65% meiri gleði

Brúðkaupið

Ein af stærstu gleðistundum lífsins er þegar við göngum í hjónaband. Eða þegar við erum viðstödd þegar einhver okkur nákominn heitir því fyrir augliti Guðs og safnaðarins að elska og virða makann sinn í hverjum þeim kjörum sem Guð lætur þeim að höndum bera.

Brúðkaup eru líka sívinsælt viðfangsefni kvikmyndanna, þar sem innihald stundarinnar þegar fólk játast hvort öðru opinberlega, virðist bjóða upp á sérlega marga möguleika til að draga upp áhugaverð samskipti og draga upp litríka mynd af mannlegum tilfinningum.

Myndir eins og Four Weddings and a Funeral, My Best Friend’s Wedding og Bridesmaids koma upp í hugann, líka íslenskar kvikmyndir eins og Brúðguminn og Sveitabrúðkaup.

Í hinni klassísku Fjögur brúðkaup og jarðarför, gegna brúðkaupin því hlutverki að vera rammi utan um sögu aðalpersónanna, og vettvangurinn þar sem hlutirnar gerast. Í brúðkaupi verða ný sambönd til, játningar eru gerðar. Sorgir rifjast upp og einstaklingurinn horfir inn á við og leggur mat á eigin tilfinningar og hvernig þeim hefur reitt af í lífsins ólgusjó. Ást og gleði brúðhjónanna verður þeim sem eru viðstödd spegill sem nær alla leið til hjartans þar sem sönnustu og óvægnustu tilfinningarnar okkar allra eru.

Brúðkaup dagsins átti sér stað fyrir löngu síðan. Næstum því tvöþúsund árum. Sem minnir okkur á að helgisiðir og hátíðir á krossgötum mannsævinnar, hafa alltaf fylgt manneskjunni. Ef fólki blöskrar viðbúnaður, fyrirhöfn og kostnaður við brúðkaup sem eru haldin í dag, er áhugavert að skoða brúðkaupssiði og umgjörð veislunnar fyrr á tímum. Bæði íslenskar heimildir og sögur frá fjarlægum menningarsvæðum leiða í ljós að brúðkaup voru engir smá viðburðir – heldur meiriháttar samkomur sem tóku marga daga, með tilheyrandi magni af mat og drykk handa gestum.

Brúðkaupið í Kana segir frá fyrsta tákninu – eða kraftaverkinu – sem Jesús gerði á starfsævi sinni. Brúðkaupið er ramminn fyrir atburðarrás sem á að segja okkur eitthvað mikilvægt, um það hver Jesús er, hvernig hann starfar, hvernig hann tengist fólki og hvaða hlutverki hann gengdi í lífi fólks.

Meira vín!

Af því að þetta er skemmtileg saga og gerist í skemmtilegu umhverfi sem fangar hugann, er kannski auðvelt að láta sér undirtón sögunnar fram hjá sér fara. Það er miklu nærtækara að nema staðar við sniðug atriði í sögunni – eins og að Jesús notar fyrsta kraftaverkið til að redda vinum sínum meira áfengi. Eða að hann þráttar svolítið við móður sína – sem gerir eins og mömmur gera stundum, fara að skipta sér af og reyna að stjórna börnunum sínum, þótt þau séu löngu orðin fullorðin!

Já, Jesús breytti vatni í vín, í brúðkaupinu í Kana. Ég get vel ímyndað mér að það sé nett pirrandi fyrir þau sem hafa áhyggjur af ofurvaldi áfengisins í lífi einstaklinga og samfélags, að þarna hvetji sjálfur frelsarinn til aukinnar neyslu.

Kristin trú hefur alla tíð átt í nokkrs konar ástar-haturssambandi við vín. Jesús lifði í menningu þar sem vínrækt og vínneysla var stór hluti af lífinu. Margar myndlíkingar og vísanir í vín, vínbelgi, vínvið, vínbóndann og fleira, er að finna í elstu ritum kristinna manna. Meira að segja segir Jesús um sjálfan sig: Ég er hinn sanni vínviður og faðir minn er vínyrkinn (Jh. 15.1)

Síðustu kvöldmáltíðarinnar, sem Jesús átti með lærisveinum sínum að kvöldi skírdags, áður en Jesús var handtekinn í Getsemane garðinum og krossfestur, er minnst í hverri altarisgöngu sem haldin er í kirkjunni. Þar gegnir brauðið og vínið lykilhlutverki í því að miðla náð Guðs sem er ekki bara eitthvað sem við heyrum um – heldur eitthvað sem við reynum á efnislegan hátt, brögðum, tyggjum og kyngjum.

Um leið hefur trúað fólk á öllum tímum einnig verið sér meðvitað um hættuna sem felst í víninu. Kirkjufeður og dýrlingar gengu á undan með góðu fordæmi og neituðu sér um vín og aðrar lífsins lystisemdir, til að geta betur agað sig í góðum siðum og andlegum þroska. Og sterkar bindindishreyfingar fyrr á öldum sem vildu sporna við ofdrykkju og ömurlegum afleiðingum hennar á líf karla, kvenna og barna, áttu yfirleitt trúarlegar rætur.

Biblían er full af sögum um vín og áhrif þess á fólk, fylleríum, skandölum, ofsóknaræði, ofbeldi og iðjuleysi, til að nefna nokkrar birtingarmyndir ofneyslu áfengis. Hún er líka full af myndum og vísunum um vín sem gleður, nærir, hressir og yljar manneskjunni í hörðum heimi. Vínið í Biblíunni er margrætt tákn, í því speglast bæði hið góða og hið illa, frelsi og fjötrar manneskjunnar.

Tákn um Guð í heiminum

En þrátt fyrir þetta sterka tákn, er vínið ekki aðalatriðið í sögunni um brúðkaupið í Kana. Vínið er hluti af sviðsmynd og sviðsmunum, sem styðja við söguna sjálfa og það sem á sér stað hjá þátttakandanum og áheyrandanum, eftir því sem sögunni vindur fram.

Allir sem voru í sjálfu brúðkaupinu í Kana og allir sem síðan heyrðu og lásu söguna af þessu fyrsta tákni sem Jesús gerði, voru jafnvel meðvitaðir um að víngerð er flóknara og lengra ferli heldur en er lýst í sögunni. Það að fylla ker með vatni og ausa úr þeim er ekki aðferðin sem leiðir til þess að góð vín verði til. Þessi viðburður og frásagan af honum er því ekki lýsing á því hvernig á að búa til vín – heldur segir hún eitthvað annað.

Við leggjum við hlustir og sperrum eyrum vegna þess sem kemur fram um vínið í sögunni. Og hér kemur áskorun – við eigum ekki að gerast ölvuð af góða víninu og hætta að hlusta – heldur vera alsgáð og meðvituð um hvað er verið að segja okkur með þessari grípandi sögu.

Jesús vinnur þetta tákn og þegar við verðum vitni að því sjáum við hvernig Guð starfar í veröldinni. Allt líf Jesú á sér stað í mannlegum aðstæðum, í gleði og sorg, tækifærum og áskorunum. Jesús nýtir möguleika og lýtur takmörkunum þess að vera manneskja í öllu sem hann gerir. Jesúsagan er ástarsaga Guðs og mannsins og endurskilgreinir sambandið – alveg eins og brúðkaupið endurskilgreinir samband þeirra sem ganga í hjónaband.

Þótt vínið sé ekki aðalatriðið í sögunni og þótt brúðkaupið sjálft sé bara ramminn utan um söguna um táknið, geyma þessi atriði mikilvægan boðskap um birtingarmyndir Guðs í heiminum. Við getum hugsað okkur vínið sem áþreifanlegan farveg náðar Guðs sem við meðtökum ekki bara með eyrunum heldur tökum inn í kroppinn okkar og leyfum okkur að verða fyrir áhrifum af.

Við getum hugsað okkur brúðkaupið sem kjöraðstæður fyrir hið góða líf sem stendur okkur til boða. Brúðkaup er ein af stóru gleðistundum lífsins og að því loknu er verkefnið sem býður okkar að viðhalda gleðinni. Gleðinni í hjónabandinu, gleðinni yfir vinum, gleðinni í lífinu.

65% meiri gleði

Á einni bestu hljómplötu sem kom út á síðasta ári, Pale Green Ghosts, með Íslandsvininum John Grant, er magnaður smellur sem hefur verið leikinn töluvert. Það er lagið GMF – titill sem forðar okkur frá því að taka orðið motherfucker í munn þótt það gegni lykilhlutverki í lagin.

Eins og margir textar John Grant hefur GMF djúpar pælingar um aðstæður manneskjunnar, sem innst inni þráir að vera elskuð og tekin gild. Í viðlaginu koma þessar línur fyrir aftur og aftur.

So go ahead and love me while it’s still a crime,
And don’t forget you could be laughing
65 percent more of the time.

Lauslega þýtt: Kýldu á það! Elskaðu mig því það er hættulega glæpsamlegt. Og ekki gleyma að þú gætir haft 65% meiri gleði í lífinu en þú hefur núna og hlegið miklu, miklu meira.

Þetta er umhugsunarvert! Getur verið að við eigum miklu meiri ást og miklu meiri gleði inni, heldur en við leyfum okkur að njóta? Gætum við brosað og hlegið 65% meira en við gerum? Það er þess virði að íhuga það.

Brúðkaupið í Kana er gleðiguðspjall sem sýnir okkur að gleðistundin sem við upplifum á brúðkaupsdegi er lífstíðarloforð. Loforð um líf í ást, trú og gleði. Loforð um líf í nærveru Guðs, sem elskar heiminn og elskar þig og vill að þú brosir a.m.k. 65% meira!

Dýrð sé Guði, föður syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.