum um að þiggja blóð þegar það getur bjargað lífi þeirra
  5. lætur sér ekki detta í hug að drepa fólk sem teiknar skopmyndir af persónum sem voru (hugsanlega) uppi fyrir þúsunum ára
  6. finnur ekki hjá sér þörf til að sprengja sig og fjöldann allan af fólki í loft upp vegna trúarinnar
  7. treystir frekar á læknismeðferð en bænir
  8. lætur ekki taka ungar stúlkur af lífi sem hefur verið nauðgað
  9. brennir ekki heilu fjölskyldurnar inni vegna þess að hann heldur að þar séu nornir á ferð
  10. þarf ekki að óttast sem barn ef einhver nákominn deyr að viðkomandi líði vítiskvalir í helvíti

Vandi Valgarðs og kannski vandi svona alhæfinga almennt er þessi: Alhæft er um trúarbrögð og trúaða einstaklinga almennt út frá nokkrum neikvæðum atriðum, sem augljóslega eiga alls ekki við alla. Þar að auki er gagnrýnin sem borin er á borð oftar en ekki gagnrýni sem margir trúaðir hafa þegar fært fram. Ekki þarf að horfa lengra aftur en til deilunnar um afstöðu til einna hjúskaparlaga hér á landi til að sjá þetta.

Myndin sem Valgarður dregur upp er því of einföld. Fyrirbærið sem hann lýsir er flóknara en svo að það rúmist innan þessa ramma. Það sama gildir að sjálfsögðu um guðleysi/trúleysi. Það er flóknara en svo að hægt sé að afgreiða það með alhæfingum eins og að guðleysingjar séu siðlausir, að þeir séu ómögulegir uppalendur o.s.frv.

Við eigum að sýna okkar eigin lífsskoðun og lífsskoðunum annarra virðingu. Við getum verið ósammála og talið sumt alveg hreint herfilega rangt, en við skulum ekki leggja upp með umræðu sem byggir á því að ýkja eða afskræma.

Það gerir ekki gagn og afhjúpar endanlega bara fordóma þess sem heldur á penna.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.