Ekki endilega fyrstur í mark

Tómas Viktor á nýárssundmóti fatlaðra barna og unglinga

Tómas Viktor, sem er næstyngstur barnanna á heimilinu, tók þátt í Nýárssundmóti fatlaðra barna og unglinga sem var haldið í Laugardalslauginni í dag. Þarna voru saman komnir krakkar og foreldrar sem æfa sund og eru mörg hver meistarar. Sum voru að stíga fyrstu skrefin á sundbrautinni, önnur þrautreyndir sundkappar sem hafa jafnvel keppt um árabil. Við sáum einn ólympíumeistara á mótinu í dag og erum viss um að fleiri leynast í hópi keppenda.

Á þessu móti er það því ekki endilega sá eða sú sem fyrst kemur í mark sem vinnur besta afrekið, heldur sá eða sú sem nær bestum tíma miðað við sinn flokk.

Við lásum þessi orð í bæklingnum sem við fengum afhentan á mótsstað. Þetta er áminning um að fötluðu íþróttamennirnir sem kepptu á mótinu voru ekki öll í sama flokki og þar af leiðandi er árangurinn ekki endilega sambærilegur. Sundkappi getur náð framúrskarandi árangri þótt hann sé ekki fyrstur í sínum riðli. En þetta miðlar líka grunngildi alls íþróttastarfsins sem er viljinn til að gera betur, sama hvert formið er.

Við þurfum ekkert endilega að vera best af öllum, en það er gaman að vera betri en við vorum sjálf í gær eða í fyrra.

Fleiri myndir frá mótinu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.