Játning kvennanna

Ég trúi á GUÐ, skapara heimsins og alls sem er, sem skapaði konur og karla í mynd sinni og líkingu, sem skapaði heiminn og fól báðum kynjum ráðsmennsku jarðarinnar.

Ég trúi á JESÚ, son Guðs, hinn útvalda Guðs, sem var fæddur af konu, hlustaði á konur og kunni að meta þær, gisti í heimilum þeirra og talaði við þær um Guðsríkið, sem átti konur að lærisveinum, sem fylgdu honum og lögðu honum lið.

Ég trúi á Jesú sem talaði við konuna við brunninn um guðfræði og treysti henni, fyrst af öllum, fyrir því að hann væri Messías, og hvatti hana til að fara í þorpið og segja fagnaðarerindið – hún var fyrsta konan sem prédikaði fagnaðarerindið.

Ég trúi á Jesú, sem konan hellti ilmsmyrslum yfir og smurði hann sem Guðs útvalda í húsi Símeons, sem skammaði mennina sem gagnrýndu hana, sem læknaði konu á hvíldardeginum og gerði hana heila af því að hún var manneskja.

Ég trúi á Jesú sem líkti Guði við konu sem hafði tapað peningi og hreinsaði húsið allt í leit að honum.

Ég trúi á Jesú sem sá í meðgöngu og fæðingu líkingu fyrir breytingu, nýja fæðingu frá sársauka til gleði.

Sem var svikinn, krossfestur, yfirgefinn, og dó til að allt sem lifir mætti eiga líf í fullri gnægð.

Ég trúi á hinn upprisna Jesú, sem birtist fyrst konunum sem komu saman með Maríu Magdalenu, fyrsta postulanum, og sendi þær til að bera áfram boðskapinn undursamlega: „Farið og segið …“

Ég trúi á HEILAGAN ANDA, sem sveif yfir vötnunum við sköpunina og yfir jörðinni.

Ég trúi á heilagan anda, helgandi anda Guðs, sem leiðir okkur saman, safnar okkur og verndar, eins og hæna umvefur kjúklinga með vængjum sínum.Úr litúrgíu fyrir alþjóðlegan baráttudag kvenna.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.