Aukið samráð, meira gegnsæi

Alþingishúsið

Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar segir meðal annars:

Áhersla verður lögð á að bæta stjórnsýslu og þjónustu ríkisins, m.a. með auknu samstarfi ríkis og sveitarfélaga, rafrænni stjórnsýslu og hagnýtingu upplýsingatækni í samskiptum við íbúa.

Í yfirlýsingunni er líka talað um samráð. Orðið kemur alls átta sinnum fyrir í mismunandi samhengi og rætt er um samráð við aðila vinnumarkaðarins, sveitarstjórnir, samtök í sjávarútvegi, þá sem starfa í sjávarútvegi, þá sem starfa við matvælaframleiðslu, fagfélög heilbrigðisstétta og hagsmunaaðila í heilbrigðiskerfinu, hagsmunaaðila í menntakerfinu og sveitarfélög.

Það hefði einnig verið ástæða til að nefna aukið samráð við borgarana og gegnsæi stjórnsýslunnar sérstaklega. Kannski má líta svo á sem það felist í orðunum sem vitnað er til hér að ofan um rafræna stjórnsýslu og hagnýtingu upplýsingatækni í samskiptum við íbúa. Það hefði samt verið betra að nefna þetta sérstaklega. Hér er nefnilega um að ræða aðferð og verkefni sem felur í sér mikilvægt skref í átt að því að bæta þjónustu ríkisins, valdefla borgarana og auka traust á báða bóga.

Fjögur þroskastig rafrænnar stjórnsýslu

En hvað getur falist í þessu? Vísbendingu um það má finna með því að skoða hvernig staða rafrænnar stjórnsýslu er mæld. Það er m.a. gert á vegum Sameinuðu þjóðanna, nánar tiltekið United Nations Public Administration Network (UNPAN). Í þeirra könnunum er talað um fjögur þjónustu- eða þroskastig rafrænnar stjórnsýslu:

  1. Upphafsstig. Vefir eru notaðir til að miðla miðla upplýsingum. Gagnvirkni er engin.
  2. Þróað upplýsingastig. Bætt hefur verið viðeinfaldri gagnvirkri þjónustu, s.s. eyðublöðum sem má hlaða niður.
  3. Gagnvirk þjónusta. Aukin gagnvirkni hefur bæst við, s.s. möguleiki á fyrirspurnum og samtali um stefnumál sem eru til meðferðar hjá stofnun o.fl. Notendur eru auðkenndir.
  4. Samtengd þjónusta. Grundvallarbreyting hefur átt sér stað á samskiptum almennings og ríkisstofnana, notaðar eru ýmsar gagnvirkar leiðir til að eiga samskipti og þátttaka almennings hefur aukist mikið.

Við eigum að sjálfsögðu að stefna að því að á Íslandi sé veitt þjónusta á fjórða stiginu þannig að almenningur geti til dæmis sótt þjónustu allra ríkisstofnana í gegnum eina þjónustugátt. Slíkt er talið auka traust og valdefla borgarana.

Opið samráð

Það er líka mikilvægt að boðið sé upp á samráð á öllum stigum mála: þegar mál kemur fram sem hugmynd, meðan það er í vinnslu hjá nefndum, starfshópum og í ráðuneytum, þegar það kemur inn á Alþingi og er til meðferðar þar.

Borgararnir í landinu þurfa að gera komið á framfæri athugasemdum við mál og málsmeðferð á öllum þessum stigum. Borgaranir þurfa einnig að finna að á þá sé hlustað og að mark sé tekið á þeirra framlagi. Skref í þá átt er hægt að stíga með snjallri notkun á rafrænni stjórnsýslu sem miðar að því að bæta samtal borgaranna, embættismanna í stjórnkerfinu og kjörinna fulltrúa okkar.

Forsenda þess er sú að við komum okkur saman um leikreglur lýðræðisins í samfélagi opins samráðs og aukins gegnsæis. Það er eitt af verkefnunum sem eru framundan.

Við eigum marga sérfræðinga á sviði rafrænnar stjórnsýslu og upplýsingatækni sem hafa mikla innsýn í það hvaða fyrirkomulag má hafa á svona samráði. Ég vona að hægt verði að virkja þá í vinnunni sem er framundan og hlakka til að sjá hvernig þessum hluta stjórnarsáttmálans reiðir af.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.