Þjónandi forysta og þátttökukirkjan

Þjónandi forysta er nálgun við stjórnunarhætti í fyrirtækjum, hreyfingum og stofnunum sem gengur út frá gildi þjónustunnar í samskiptum og stefnumótun. Rannsóknir sýna að þjónandi forysta leiðir til valddreifingar, uppbyggilegra samskipta, starfsánægju, árangurs í starfi og samfélagslegrar ábyrgðar.

Í síðustu viku var haldin ráðstefna í Skálholti á vegum þekkingarseturs um þjónandi forystu um hugmyndafræði og nýtingu þjónandi forystu á sviði heilbrigðismála, menntamála og í fyrirtækjum á almennum markaði. Ráðstefnan var tileinkuð minningu Vigdísar Magnúsdóttur hjúkrunarforstjóra og forstjóra Landspítala sem hefði orðið áttræð í ár en Vigdís lést árið 2009.

Eftir að hafa hlustað á erlenda og innlenda fyrirlesara flytja mál sitt reyndum við að draga saman fyrir okkur í hverju framlag þjónandi forystu er fólgið, ekki síst í uppbyggingarferli eftirhrunstímans á Íslandi.

Þjónandi leiðtogi

Þjónandi forysta fjallar mikið um leiðtogann sjálfan, þau sem hafa valist til forystuhlutverks í sínu umhverfi. Lykillinn að breytingum á umhverfinu og þeirri menningu sem ríkir í fyrirtækjum, hreyfingum og stofnunum er leiðtoginn sjálfur og þeir stjórnunarhættir sem forystan iðkar.

Það sem einkennir þjónandi leiðtoga samkvæmt líkani Dirk van Dierendonck (2011) er:

  1. Efling/styrking starfsfólks (Empowerment)
  2. Auðmýkt og hógværð (Humility/Standing back)
  3. Trúverðugleiki/falsleysi (Authenticity)
  4. Gagnkvæm viðurkenning/taka við fólki (Interpersonal acceptance)
  5. Samfélagsleg ábyrgð/ráðsmennska (Stewardship)
  6. Skýr stefna (Providing direction/Courage/Accountability)

Hvert atriði vísar til fleiri þátta í samskiptum og stefnu gagnvart starfsfólki og samfélaginu í heild. Dregið saman þá virðist þjónandi leiðtogi vera mótvægi við stjórnandann sem vinnur aðeins eftir grunnkröfu hagkerfisins um hámörkun gróða og hugmynda Friedmans um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Þjónandi leiðtogi er líka mótvægi við stjórnandann sem keyrir áfram í skjóli valdsins sem honum er falið án þess að virkja mannauðinn í kringum sig.

Virkjun félagsauðs og meira dreifræði

Starfsfólk og félagar eru hjartað í hverju fyrirtæki og hverri stofnun. Hugmyndir þjónandi forystu um eflingu starfsfólks og gagnkvæma viðurkenningu ganga út frá gildum eins og þátttöku og mannvirðingu. Skýr gildi sem hver og einn starfsmaður eða þátttakandi tekur undir eru lykilatriði í því að virkja félagsauð (social capital) og þar með árangur í starfi.

Virkjun félagsauðs hvílír líka á virkum samskiptum og því að fólk upplifi sig sem huti af heildinni svo það vinni í þágu hennar. Að veita fólki rödd og raunverulega aðild að ákvörðunartöku skapar öryggi og samkennd sem skilar sér í jákvæðum árangri í starfi fyrirtækis, stofnunar og hreyfingar.

Þátttökukirkjan

Frá sjónarhóli okkar sem höfum sem guðfræðingar og prestar velt samskipta- og stjórnunarmenningu þjóðkirkjunnar mikið fyrir okkur, kallast þjónandi forysta á við sýnina á kirkjuna sem þátttökusamfélag. Þátttökukirkjan snýr meðvitað baki við gömlum hugmyndum um forræðishyggju og umönnunarhlutverk prestanna og vísar þess í stað til valdeflingar og þátttöku sjálfboðaliðanna í kirkjunni á grundvelli almenns prestsdóms.

Í þátttökuvæðingu kirkjunnar eru prestarnir samt sem áður lykilstarfsfólk sem forystumenn safnaðanna. Breytingar á kirkjumenningu eiga sér stað í gegnum breytingar á prestunum sjálfum. Prestarnir þurfa í sjálfsmynd og praxis að breytast úr einyrkjanum sem ákveður allt, ræður öllu og gerir allt yfir í leiðtoga sem þjálfar, treystir, útdeilir verkefnum, kemur auga á hæfileika, o.s.frv.

Þjónandi forysta sem raunverulegur valkostur

Okkur sýnist sem þjónandi forysta sé raunverulegt mótvægi við stjórnunarhætti sem mótast af gróða- og valdbeitingarsjónarmiðum, í þágu samskipta og samfélags. Þetta á ekki síst við á krepputímum, þegar hagvöxtur er minni, atvinnuleysi meira og starfsumhverfið allt erfiðara. Bæði hvað varðar fyrirtækin sjálf en rannsóknir sína einmitt að samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja og aðrir ávextir þjónandi forystu leiðir til betri afkomu en ekki síður varðandi þá einstaklinga sem tilheyra starfsmannahópi eða félögum. Meðvitund um samskipti og líðan starfsfólks vegur líka þungt á tímum þegar erfitt efnahagástand skapar þrýsting og vanlíðan á öðrum sviðum lífsins.

Þátttökukirkjan á margt sameiginlegt með þjónandi forystu og deilir mikilvægum þáttum með þeirri hugmyndafræði sem hún byggir á. Presturinn sem þjónandi leiðtogi leikur stórt hlutverk í þátttökukirkjunni og í breytingarferlinu sem stendur yfir og gefur sjálfboðaliðum í kirkjunni virðingu, myndugleika og rödd. Þjónandi forysta leggur sitt af mörkum í umbreytingu samfélags og menningar frá valdboði og einræði yfir til þátttöku og mannvirðingar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.