Konur geta breytt heiminum

Í dag 8. mars er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Af því tilefni rifjum við upp fræga ræðu eftir Sojourner Truth sem hún flutti á baráttusamkomu kvenna í Akron, Ohio, árið 1851.

Sojourner Truth var prédikari af Guðs náð og áhrifamikill leiðtogi. Hún fæddist í þrældómi og var gefið nafnið Ísabella og var seld frá foreldrum sínum 9 ára gömul. Hún hafði þrælað í mörg ár og eignast nokkur börn sjálf þegar hún hlaut frelsi. Hún lifði reynslumiklu og litríku trúarlífi, tók sér nafnið Sojourner Truth og varð farandprédikari sem eftir var tekið.

 

Sojourner var virk í starfi þeirra sem unnu að afnámi þrælahalds og að réttindum kvenna. Ræðan fræga sem gengur undir nafninu Ain’t I a woman lýsir á áhrifaríkan hátt reynslu hinnar þrælbundnu konu sem er svipt virðingu og réttindum hvítra karla.

Í niðurlagi ræðunnar beinir hún orðum sínum að þeim sem réttlæta misrétti kynjanna með trúarlegri afstöðu og lætur þá hafa það óþvegið:

Svo segir litli kallinn þarna í svörtu fötunum, að konur hafi ekki sama rétt og menn vegna þess að Kristur var ekki kona!

Hvaðan kemur þinn Kristur? Hvaðan kemur þinn Kristur?!

Frá Guði og konu!

Karlar komu þar ekkert við sögu.

Ef fyrsta konan sem Guð skapaði var nógu öflug til að snúa allri veröldinni á hvolf, þá ættu allar þessar konur að vera nógu sterkar til að snúa henni við aftur svo hún snúi rétt!

Og nú vilja þær gera einmitt það og það er eins gott að karlarnir leyfi þeim það!

(Then that little man in black there, he says women can’t have as much rights as men, ’cause Christ wasn’t a woman! Where did your Christ come from? Where did your Christ come from?

From God and a woman!

Man had nothing to do with Him.

If the first woman God ever made was strong enough to turn the world upside down all alone, these women together ought to be able to turn it back, and get it right side up again!

And now they is asking to do it, the men better let them.)

Þarna grípur Sojourner Truth til kristfræðilegra raka fyrir jafnrétti kynjanna með því að benda á að Guð gerðist manneskja með því að fæðast af konu sem lítið barn. Hún vísar einnig til þeirrar söguskýringar að syndafallið og allt böl mannkyns sé Evu að kenna, því hún lét höggorminn tæla sig og tældi síðan Adam til að óhlýðnast boði Guðs um að borða ekki af ávexti skilningstrésins.

Sojourner bendir á að þessi sögusýn gefi fyrstu konunni gífurlegt áhrifavald – og því liggi beint við að þegar konur standi saman að vilja til breytinga ætti ekkert að geta stoppað þær.

Við tökum undir það með Sojourner Truth.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.