Daglega sorgin mæðir – tuttugasti og níundi Passíusálmur

Dramatíkin heldur áfram. Samkvæmt hefð átti á láta lausan fanga í aðdraganda páskahátíðarinnar þegar frelsunarinnar af Egyptalandi var minnst. Pílatus reyndi að fá Jesú lausan út á þessa hefð en á það mátti fjöldinn ekki heyra minnst. Ekki heldur þegar valið stóð á milli Jesú og morðingjans Barabbasar. Það hljóp á snærið hjá Barabbasi þennan dag, þegar hann fékk að ganga laus á meðan Jesús var færður til aftöku.

Ég hef alltaf séð Barabbas fyrir mér sem algjöran hrotta – svona Vítisenglatýpu. Kannski til að skapa sem mesta andstæðu við Jesú, boðbera friðar, kærleika og hjálpsemi.

Hallgrímur tekur aðra líkingu og lítur til Adams. Í hans augum er Barabbas táknmynd mannkynsins sjálfs, sem Adam steypti í glötun í aldingarðinum í denn. Og þegar Barabbas gengur sigri hrósandi út úr fangelsinu, sér Hallgrímur Adam og alla afkomendur hans spígspora fagnandi burt.

Þar sem mannkyn er komið af hinum seka Adam, lýtur það lögmálum syndarinnar, og er ofurselt kvíða, dauða og depurð. Það eru aðstæður sem Hallgrímur á auðvelt með að setja sig inn í. Lífið er alltof oft markað af myrkri og sorg.

Í myrkvastofu ég bundinn bíð,
bölvan lögmáls mig hræðir;
dapurt nálægist dauðans stríð
og dómsins tíð;
daglega sorgin mæðir.
(Ellefta vers í tuttugasta og níunda sálmi)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.