Gleðidagur 50: Von dregur úr fátækt

Páskaliljur

Í Economist sem kom út um miðjan mánuðinn segir frá rannsóknum Esther Duflo. Hún er hagfræðingur og starfar við MIT í Bandaríkjunum. Esther flutti erindi þriðja maí síðastliðinn þar sem hún færði rök fyrir því að sum átaksverkefni gegn fátækt hefðu meiri áhrif en ella vegna þess að þau leiddu til þess að þátttakendur í þeim öðluðust von um að þeirra gæti beðið meira en lífsbaráttan ein.

Hún sagði m.a. frá verkefnum á Indlandi sem miðuðu ekki aðeins að þú að veita fjárhagslega aðstoð heldur gerðu fólk myndugt og veittu því reisn með því að láta þeim í té kú, geitur eða kjúklinga sem þau gátu notað til að framleiða afurðir sem mátti svo selja. Á bak við verkefnin stóð smálánafyrirtækið BRAC.

Það sýndi sig að fólkið sem fékk þessa umframhjálp náði auknum árangri. Hvers vegna? Ein tilgátan er sú að það sé vegna þess að þau öðluðust von um að breytingar á kjörum þeirra og aðstöðu væru mögulegar. Vonin varð svo drifkraftur frekari breytinga.

Þetta voru góð skilaboð á fimmtugasta og síðasta gleðideginum því gleðidagarnir hafa öðru fremur snúist um vonina.

Við látum þetta vera síðustu orðin í gleðidagabloggi ársins 2012, þökkum ykkur samfylgdina og óskum lesendum öllum gleðilegrar hvítasunnuhátíðar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.