
Við hjónin skelltum okkur í bíó í gærkvöldi, keyptum popp og kók og komum okkur vel fyrir í flennistórum sal í Kringlubíói til að horfa á sumarmyndina Olympus has Fallen. Tæknilega er hún reyndar vormynd því hún var frumsýnd í mars, en hér á Íslandi fögnum við sumri snemma.
Þetta er dæmigerð hasarmynd sem fjallar um yfirtöku hryðjuverkamanna á Hvíta húsinu í Washington. Að þessu sinni koma þrjótarnir frá Norður-Kóreu, en þeir hafa sömu einkenni og hryðjuverkaþrjótar í amerískum stórmyndum: Eiga harma að hefna og berjast í þágu réttlætisins og beita til þess óvönduðum meðölum.
Þeir hafa hins vegar ekki reiknað með ofurhetju myndarinnar sem er leyniþjónustumaðurinn Mike Banning. Hann er að jafna sig eftir áfall í starfi en það kemur ekki í veg fyrir að hann afklæðist sorg og áfallatstreitu og klæðist búningi bandaríska ofurmennisins sem bjargar öllu nokkurn veginn einn og sýnir hryðjuverkamönnunum í tvo heimana – og reynist vera jafn ósvífinn og þeir. Í þágu réttlætisins.
Banning er starfsmaður á plani, þjónustu- og verkamaður, og sem slíkur hetja sem kallast á við á fyrsta dag maímánaðar.
Myndin var æsispennandi á köflum en kannski full einföld. Hún vekur samt til umhugsunar um baráttuna fyrir réttlæti og dýrkun ofbeldisins sem margar svona myndir fela í sér. Stiklurnar á undan gáfu svo fyrirheit um spennandi bíósumar.
Á þrítugasta og fyrsta gleðidegi látum við okkur hlakka til sumarsins og alls sem því fylgir, til dæmis að sjá hressilegar og háværar bíómyndir á stóru tjaldi.
Skildu eftir svar