Eyðsluklærnar í leikskólunum

Tómas Viktor

Í gær gátum við lesið þessa frétt á vísir.is um sparnað í Reykjavík:

Samkvæmt tillögum sem lagðar verða fram í borgarráði á morgun er gert ráð fyrir að þrjátíu leikskólar verði sameinaðir í fjórtán og stjórnendum þeirra, leikskólastjórum og aðstoðarleikstjórum, sagt upp en sumir endurráðnir í yfirmannastöðurnar að nýju. Hinum verður boðið að starfa áfram með aðrar starfsskyldur og lægri laun.

Í dag mun borgarráð sumsé ræða með hvaða hætti hægt sé að velta sparnaði í borgarkerfinu yfir á sjálft starfsfólkið í leikskólunum – og láta það standa undir nauðsynlegri hagræðingu í kerfinu.

Aðgerðirnar um sameiningu leikskóla eiga að ná fram sparnaði. Við höfum ekki séð tölurnar um konkret sparnað sem af þessu hlýst. Þar þarf að taka inn í beina hagræðingu af fækkunum yfirmanna á leikskólunum, kostnað við breytingarnar sjálfar og raunverulega breytingu á rekstrarkostnaði. Reyndar er einsýnt að af þessum tilfæringum koma varla háar fjárhæðir til góða.

Jafnvel þó svo væri, eru þessar tillögur fráleitar og skammsýnar.  Þær ganga út á að lækka laun og breyta starfsheitum hjá því starfsfólki sem nú ber mesta ábyrgð á stefnumótun, mannauði, samskiptum og stjórnun á leikskólunum okkar.  Þær dæla inn óöryggi og slæmum móral á vinnustaði þar sem mikið er í húfi að jafnvægi, fagþekking og gleði ríki.

Með því að fækka leikskólum á þennan hátt, er gengið inn í kjör og starfsmöguleika fagfólks í leikskólunum og það mun bitna með einum eða öðrum hætti á börnunum sjálfum. Leikskólarnir okkar eru ekki þeir staðir þar sem illa hefur verið farið með fé eða bruðlað með eignir.

Eins og eitt foreldri í Reykjavík segir í fínni grein á visir.is í dag:

Leikskólarnir í Reykjavík eru frábærir, ótrúlega frábærir ef haft er í huga hvílík smánarlaun starfsfólk þeirra þarf að sætta sig við. Allar aðgerðir sem grafa undan starfsgleði og metnaði skila sér í verra skólastarfi. Þær bitna á börnunum okkar.

Við skulum ekki þynna út þjónustuna við börn á þessum krepputímum. Við mótmælum skammsýnum hugmyndum um niðurskurð á leikskólum.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.