Kvennafrídagur og krabbamein

Krabbamein og baráttan gegn því er samfélagsmál en ekki einkamál. Þú ert ekki ein þegar þú greinist. Þú átt rétt á stuðningi og úrræðum, þjónustu og umönnun. Þú átt í samferðafólki þínu samhygð, hlýju og hjálp. Þú hvílir í stuðningsneti sem er haldið uppi af öðrum konum, systrum, dætrum, mæðrum, vinkonum. Þú finnur það hér í kirkjunni í dag að við stöndum saman. Þú finnur að enn er von.

Kvennafrídagurinn er dagurinn þar sem við réttum úr okkur, lítum yfir sviðið og horfum á hverja aðra. Og við sjáum að saman búum við yfir gífurlegum krafti. Krafti til að breyta lífi og líðan kvenna á öllum aldri, í öllum stéttum, fatlaðra og ófatlaðra, gagnkynhneigðra og lesbía, heilbrigðra og sjúkra. Kvennafrídagurinn minnir okkur á frelsið sem við allar þráum og eigum að gera að veruleika í lífinu okkar.

Kvennafrídagurinn minnir okkur líka á ábyrgðina sem við höfum gagnvart hver annarri og skylduna sem við allar höfum til að berjast fyrir réttindum kvenna. Sérstaklega þeirra sem veikjast og geta tímabundið eða langvarandi ekki borið hönd fyrir höfuð sér.

Megi stuðningsnetið í kringum þig, megi konurnar í lífi þínu, minna þig á vonina sem þér er ætluð. Megir þú finna í kirkjunni í dag að þú ert umvafin kærleika Guðs, sem er skapari þinn og hefur myndað þig í móðurlífi. Þú verður örugg því að enn er von, nýtur verndar og sefur óhult.

Úr prédikuninni Enn er von sem var flutt í bleikri messu á kvennafrídegi 2012.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.