Gleðidagur 2: Sjálfstraust í stað vonleysis

Youth meets Technology

Þegar við vöknuðum í morgun, dísæt eftir páskaeggjaát gærdagsins tóku morgunverkin við. Eitt þeirra var að líta yfir samfélagið á Facebook og þar fundum við vísun á grein í Guardian sem fjallar um ungt fólk sem hefur greinst á einhverfurófi og haslar sér nú völl í viðskiptalífinu. Þau eru öðruvísi en það reynist þeim styrkleikur.

Ástæðan er líklega tvíþætt: Þau búa yfir miklum hæfileikum og fólkið í kringum þau hefur leyft þeim að blómstra þannig að þau eru full af sjálfstrausti:

Þau koma út úr skólakerfinu, og sum hver hafa lokið doktorsprófi, full af sjálfstrausti og einbeitingu. Það leiðir til breytinga í fyrirtækjum sem áður fyrr lokuðu dyrunum fyrir hinum einhverfu. Breytingin á sér til að mynda stað hjá lögmannsstofum, bönkum og heilsugæslufyrirtækjum, þar sem ungt fólk sem áður var aðeins talið ráða við einföld verkefni, verður hluti af starfseminni.

Það er gott verkefni að búa þannig að þeim sem eru öðruvísi í samfélaginu okkar að hinar raunverulegu gáfur þeirra fái notið sín.

Á öðrum gleðidegi viljum við þakka fyrir sjónarhorn og framlag þeirra einhverfu og fyrir þau sem fylla hin einhverfu af sjálfstrausti gagnvart því sem þau geta frekar en vonleysi gagnvart því sem þau geta ekki.

Myndin með færslunni af Tómasi Viktori sem er þræleinhverfur. Hann býr yfir undursamlegri forvitni og hefur innsæi í virkni snjalltækja langt umfram systkini sín. Okkar verkefni er að finna þessu farveg þannig að hann fái að njóta sinna gjafa, eins og systkinin öll.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.