Aðventa og breytingastjórnun

Jólastjarna

Það er gott að enduruppgötva aðventuna og boðskap hennar með því að einfalda og hægja á. Orð Jesú í samkunduhúsinu (sem var eins konar kirkjuhús Gyðinganna) slá tóninn fyrir aðventuna og gefa henni merkingu hér og nú.

Andi Drottins er yfir mér
af því að hann hefur smurt mig.
Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap,
boða bandingjum lausn
og blindum sýn,
láta þjáða lausa
og kunngjöra náðarár Drottins.
Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“ (Lk 4)

Jesús beinir sjónum þangað sem skórinn kreppir. Til hinna fátæku meðal okkar. Þangað sem skortur ríkir. Við skulum horfa þangað með honum. Af nógu er að taka. T.d. var mikið af dagskrá Rúv helguð fátækt í heiminum heilan dag í nýliðinni viku og þar kom margt áhugavert fram. Fátækt getur í okkar samhengi þýtt t.d. skort á menntun og heilbrigðisþjónstu og leitt til félagslegrar einangrunar.  Fátækt getur líka fylgt skömm sem eykur á umfang vandans. Sérfræðingar hafa bent á að það sé mjög erfitt að fá fólk til að tjá sig um eigin fátækt og deila reynslu sinni, því það sé svo mikil skömm að vera stimpluð fátæk. Þarna þarf samfélagið að taka höndum saman – og við getum látið aðventuna verða afl til breytinga.

Við viljum nota orðið búsáhaldaaðventa yfir þetta.  Að okkar mati tengist forskeytið búsáhalda- friðsamlegum mótmælum sem leiða til breytinga.  Búsáhaldaaðventan beinir sjónum okkar inn á við, til barnanna í kringum okkur, inn á heimilið, inn í eldhús, til þess sem vex og dafnar í nærumhverfinu okkar, til hins veika og smáa sem verður undir í kapphlaupinu um það sem er nýjast, dýrast, stærst og best.

Búsáhaldaaðventan er algáð og heldur vöku sinni gagnvart þeim sem standa höllum fæti en hún gleðst líka yfir góðra vina fundi og samveru sem skapar og byggir upp. En hún setur spurningamerki við eyðslu og dýrar skemmtanir, gervigleði og utanaðkomandi kröfur um efnisleg gæði.

Látum aðventuna verða afl til breytinga í okkar eigin lífi og í samfélaginu okkar. Tökum Jesús til fyrirmyndar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.