Ert þú Walter Mitty?

Afi las ástarsögur.

Hann var smiður og vann alla ævina með höndunum sínum og var sterkur kall og duglegur. Naut þess að vera úti við og ferðast. En hann las ekki bara Íslendingasögur eða dæmigerðar karlabókmenntir heldur las hann líka ástarsögur. Ég man eftir því að mamma sagði mér frá þessu eftir að hann dó og mér fannst það svolítið flott.

Það gerði hann sérstakan.

Ég ætla að tala um ástarsögur við ykkur í dag. Við hjónin skelltum okkur nefnilega í bíó og sáum hina myndina sem allir eru að tala um þessa dagana – þ.e.a.s. ekki Hobbitann heldur söguna um Íslandsvininn Walter Mitty. Það er eitthvað heillandi við þessa bíómynd og janúar er góður bíómánuður þegar við lyftum okkur upp með ljósinu á hvíta tjaldinu í skammdegismyrkrinu.

Sögurnar á hvíta tjaldinu eru speglar. Við notum þær til að skoða okkur sjálf og fólkið okkar og samfélagið okkar. Þegar við horfum á Walter Mitty kvikna alls konar spurningar. Til dæmis:

  • Hvaða mynd birtist þarna af Íslandi og passar hún við myndina okkar – af því að myndin er tekin upp á Íslandi og Ben Stiller er Íslandsvinur og segir Ísland eitt fallegasta land í heimi – þá viljum við kanna hvort myndin hans er líka myndin okkar.
  • Hvernig líst okkur á persónurnar í myndinni? Hverjar eru geðþekkar og hverjar eru það ekki? Er einhver sem er eins og ég? Líkjumst við Walter Mitty sjálfum eða Cheryl sem hann er svo skotinn í eða kannski ævintýramanninum og ljósmyndaranum Sean O’ Connell?

Við mátum okkur við það sem við sjáum á skjánum og reyndar ekki bara persónur heldur líka aðstæður. Þess vegna virka bíómyndirnar svona vel í lífinu.

* * *

Myndin um Walter Mitty er þroskasaga. Hún er sett í samhengi tímaritsins Life – þar sem Walter starfar. Hann er fulltrúi gamalla tíma sem umsjónarmaður ljósmyndasafns á filmum. Hann stendur að því leyti fyrir fortíðina sem er ógnað af samtíma sem er stafrænn og fullur af hraða. En það kemur líka í ljós að Walter Mitty er fangi fortíðarinnar því hann missti pabba sinn og komst kannski aldrei yfir það. Væntingar og framtíðarsýn bernskunnar fengu því aldrei að verða að veruleika fullorðinsáranna.

Á hverjum degi þegar hann kemur í vinnuna gengur hann framhjá krassandi ljósmyndum sem hafa prýtt forsíðu tímaritsins sem hann starfar hjá og getur um leið lesið lífsmottóið sem er svona:

„Að sjá heiminn, að mæta því sem er hættulegt, að skyggnast á bak við tjöldin, að nálgast, að finna hvert annað, að finna til. Það er markmið Lífs.“

En hann er fjötraður og fangi og lifir í raun sístæða sorg sem er eins og kúla sem hangir um fótinn og kemur í veg fyrir að hann geti hafið sig til flugs. Walter lætur því dagdraumana nægja og áhorfandinn fær að fylgjast með honum hverfa inn í þá. Hann dreymir um glæst afrek og breytt samskipti við fólkið í vinnunni og hann dreymir um hana Cheryl.

Svo rennur upp ögurstund og Walter þarf að hrökkva eða stökkva. Annað hvort hverfur hann dýpra inn í skelina sína eða hann heldur af stað út í óvissuna og sér hvað setur.

Þannig hefst sagan, ævintýrið, ástarsagan um Walter Mitty. Ég ætla ekki að segja ykkur meira um það sem gerist í myndinni því maður má ekki kjafta og eyðileggja skemmtunina.

Þið þurfið bara að njóta myndarinnar. Helst á stórum skjá því hún er falleg. Gjarnan með einhverjum sem skiptir ykkur máli því hún fjallar um nándina og tengslin milli fólks og um lífið sjálft í allri þess dýrð.

* * *

Guðspjall dagsins er sagan af Jesú í musterinu. Hann var staddur í stórborginni Jerúsalem með foreldrum sínum. Það var hátíð og þess vegna voru þau komin. Strákurinn sem var bara tólf ára fór eitthvað frá þeim og þegar þau fóru heim var hann ekki með, en þau áttuðu sig ekki á því. Og af því að ég nefndi kvikmyndir áðan þá var þetta kannski svona Home Alone saga. Foreldrarnir lögðu upp í langferð og héldu að stráksi væri með í för en hann varð eftir. Þau vissu ekki hvar hann var og leituðu hans í fjóra daga og voru væntanlega orðin mjög hrædd eins og maður er þegar barnið manns er týnt. Svo finna þau hann í musterinu, í góðu yfirlæti, og þá gerðist það sem gerist stundum af því að pabbar og mömmur ráða ekki alltaf við tilfinningarnar sínar. Þau skömmuðu hann:

Barn, hví gerðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin. Jesús svaraði fyrir sig og setti þetta í samhengi. Hann var í musterinu, að læra og spyrja – hann var að kenna.

Hvað er verið að segja okkur með þessu? Ja, ekki gleyma barninu þínu er ein lexían. Maður þarf að vera þar sem maður þarf að vera er önnur. Við eigum að eiga falleg samskipti við foreldra okkar er þriðja lexían, en við þurfum líka að muna að við erum ekki þau. Við erum við. Fjórða lexían er ætluð foreldrum sem þurfa að virða börnin sín um leið og þau muna að stundum þarf að sleppa af þeim takinu því þau eru þau.

* * *

Ég sagði að myndin um Walter Mitty væri ástarsaga. Hvað er það við ástarsögurnar sem heillar? Ein skýring er sú að ástarsögur fjalla um það að tilheyra. Þær eru sögurnar þar sem einn segir við annan: Þú ert í lagi. Ég kann vel við þig. Þú skiptir mig máli. Og gengur jafnvel enn lengra og segir: Ég við að lífið mitt tengist lífinu þínu, að lífið mitt og lífið þitt verði lífið okkar.

Þetta eru sögur sem fjalla um breytingar í lífinu. Um það þegar eitthvað nýtt verður til. Og ekki bara hvaða breytingar sem eru til góðs. Þær fjalla um það þegar lífið verður betra.

Sagan af Jesú er líka ástarsaga. Takið eftir því hvernig Jesús kemur fram við aðra – til dæmis í sögunni í guðspjalli dagsins. Hann virðir foreldra sína en er trúr köllun sinni. Hann fer í musterið og þar situr hann og spjallar og spyr. Þannig sýnir hann þeim sem þar eru virðingu.

Síðar lesum við um það þegar hann fór til að kenna og lækna og hjálpa. Hvers vegna? Vegna þess að hann elskar fólk og vill því vel. Það er uppspretta sögunnar af kirkjunni. Sem er samfélag þeirra sem elska. Við köllum það náungakærleika.

* * *

Afi las ástarsögur sagði ég í upphafi. Ég les þær líka. Svo erum við alltaf að horfa á ástarsögur. Þær hreyfa við okkur. Ég held að það sé vegna þess að við lifum í ástarsögu. Annars vegar ástarsögunni sem er lífið okkar – fullt af fyrirheitum og væntingum um breytingar til góðs. Hins vegar ástarsögu Guðs sem verður kannski sýnilegust í Jesú frá Nasaret.

Og þótt sagan okkar sé ekki endilega sagan af Walter Mitty þá getum við fundið okkur í sams konar stöðu og hann. Við getum – við ákveðnar aðstæður – verið Walter Mitty. Upp rennur ögurstund og við þurfum að hrökkva eða stökkva. Að hrökkva er að hörfa og tapa. Að stökkva er að játast lífinu og öðru fólki og horfa elskandi augun á óvissuna sem er lífið.

Við skulum stökkva. Því lífið er gott.

Dýrð sé Guði sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur til að við fengjum öll að kynnast þessari ást og dýrð sé heilögum anda sem er þessi ást.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.