Kynningarfundur í Glerárkirkju – bloggað í beinni

Nú er að hefjast kynningarfundur biskupsefna í Glerárkirkju. Þetta er síðasti fundurinn sem er haldinn. Ég ætla að reyna að blogga fundinn í beinni.

Átta frambjóðendur í biskupskjöri

Upphaf

Sr. Jón Ármann Gíslason, prófastur á Skinnastað, setur fundinn og býður fólk velkomið. Fundurinn hefst á 7 mínútna upphafserindi hvers frambjóðanda. Tímavörður er sr. Hildur Sigurðardóttir. Svo verður gert örstutt fundarhlé og síðan bornar upp nokkrar spurningar til frambjóðenda. Mér sýnast um 50 manns á fundinum.

Þórir Jökull Þorsteinsson

Guð blessi skref ykkar allra á þennan fund og veru ykkar hér. Þórir Jökull er 53 ára gamall. Hann kynnir sig og fjölskyldu sína stuttlega. Hann þjónaði síðast sem prestur Íslendinga í Danmörku, áður á Selfossi. Hann hefur einnig þjónað í Englandi. Þórir var vígður til Grenjaðarstaðar árið 1987. Gjöf trúarinnar er mikilvæg. Um kirkjuna hafa blásið vindar. Við erum kölluð til þess að gá að okkur með þeim hætti að trúin lifi og að kirkjan verði þess megnug að starfa hvarvetna í landinu. Ekkert kemur í stað hins staðbundna safnaðar. Kirkjan er samfélag fólks sem kemur saman til helgihalds.

Þjóðkirkjan reisir sig því aðeins við gangist hún við þeim sérleika sínum og sé trú því verkefni sínu að vera samfélag þeirrar endurlausnar og gleði sem Guð hefur fært mannkyninu í Jesú Kristi. Samtalið hér snýst þar með ekki um skipulag og fjármál heldur erum við samfélag um hina kristnu von. Þórir lítur ekki svo á að það að gefa kost á sér til biskupsembættis sé eins og hvert annað framboð heldur sé það umlukið helgri köllun umfram löngun i starfsframa. Hann vill því ekki mæla úr hófi fram með sjálfum sér en vill að við vitum að Guð hefur gefið honum djörfung til þessa.

Hlutverk biskupa er að gæta að lífi kirkjunnar á hverjum tíma. Biskup á að rækja hlutverk sitt í kærleika og af alúð. Biskup er fyrst og síðast prestur, með þeim og öllum öðrum sem sinna um hag safnaðanna – trúnaðarvinur sem ber tilveru þeirra og líf fyrir brjósti. Þórir vill að Ísland verði fleiri en eitt biskupsdæmi og að á Hólum og í Skálholti sitji fullmyndugir biskupar.

Gunnar Sigurjónsson

Sr. Gunnar Sigurjónsson tekur næst til máls. „Ég er bara venjulegur strákur sem ólst upp í Árbæjarhverfinu í Reykjavík,“ segir Gunnar í upphafi. Hann lýsir trúaruppeldi sínu og nefnir föður sinn sérstaklega í því sambandi. Segist alinn upp við kirkju leikmannsins, við kirkju sem lætur sér annt um.

Það er stórkostlegt að fara um landið og kynna stefnumál sín og fá tækifæri til að hlusta eftir því sem varðar fólkið. Hluti framboðsræðu Gunnar er í bundnu máli. Þar kemur fram að hann vill einfalda stjórnsýsluna, eiga mikil samskipti við sóknarbörn um allt land, laga það sem þarf að laga, leiða staðfasta kirkju.

Sigríður Guðmarsdóttir

Sigríður ber fram órímað prósaljóð. Hún er 47 ára gömul, alin upp á Seltjarnarnesi. Alin upp í kristinni trú, sótti kfuk og í sunnudagaskólanum. Vígð 25 ára gömul. Gift Rögnvaldi og þau eiga þrjú syni. Hóf þjónustu á Suðureyri. Þjónaði síðar á Ólafsfirði til ársins 2000. Fór svo í doktorsnám í Bandaríkjunum og þjónaði sem prestur þar. Þjónar nú sem sóknarprestur í Grafarholti og sinnir líka fræðistörfum. Hún er hrifin af frumkvöðlastarfi og þykir gaman að takast á við krefjandi verkefni.

Kirkjan hefur marga styrkleika, en líka veikleika. Deilur um samkynhneigð, erfið mál varðandi kynferðisbrot. Stór sár sem þarf að græða. Skert sóknargjöld, umræður um aðskilnað, rýrt traust, gefa meiri gaum að starfsmönnum, kynjahalli karla og kvenna í yfirstjórn kirkjunnar. 110 biskupar í landinu frá 1056 og enginn þeirra kona.

Kirkjan á sterka hefð í sjálfboðnu starfi kvenna, en þegar kemur að valdaembættum er bekkurinn raðaður karlmönnum. Þjóðin gerir kröfu um að kirkjan iðki jafnrétti á borði og ekki bara í orði. Nú þarf raunsæi, von, einingu, bjartsýni til að kirkjan komi fram sem sterkt afl í þágu kirkju Krists.

Þórhallur Heimisson

Hann þakkar fundinn í dag, þetta hafa verið góðar ferðir. Hann er fimmtugur að aldri. Er giftur sr. Ingileifu Malmberg sem er sjúkrahússprestur á Landspítalanum. Þau eiga þrjú börn. Þórhallur ætlaði sér að verða sagnfræðingur. Lenti í bílslysi þegar hann var ungur og það varð til þess að hann endurmat líf sitt og hóf nám í guðfræði. Hann hefur starfað sem æskulýðsfulltrúi, þjónað sem prestur á Íslandi og í Svíþjóð. Hefur verið prestur og sóknarprestur í Hafnarfirði frá 1996. Hefur haldið mikið af námskeiðum um allt land, hjónanámskeið og hamingjunámskeið.

Ávarpar leikmenn sérstaklega. Eftir 110 biskupa ráða leikmenn nú sérstaklega. Ástandið í kirkjunni hefur verið slæmt, traustið til kirkjunnar hefur hrunið. Er nú 28%. Landhelgisgæslan stendur í 89%. Biður fólk að horfa til verka frambjóðenda, en ekki til kosningaloforða. Hann hefur sinnt fjölskyldum, hefur gefið út fjölda bóka og sú sjöunda er á leiðinni núna. Hefur líka verið í forystu í kærleiksþjónustu, Sumarhjálpinni sem sinnti fólki. Hann vill færa kirkjuna aftur til fólksins.

Spurningin sem við þurfum að svara varðandi kirkjuna: Ætli Guð búi í þessu húsi. Og hvernig getum við opnað þetta hús þannig að þjóðin upplifi að hún geti búið með Guði í þessu húsi.

Sigurður Árni Þórðarson

Þakkar fyrir að svo margir séu hér í dag. Þakkar líka félögum sínum í sumar- eða biskupagleðinni sem hefur ferðast um landið. Þessi hópur hefur lagt mikið til samtalsins um kirkjuna í landinu. Frá unga aldri hefur verið haldið að honum sem Norðurland væri dásamlegt og Svarfaðardalur líka. Náttúran sem Guð hefur gefið er þakkarverð, en það sem er dýrmætast er fólkið. Lifandi fólk sem Guð elskar er mesta dýrmætið.

19 ára gamall lenti hann í lífsháska, lá á krabbameinsdeild vegna æxlis í hálsi. Leiddi til endurmats. Fékk svo lífsdóm. Það mótar þjónustu hans: Að baki dauða er upprisan. Vill gjarnan miðla afstöðu lífsins og gleðinnar í biskupsþjónustu. Guðmundur Ari horfði á biskupsefnið áðan, Sigurði Árna finnst mikilvægt að kirkjan setji börnin og heimilin í forgang. Allir aldurshópar eiga að njóta þjónustu, en við eigum að setja barna- og unglingastarf í forgang. Og við eigum að temja okkur glatt kirkjulíf og páskaguðfræði.

Gleðilega kirkju er það sem hann vill sjá og vinna að. Vill líka að biskupinn sinni græðarahlutverki gagnvart fólki. Fjölskyldur, líka prestsfjölskyldur, hafa búið við mikið álag. Biskupinn á að hvetja og efla. Hann vill breyta vísitasíum þannig að biskupinn sé í hverjum fjórðungi í ákveðinn tíma á hverju ári. Tali og hlusti og sinni starfsfólki kirkjunnar. Vill líka halda landsfundi formanna sóknarnefnda, til að efla og miðla. Við eigum líka að þora að endurskoða það sem ekki hentar nógu vel. Einnig skoða sóknargjöld og endurheimta þau og senda heim í hérað. Stórefla útvistun verkefna. Hann býður sig fram sem kirkjubiskup en ekki stjórnsýslubiskup.

Örn Bárður Jónsson

Það er gleðilegt að starfa í kirkjunni segir Örn Bárður. Hann fagnar því að fleiri kjósi nú biskup, en myndi vilja sjá að enn fleiri kysu, allir meðlimir 18 ára og eldri. Það var köllun að hann fór til starfa í kirkjunni, rak fyrirtæki og var í námi í endurskoðun. Hann heillaðist af trúarlífi og kirkju og byrjaði að starfa sem leikmaður. Var vígður sem djákni, hafði þá numið guðfræði í Englandi. Hóf svo guðfræðinám eftir árslanga djáknaþjónustu. Vígðist svo prestsvígslu. Starfaði á Biskupsstofu í níu ár. Sótti framhaldsnám í Bandaríkjunum.

Reynsla og þekking á viðskiptalífi hjálpar í þessu starfi segir Örn Bárður. Hann hefur alla tíð haft mikla gleði af þjónustunni. Skrifar um 100 ræður á hverju ári og birtir þær allar á vefnum, texta og hljóð. Kirkjan er undursamleg, en hún er í vanda núna. Sumir halda að strúktúrbreytingar hjálpi. En það er ekki svo, það þarf hugarfarsbreytingu. Við þurfum biskup sem tengist fólki og fer um landið. Svo las Örn úr Passíusálmunum. Það þarf að endurnýja allt Ísland. Framundan er tími þegar sætta þarf fólk, boða þjóðinni trú á Krist, kærleika og miskunn. Erfiðleikarnir eru blessun en ekki böl í ljósi upprisutrúarinnar.

Kristján Valur Ingólfsson

Hann er héðan af þessu svæði. Konan hans heitir Margrét Bóasdóttir, þau eiga tvo syni. Hann hefur þjónað víða um land í fjölbreyttum hlutverkum, sem prestur, rektor, verkefnisstjóri, lektor og nú sem vígslubiskup. Hefur frá unga aldri viljað gera gagn í kirkjunni. Biskupi Íslands er falin yfirumsjón með öllu starfi kirkjunnar, sem starfar í mörgum einingum um allt land. Hlutverk biskups er líkt hlutverki foreldra, tilsjónarhlutverkið kallast á við það. Tilsjón biskups er þessi: Hann er verndari trúarinnar, stendur vörð um kristna kenningu. Hann tekur vígsluheit af hverjum presti sem fer út á akurinn um að standa vörð um þetta. Tekur líka ábyrgð á að trúfræðsla sé góð.

Stóru verkefnin sem blasa við nýjum biskupi eru þessi: Að styrkja trúarlíf heimilanna, með verkefnum á við Fjársjóðskistuna og myndbandið Daginn í dag. Styrkja starfið í litlu söfnuðum. Hjálpa söfnuðum að halda kirkjum sínum í rekstri þrátt fyrir erfiðleika í rekstri. Styrkja stóru söfnuðina þannig að ráða megi starfsfólk til að styrkja starfið. Að biðja, syngja og lesa. Þjóðkirkjan er syngjandi kirkja og ekkert kirkjustarf sameinar söfnuðinn betur en söngurinn. Kirkjan þarf að bera trú sinni vitni með nýjum texta og nýjum tónum.

Kirkja sem í fögnuði og trúardjörfung horfir fram á veg er sterk kirkja og traust. Markmið okkar á að vera að þau öll sem tilheyra kirkjunni sé glöð yfir henni. Glöð yfir því að tilheyra henni. Kirkjan er guðsþjónusta.

Agnes M. Sigurðardóttir

Fædd og uppalin á Ísafirði og kynntist kirkjustarfi vel. Ákvað ung að verða prestur. Hefur sérstakan áhuga á prédikun og hefur aflað sér framhaldsmenntunar á því sviði. Þjónar nú á Bolungarvík og sem prófastur á Vestfjörðum. Hefur áður þjónað á Hvanneyri og sem æskulýðsfulltrúi kirkjunnar. Erindi kirkjunnar er að boða trú á Jesú Krist, krossfestan og upprisinn, í orði og verki. Við þurfum markvissa upplýsingamiðlun um allt land, umhyggju fyrir starfsfólki kirkjunnar, fela fleirum ábyrgð í fjölbreyttu starfi kirkjunnar. Þjónuustan í kirkjunni er sameiginlegt verkefni okkar allra sem komum að henni.

Leiðtogi er sá/sú sem setur stefnuna og hvetur fólk til dáða. Hún er reiðubúin að gegna því hlutverki. Hver er stefnan? Hún vill að þjóðkirkjan sé einn af máttarstólpum samfélagsins. Þjónustuaðili sem myndar öryggisnet um land allt sem allir eigi greiðan aðgang að. Hugsi vel um starfsfólkið sitt. Við eigum að leggja sérstaka rækt við barna- og unglingastarf, hvetja leiðtoga og fræða þá. Samstarf innan kirkju og utan er mikilvægt. Biskup á að gæta hagsmuna kirkjunnar í hvívetna og standa fast á rétti kirkjunnar, upplýsa um kirkjujarðasamkomulagið, ná aftur sóknargjöldum.

Er á móti breytingum breytinganna vegna. Ná þarf almennri sátt um breytingar, byrja á grunni og fara upp. Samráð þarf til að ná árangri – kirkjustarf gengur bara með samstilltu átaki allra sem að koma. Hún leggur áherslu á að fara að settum lögum og reglum og gæta jafnræðis. Vill standa vörð um þéttriðið þjónustunet kirkjunnar um allt land.

* * *

Eftir fundarhlé tóku við spurningar.

Er þjóðkirkjan of mikil prestakirkja?

Þórhallur leggur áherslu á að efla leikmenn í kirkjunni og auka lýðræði. Til dæmis eiga fleiri að kjósa biskupa. Ganga út frá því prinsipi að við eigum að vinna saman.

Kristján Valur segir að þjóðkirkjan komist aldrei hjá því að vera prestakirkja vegna þess að prestar eru í forystuhlutverki. En ef hún er kölluð prestakirkja er hún öðruvísi en hún á að vera. Við þurfum nýjan skilning á því hvers konar kirkja við eigum að vera eða erum. Þegar upp koma vandamál á að kalla til færasta fólkið.

Örn Bárður sagði að Lúther hefði gagnrýnt að prestar væru að messa yfir sjálfum sér. Prestakirkja er þegar of mikil áhersla er á prestinn. Þótt söfnuður velji prest er presturinn ekki starfsmaður safnaðar. Hann vill hvorki presta- né leikmannakirkju. Í mörgum fríkirkjum hafa leikmann tangarhald á söfnuðinum. Með vafann þá er það þannig að kalla þarf deiluaðila til fundar. Stjórnlagaráð ræddi sig niður á lausnir. Þau einsettu sér að finna lausnir.

Sigríður sagði að þjóðkirkjan væri ekki prestakirkja af því að hún er stærsta hreyfing leikmanna á landinu. En þjóðkirkjan er prestakirkja af því að það vantar meira lýðræði í hana. Jákvætt að fleira fólk kjósi biskup. Vill meira lýðræði, aldursdreifingu á þingið. Við þurfum almennar kosningar á kirkjuþing. Á söfnuður að njóta vafans? Hún vill svara þeirri spurningu með því að vísa til tillögu á kirkjuþingi 2004 um faglegt handleiðsluráð í ágreiningsmálum. Enginn á að njóta vafans sjálfkrafa, við eigum að ræða og komast að niðurstöðu.

Agnes sagði að kirkjan hefði færst meira frá því að vera prestakirkja í átt til samvinnu leikmanna og presta, en var þegar hún vígðist. Áhrif leikmanna hafa aukist til muna. Hún vill sjá meiri samvinnu. Lúther sagði að allir skírðir væru þegar prestar, biskupar og páfar. Við höfum öll skyldur og réttindi við kirkjuna sem skírðir einstaklingar. Hver á að njóta vafans? Hún vill ekki sjá orðalagið að njóta vafans. Þegar mál koma upp þarf að grípa fljótt inn í. Taka umkvartanir alvarlega strax.

Þórir Jökull segist hafa óþol gagnvart orðinu leikmaður. Kirkjan er eðlis síns vegna alltaf samfélag um Guðs orð. Deilumál spretta gjarnan upp þegar misskilningur verður um eðli og tilgang kirkjunnar. Öll vinna sem snýr að deilumálum snýr að því að eyða vafa. Mikilvægt að grípa til ráða í tíma.

Gunnar segist vera sannfærður um að þau sem hafa fengið köllun til að starfa sem prestar vilji ekki stunda eignaumsýslu. Hann vill skýra aðgreiningu þessa. Fjárhagsáætlanir andspænis verkáætlunum. Það má koma greinilegar fram í allri stjórnsýslu kirkjunnar. Það eiga að vera skýrar leikreglur.

Sigurður Árni segir að biskup eigi að vera minna í stjórnsýslu og meira í kirju. Það sama gildir um prestana. Hin skírðu eiga að vera myndug í hinu kirkjulega starfi. Við eigum að stefna að þátttökukirkju og dreifræði í kirkjunni. Að allir geti komið að kirkjulegu starfi og haft möguleika til áhrifa. Minnir alla á að kjósa því lýðræðisvakningin í kirkjunni þarf að takast vel. Hann mun beita sér fyrir því að biskupsstofa verði þjónustumiðstöð kirkjulífs, sem sendi til dæmis fólk til strax þegar vandamál koma upp. Við erum öll ábyrg í að vinna að lausnum, söfnuðum og kirkjulífi til blessunar.

Hvað viltu gera í málefnum presta sem sinna víðfeðmum prestaköllum? Hvað leggur þú til að hægt sé að gera til að styðja við bakið á litlum og févana sóknum?

Gunnar var prestur á Skeggjastöðum og þekkir þetta vel. Það verður að gera brauðamat svo við höfum mælikvarða á þjónustu í einstökum sóknum. Dreifðari byggðir geta þurft á fleiri prestum að halda. Ótækt er að ekki séu gerðir starfssamningar almennt við presta. Hann vill hjóla í sóknargjöldin og fá lögfræðimat á því hvernig á því stendur að ríkið heldur eftir fé. Hann vill að sóknir geti tekið gjald fyrir afnot af kirkju, en sóknarbörn fái gjaldfrjáls afnot.

Sigurður Árni hefur heyrt af duglegum prestum sem greiða með sér í embætti. Við eigum að greiða eðlilegan kostnað og útgjöld vegna starfsins. Ótækt er að prestar noti fjölskyldufé í akstur. Það má ekki grisja prestaköllin meira því þá koma eyður og blettir í þjónustuna. Eitt af fyrstu verkum nýs biskups verður að kalla breiðfylkingu kirkjufólks til að sækja féð, 500 milljónir á þessu ári sem ríkið heldur eftir. Mikið hægt að gera fyrir það í kirkjustarfinu. Best er sóknin þegar kirkjan er stöndug og öflug og sinnir góðu starfi.

Kristján Valur segir að prestar eigi ekki að bera kostnað af sínu embætti sjálfir. Gera þarf þeim erindisbréf þar sem þetta kemur skýrt fram. Kirkjujarðir stóðu áður undir meira en launum prestsins, þær stóðu líka undir starfinu. Þetta þarf að endurmeta. Við þurfum nýja hugsun, þeir ríku styðji þá fátæku.

Þórir Jökull segir að litlar og fjárvana sóknir eigi að njóta prestsþjónustu. Það er mikilvægast. Þessar sóknir eru hluti samfélags sókna. Það hlýtur að bíða okkar að stór svæði sem eru í þjónustu presta og prófasta séu óþægilega stór og sumstaðar svo stór að ekki sé unnt að veita þá ræktarsemi sem þörf er. Færa til fyrra horfs.

Þórhallur starfaði sem prestur í Svíþjóð. Þar voru 10 kirkjur. Hann bjó í Uppsala, tók strætó upp í sveit, þar beið bíll sem hann notaði í þjónustunni. Kirkjan okkar er stefnulaus. Við höfum ekki rætt almennilega hvernig við viljum hafa þessa hluti. Við þurfum að móta stefnu um það hvernig við viljum hafa þetta. Það sama gildir um litlu sóknirnar. Hann þjónar í 10 þúsund manna söfnuði í Hafnarfirði.

Einn þanki sem kviknar með mér á fundinum: Allir kandídatar vilja minni stjórnsýslu og meira kirkjustarf. En spurningarnar hverfast mjög mikið um skipulag. Hmmm …

Agnes bendir á að þetta sé spurning um hvar kostnaðurinn er færður. Við þurufm að finna út hvernig þetta er og það er samvinnuverkefni prests, safnaðar og yfirstjórnar. Við þurfum að vinna að því að sóknargjöldin hækki, að ríkið greiði það sem hefur verið lofað að greiða. Auka tekjurnar með ýmsum hætti. Jöfnunarsjóður þarf að nýtast betur en til framkvæmda.

Sigríður tekur undir allt sem hefur verið sagt. Prestarnir sem hafa ferðast saman eru öll sammála um þetta, það er einn kostur við sumargleðina. Þau hafa flækst víða og heimsótt marga. Ferðalögin hafa komið við budduna og það opnar augun. Hún vill líka nefna starfsmannamálin. Það þarf að sjá til þess að prestar séu hvíldir, til að halda vel utan um fólkið okkar. Við þurfum líka að ná aftur sóknargjöldunum.

Örn Bárður sagði áðan að skipulagsbreytingar myndu ekki frelsa kirkjuna, en það þarf að fara í saumana á skipulaginu. Presturinn á ekki að borga ferðakostnað úr eigin vasa. Við þurfum líka að skoða skipulagið, sumar ferðir þarf ekki að fara. Prestar eigi að sitja við sama borð. Hann borgaði með sér fyrstu árin í prestsstarfi. Við verðum að spyrja okkur eftir góðæristímann hvernig við ætlum að skipta kökunni og hvar við ætlum að halda úti starfi með lágmarks tilkostnaði en hámarks árangri. Það verður ekki reiknað í excel skjölum fyrir sunnan. Kannski þurfum við að fara úr kerfinu þar sem við fáum peninga sjálfkrafa og í samskot.

Innleiðing á nýju fyrirkomulagi án kynningar? Staða jafnréttismála.

Sigurður Árni segir að öll tilskikkunarstjórnsýsla skili litlu. Samtal og samráð er betra en fyrirskipun. Við þurfum að láta samtal vera einkenni kirkjustarfsins. Hann mun sem biskup sjá til þess að slík bréf verði ekki send út heldur bréf sem eru eðlileg niðurstaða. Hann er jafnréttissinni og vill stuðla að því að jafnréttisstefna þjóðkirkjunnar nái fram að ganga. Vill jafna rétt karla og kvenna og efla samstarf karla og kvenna, setja fræðslu forgang og huga að ákvæðum í starfsreglur um kynjasamþættingu.

Örn Bárður er sammála mörgu sem Sigurður Árni sagði. Hann er almennt á móti því að valdi sé beitt með tilskipunum, hvað þá að valdi sé misbeitt. Vill tala gegn valdbeitingu. Meira samráð um breytingar. Varðandi jafnréttismálin vill hann spyrja hvort Ísland sé réttlátt þjóðfélag. Við stefnum að réttlátu þjóðfélagi. Við stefnum að jafnréttiskirkju. Kirkjan á að standa við samþykktir sínar.

Sigríður segir að fyrri spurninngin varði samstarf. Við eigum að sýna samstarfsvilja en krefjast þess af okkar samstarfsaðilum að þeir sýni okkur virðingu. Sigríður skrifaði grein á vef sinn um jafnréttisstefnu og -mál. 110-0 staðan með ósýnileika kvenna í biskupsembætti. Telur stöðu jafnréttismála ekki nógu góða. Myndi sem biskup ráða starfsmannastjóra kirkjunnar og viðkomandi væri jafnframt jafnréttisfulltrúi. Kirkjan á að fara að stjórnsýslulögum.

Þórir Jökull bendir á að við lifum enn við það fyrirkomulag að furstinn setur sínar reglur, kirkjan vinnur á sviði guðsríkisins en er í heiminum. Samráð er alltaf best. Varðandi jafnréttisstefnu þá má kirkjan ekki gleyma því að hún getur þegið allan rétt af heiminum, en glatað sál sinni. Við þurfum að efla virðingu milli kynjanna í kirkjunni og enginn á að gjalda kynferðis síns í kirkjunni.

Gunnar segir nei og nei. Hann er alveg á móti því að prestar fái tilmæli án samráðs. Varðandi jafnréttismálin þarf ekkert að fjalla um það. Hjá honum starfaði prestur sem nú er komin til Frakklands. Hún átti marga úrskurði jafnréttisnefnda þar sem brotið hafði verið á rétti hennar. Þetta er ekki í góðu lagi.

Þórhallur bendir á að það séu óteljandi dæmi um svona tilmæli og tilskipanir. Það á að hafa samráð. Hann er jafnréttissinni, en trúir ekki á loforðapólítík. Sat sjálfur í jafnréttisnefnd í sjö ár. Verum eitt í Kristi.

Agnes segir að það séu slæm vinnubrögð að senda valdboð að ofan. Hún vill frekar grenndarstýringu en miðstýringu. Markmið jafnréttisstefnu er að stuðla að jafnri stöðu og rétti karla og kvenna. Þetta markmið hefur ekki náðst og meðan svo er þarf að vinna markvisst að því. Við eigum að fara markvisst eftir stefnum. Ekki stinga ofaní skúffu.

Kristján Valur er sammála að það er ekki góð stjórnsýsla að vera bara á fjarstýringunni. Við höfum enga aðkomu að þjóðskrá. Það er ljóst að staða jafnréttismála er ekki nægjanlega góð fyrr en ekkert er út á hana að setja. Hví býður Kristján sig þá fram? Ef hann er valinn þá losnar önnur staða biskups.

Hver eru brýnustu viðfangsefni þjóðkirkjunnar á næstunni?

Örn Bárður: Kirkjan þarf að biðja og iðja. Helgihald, kærleiksþjónusta og fræðsla eru brýnustu verkefni kirkjunnar frá upphafi. Erfið spor núna. Getum við bjargað kirkjunni? Nei. Ekki heldur eyðilagt hana. Hún er í hendi Drottins. Gerum okkar besta. Biðjum og iðjum.

Sigríður: Eiga samtal við þjóðina um trú og mannréttindi í fjölþættu samfélagi. Ræða fordómalaust um álitamál líðandi stundar. Efla tengslin við söfnuðina og styrkja þá. Dreifa valdi og efla lýðræði. Breyta stjórnkerfi kirkjunnar. Ekki sparka í bílinn, fara eftir veginum.

Þórir Jökull: Kirkjan þarf að finna staðfestu sína í þjóðlífinu. Vonin og trúin vísa til hins fullkomna sem kemur. Í því munum við eiga hlutdeild.

Gunnar: Vill að þjóðkirkjan fái að sinna því hlutverki sínu að vera boðberi fagnaðarerindisins, vill stuðla að meiri samhug og samvinnu. Við verðum eitt í Kristi.

Þórhallur: Verið gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess. Þegar kirkjan er gerandi orðsins eykst traust til hennar.

Agnes: Brýnasta verkefnið á hverri tíð er að boða orðið, í prédikun, með kærleiksþjónustu og fræðslu. Fjármál stofnunar og sókna eru mikilvæg. Tiltekt og skipulag á Biskupsstofu. Meiri áhersla á kynningarmál. Erindi kirkjunnar er best varðveitta leyndarmálið – við þurfum að miðla því góða starf. Þjóðkirkjufrumvarp. Brúa bil milli yfirstjórnar og safnaða.

Kristján Valur: Standa vörð um trúna meðal þjóðar og einstaklinga, tryggja tekjur safnaðanna, laga lögin um kirkjuna, efla samkennd, efla traust, syngja, biðja, lesa, syngja aftur.

Sigurður Árni: Þetta eru söngvar sumargleðinnar. Hann vill leggja áherslu á barna- og unglingastarfið. Taka höndum saman varðandi fjármál og snarauka tekjur. Ræða samstarf ríkis og kirkju. Huga að græðarastarfi, efla fólk til átaka. Kirkjan þarf að vera farvegur elsku Guðs. Það er mesta og stærsta verkefnið.

Fyrirspurn: Ef prestur segir af stóli að Guð sé bara til í huga mannsins, hvað gerir biskupinn þá?

Kristján: Það þarf að kalla prestinn og heyra hvað hann á við.

Sigríður: Kalla til, laga guðfræðina, ef ekki gengur þarf áminningu eða brottvísun.

Þórhallur: Vorkennir presti sem héldi svona fram. Ef hann meinar þetta myndi Þórhallur vilja hjálpa honum að losna undir ánauðinni að þurfa að boða það sem hann trúir ekki á.

Sigurður Árni: Svona mál koma upp öðru hverju og dæmin eru til í kirkjusögu okkar. Samtal er það fyrsta sem gert er. Hann þekkir dæmi þess að prestur hafi sagt af sér prestsskap vegna þess að trúin hvarf. Spurningin er líka um hirðisþjónustu í kirkjunni. Það er nándarskylda biskups að ganga inn í slíkt mál og leiða það til lykta. Allra aðila vegna.

Agnes: Kirkjan ber ábyrgð á þeim sem hún vígir til þjónustu. Hún á að sýna prestum umhyggju. Ef einhver prestur stendur í stól og hefur ekki trú verður að tala um málið og hjálpa prestinum að komast á rétta braut aftur – finna út hvernig viðkomandi geti tekist á við líf sitt og framtíð.

Þórir Jökull: Biskup er gæslumaður kenningarinnar. Honum ber þess vegna að tala við kennimanninn, áminna hann mjög alvarlega. Það sæmir ekki presti að boða trúleysi.

Örn Bárður: Maðurinn á tilvist sína í huga Guðs. Sá sem snýr þessu við hefur tekið sér stöðu almættisins og það er alvarlegt. Hann þarf samtal, sálgæslu, umhyggju. Sá sem ekki getur boðað trúna á að stíga til hliðar.

Gunnar: Hefur engu við þetta að bæta. Heyrist sem allir séu sammála.

Hvernig vilja þau efla starfsgleði presta?

Gunnar: Öflug símenntun. Fleiri tækifæri til að upplifa að við séum saman í hóp. Prestastefnur eins og þær voru í gamla daga.

Örn Bárður: Gagnvirkt samband biskups og presta. VIð erum kölluð til að flytja fagnaðarerindi og þurfum að vera glöð í þeirri þjónustu.

Þórir Jökull: Vandkvæðum bundið að svara spurningunni: Hvernig á ég að gleðja mann? Nauðsynlegt að vita hvar takmörk þjónustunnar liggja. Prestar eiga ekki að vera eins og stjörnur á markaði.

Agnes: Við prestarnir þurfum að passa upp á okkur sjálf. Símenntun. Prestakallaskipti. Prestar eru hluti af þjóðkirkjunni, þurfa að finna það. Umhyggja líka nauðsynleg. Söfnuðir geta haldið vel utan um prestana sína.

Sigurður Árni: Glaður prestur þjónar vel. Söfnuðir og biskupinn eiga að vera góðir við prestana sína. Biskup á að vera nálægur. Símenntun og handleiðsla eru mikilvægir þættir. Prófastar mikilvægir í því að gæta að velferð prestanna. Við eigum að afleggja einkyrkjaprestaköll.

Þórhallur: Hamingjunámskeið eru svarið. Hefur haldið þau um allt land. Gera meira af því að kalla presta á hamingjunámskeið. Hefur aldrei fengið upphringingu frá biskupi nema til að skamma. Endurvekja gleðilegar prestastefnur.

Sigriður: Glaður biskup eflir starfsgleði. Hvatning og uppörvun og athygli skiptir máli. Biskup á ekki prestana. Efla samstarf og samstarfssvæði.

Kristján Valur: Það skiptir máli að efla traustið milli presta og biskups.

Lokaorð

Agnes: Um allt land er blómlegt starf í söfnuðum. Það er samvinnuverkefni. Kirkjan okkar hefur átt erfitt, en það er tími til kominn að líta björtum augum til framtíðar. Hún þráir frið í og um kirkjuna okkar. Saman eflum við traust og kirkju.

Kristján Valur: Er svolítið dapur yfir því að þetta sé síðasti fundurinn. Við þurfum að halda áfram samtali kolleganna og kirkjufólksins um grundvallaratriði. Hann fær að skíra tvö börn á morgun í sitthvorri athöfninni. Það er hin lifandi kirkja og þar er ekkert rof milli kirkju og þjóðar og kirkju og trúar.

Þórhallur: Sérstakt að standa hér við lok þessarar vegferðar. Ein mynd er sterk í huga hans frá ferðunum um landið. Grímsstaðir á Fjöllum í febrúar. Fann hvað kirkjan er í góðum mótttökum þar. Gott samfélag. Hvetur leikmennina til að hlusta ekki á loforðin heldur hugsa um verk frambjóðenda, hvað hafa þau gert. Getum við átt gott samfélag? Með hverjum vilja þau helst vinna?

Sigríður: Á Norðurlandi eru bestu þjóðsögur á Íslandi. Bakkabræður fóru einu sinni og byggðu hús og það voru engir gluggar og þeir báru sólskin í húfum. Svo kom maður og opnaði gátt. Við erum oft að rembast við að bera inn sólskinið sem er Kristur í stað þess að rjúfa þekjuna. Burt með prestakirkju og aðgreiningu, verum saman í kirkjunni og byggjum hana sameiginlega upp.

Þórir Jökull: Hann biður þess að litið sé á bón hans um atkvæði sem ósk um velferð kirkjunnar. Það myndi gleðja hann að sjá þjóðkirkjuna blómstra og eiga trúnað safnaða hennar og fulltrúanna allra. Efla samhug og treysta innviði.

Sigurður Árni: Hvernig líður þér ef enginn sér þig eða heyrir? Ef þín góðu verk eru ekki metin? Þá líður okkur illa. Við þurfum að vera til staðar og vera séð og heyrð og þannig er það líka í kirkjunni. Biskupinn þarf að heyra og sjá og meta og virða og efla og styðja. Þannig er líka þetta gleðiefni himinsins. Guð sér og heyrir og metur og virðir og eflir. Við erum í fangi Guðs. Biskupsembættið er það embætti sem hefur mesta möguleika og við eigum að líta á kirkjuna sem farveg möguleikanna sem Guð skapar, alls þess góða sem getur orðið í þágu fólks og þjóðar. Hann vill þjóna kirkju möguleikanna.

Gunnar: Hér eru átta ljós sem lýsa leiðina í biskupsgarð. Í hans söfnuði er fullorðin kona sem mætir í allar messur. Kom svo ekki einn daginn. Þá var spurt hvar hún væri. Nokkrir hringdu í hana og fleiri bönkuðu upp á. Þá hafði sonurinn bankað upp á og hún komst ekki. Vill vera biskup í kirkju þar sem er mikil umhyggja. Ef einhvern vantar þá vitum við af því.

Örn: Kona hans hefur líknað deyjandi fólki vel. Fór á ráðstefnu í vetur. Það mikilvægasta sem deyjandi fólk þarf er nærvera, hlýja og kærleikur. Þetta eflir og læknar fólk, eflir ónæmiskerfið. Verkefnið er að endurnýja kirkjuna og þjóðfélagið. Við getum læknað, skulum taka utan um hvert annað, kirkjuna og samfélagið. Góður dagur. Kirkjan er í hendi Drottins.

*

Jón Ármann þakkaði biskupsefnum og fundargestum í lokin og bað öllum blesssunar.

Þar með lýkur þessum fundi. Framundan er loka-lokasprettur kosningabaráttu Biskupsgleðinnar. Kjörseðlar koma í hús á mánudag og svo verðu talið 23. mars.

Lokaorð

One response

  1. Haffi Avatar
    Haffi

    Hver er þarna með pálmann í höndunum?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.