Gleðidagur 50: Undir birkitré

Hjónaefnin
Brúðurin kemur brúðgumanum til hjálpar stuttu fyrir hjónavígsluna.

Á hvítasunnudegi fyrir þremur árum gengum við í hjónaband. Sólin skein og lýsti upp daginn sem var alveg hreint dásamlegur, svona eins og slíkir dagar eiga að vera. Við nutum þess að undirbúa daginn saman. Frábæru fjölskyldurnar okkar lögðu líka sitt af mörkum til að allt yrði sem eftirminnilegast.

Það tókst.

Á brúðkaupsdegi koma fjölskyldur saman og til verður eitthvað nýtt og undursamlegt. Við sem mættumst fyrir altarinu til að tjá ástina okkar til hvors annars og til lífsins fengum líka tækifæri til að horfa yfir gestahópinn sem samanstóð af ættingjum og vinum og góðum kunningjum og finna hvað við erum heppin að hafa svona gott fólk í lífinu okkar.

Á fimmtugasta gleðidegi erum við full af undrun og þakklæti yfir lífinu okkar saman og yfir hvort öðru og börnunum okkar. Við gleðjumst saman og með öllum þeim sem eiga einhvern  sem þau elska út af lífinu og elskar þau.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.