Gleðidagur 35: Takk fyrir sól og skugga

Sumargult

Uppáhaldssálmur fjallar um sumarið og hefst svona:

Ó Guð, ég veit hvað ég vil
er ég vakna með rísandi sól
þakka sumarsælu og yl
nú er sólskin um byggðir og ból.

Í einu barnaherberginu á heimilinu eru tveir gluggar sem snúa í austur. Fyrir þeim eru rúllugardínur sem kemur sér vel á morgnana því það hjálpar ungu fólki að sofa. Önnur þeirra bilaði um daginn og því var herbergið herbergið baðað ljósi snemma morguns. Þetta truflaði unga fólkið minna en þau sem eldri eru, en þýddi nú samt að þau vöknuðu svolítið fyrr en ella. Eiginlega fyrir allar aldir.

Það er dásamlegt að vakna snemma á sumardegi í flennibjörtu herbergi sem er baðað í morgunsólinni. Það vita börnin og líka við. Það er full ástæða til að þakka það og þakka sumarsól og -sælu. Það gerum við líka. En sólin á ennfremur þess hlið að vera óvægin og sterk. Sú hlið er okkur á Íslandi frekar framandi – en hjá þjóðum sem búa við sólríkari og heitari daga en við gerum alla jafna, geta sólargeislarnir táknað ógn og erfiðleika fyrir gróður, dýr og fólk.

Í Biblíunni hefur sólin þessa merkingu – enda skín hún sterkt og mikið á slóðum Biblíunnar. Þar er skugginn eftirsóknarverður og veitir skjól og öryggi. Þetta tákn um skuggann sem líkn má sjá í orðalagi Davíðssálma þar sem talað er um skjólið og öryggið hjá Guði:

Í skugga vængja þinna leita ég hælis þar til voðinn er liðinn hjá (Sl 57.2)

og

Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja þinna (Sl 17,8)

Rúllugardínan í barnaherberginu veitir mikilvægan skugga fyrir ágengum sólargeislum sem vilja kitla augu og kinnar. Á þrítugasta og fjórða gleðidegi viljum við því segja:

Takk fyrir sumarið.

Takk fyrir sólina

En við viljum líka bæta við:

Takk fyrir rúllugardínur og morgunsvefn.

Takk fyrir skuggann.

Myndin er tekin á fallegum sumardegi.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.