Gleðidagur 20: Snert Hörpu mína

Á opnunardegi Hörpu fögnum við tónlistinni og flotta tónlistarfólkinu okkar. Við hrífumst líka af fallega húsinu og hlökkum til að skoða það og upplifa tónlistina.

Í apokrýfu guðspjalli er saga af því þegar Jesús var strákur og gerði nokkra fugla úr leir. Fyrir þetta fékk hann ákúrur fyrir því þetta var víst á hvíldardegi. Jesús brást við með því að segja fuglunum að hefja sig til flugs og það gerðu þeir. Ljóðið hans Davíðs Stefánssonar um fuglana vísar til þessarar helgisögu um leirfuglana sem fengu líf:

Snert hörpu mina himinborna dís
svo hlusti englar Guðs í paradís.
Við götu mína fann ég fjalarstúf
og festi á hann streng og rauðan skúf.

Úr furutré sem fann ég út við sjó
ég fugla skar og líka úr smiðjumó.
Í huganum til himins oft ég svíf
og hlýt að geta sungið í því líf.

Ég heyri í fjarska villtan vængjaþyt
um varpann leikur draumsins perluglit.
Snert hörpu mína himinborna dís
og hlustið englar Guðs í paradís.

Það er von okkar og bæn að tónlistarhúsið Harpa verði staðurinn þar sem listafólk og áheyrendur hefja sig til flugs og upplifa lífið í gegnum listina. Til hamingju með daginn.

Myndin er af Eldborg sem er stærsti salurinn í Hörpu. Við fengum hana lánaða af vef tónlistarhússins. Takk fyrir lánið og til hamingju með húsið.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.