Hjónaband er vanaband

Hvað komast margir fyrir í kirkjunni?
Er hægt að fjölga sætum eitthvað?
Er hún laus þennan dag í júní eða júlí eða ágúst?
Hvernig er hljómburðurinn?
Hvernig kemur birtan gegnum gluggann?
Hvar verða stólarnir sem við sitjum í?
Megum við ganga inn saman?
Hvernig gengur þetta eiginlega fyrir sig?

* * *

Brúðkaupstíminn er hafinn.
Eða öllu heldur, hann stendur nú yfir því hann er sístæður.
Í hverri viku er fjöldi para að hugsa um brúðkaupið sitt.
Karlar og konur, karlar og karlar, konur og konur, sem hafa verið lengi eða stutt saman. Sem hafa fellt hugi saman og vilja eyða lífinu saman.
Sem vilja mætast í kirkjunni sinni, með presti og vitnum, vinum, fjölskyldum og heita því að eiga hvort annað í blíðu og stríðu.

Brúðkaupsdagurinn skiptir þau máli.
Þetta er Dagurinn, með stóru D-i.
Þau vilja að sem best takist til.
Þess vegna er eins gott að byrja að undirbúa, velja kirkju og fá prest til verksins og finna tónlistarfólk og hugsa um það hvernig athöfnin verður og veislan. Og svo er það kjóllinn og kjólfötin eða jakkafötin og brúðarvöndurinn.

Það er í mörg horn að líta.
Sem betur fer eru brúðkaupsdagar iðulega bæði dagar parsins og fólksins þeirra sem þýðir að margar hendur koma saman og gera létt verk úr því sem getur verið heilmikið.
En undirbúningur hjónavígslu stendur lengur yfir.
Eiginlega alla ævi.

Hjónavígslan stendur nefnilega fyrir lífið sem margir stefna að. Við þráum að mæta annarri manneskju í ást, bindast heitböndum, stofnum fjölskyldu. Uppeldið allt getur miðað að þessu. Við ölum börnin okkar upp til að verða góðar manneskjur sem geta lifað góðu lífi með öðrum. Lagað sig að fjölbreyttum aðstæðum, gefið eftir og gefið af sér og þegið. Þess vegna er jafnvel hægt að tala um tuttugu eða þrjátíu eða jafnvel fjörutíu ára aðdraganda brúðkaupsdagsins.

* * *

Jesús var í Kana í brúðkaupsveislu.
Þetta er líklega frægasta brúðkaup sögunnar.
Frægara en brúðkaup Karls og Díönu – við vitum hvernig það fór.
Frægara en brúðkaup Vilhjálms og Kötu.
Frægara en brúðkaupin sem rata á forsíður eða innsíður Séð og Heyrt blaðanna um allan heim.
Það er samt ekki svona frægt vegna brúðhjónanna.
Þau falla alveg í skuggann af gestinum sem reddaði veislunni með því að gera kraftaverk.

En hver voru þau?
Og hvers minntust þau frá þessum degi?
Var það reddingin í veislunni?
Var það kannski augnatillitið sem þau áttu handa hvort öðru? Snertingin þegar fingur mættust og svo hendur? Tilfinningin í brjóstinu?
Hvað varð um þessi hjón?
Öðrum þræði finnst mér einmitt það skipta meira máli en veislan í Kana, þótt hún hafi eflaust verið ágæt.
Sagan af brúðkaupinu í Kana er nefnilega saga um þrár og væntingar eins og þær sem við berum öll í brjósti til lífsins:

Ég vona og ég þrái að lífið mitt verði gott.

Og á brúðkaupsdegi er þessi von og þrá mögnuð upp og við stígum dýrmæt og mikilvæg skref í átt að því að láta hana rætast.

Saman.

* * *

Við undirbúum brúðveislu og athöfn af kostgæfni.
Búum jafnvel til gátlista og fáum gott fólk til að aðstoða okkur.
En hvernig undirbúa brúðhjónin sig sjálf?
Og hér ég er ekki að tala um ferðirnar í ræktina eða á sólbaðsstofur, snyrtistofur eða til hárgreiðslumeistarans.

Ég á við hið innra.

Ég nefndi áðan að lífið allt væri undirbúningur. Við þiggjum gott nesti frá foreldrum. Við slípumst jafnvel til í samböndum, lærum á okkur sjálf í samskiptum við aðra. Svo hafa margir búið saman áður en tekin er ákvörðun um að ganga í hjónaband. Eiga jafnvel börn saman. Allt þetta er gagnlegt. Svo nemum við líka margt úr dægurmenningunni. Ég sá til dæmis nýjustu Disneymyndina með dótturinni í síðustu viku. Þar mátti heyra snjókarlinn Ólaf segja:

„Ást er að setja þarfir annarra ofar sínum eigin.“

Ég held að hann hafi rétt fyrir sér og víst er að við getum numið margskonar speki til viðbótar úr kvikmyndum og bókmenntum.

En hvað meira er hægt að gera?

* * *

Mig langar að taka dæmi af bók og leiðangri. Ég las nefnilega bókina hennar Vilborgar pólfara um ferðina á Suðurpólinn. Kannski má líkja góðu hjónabandi við vel heppnaða göngu eins og hennar. Hún undirbjó sig vel og það var góð stemning í aðdragandanum, eftirvænting og gleði. Hún setti sér grunngildi sem voru skrifuð inn á tjaldið hennar: jákvæðni, áræðni og hugrekki.

Svo hélt hún af stað og þá reyndi virkilega á það hversu góður undirbúningurinn var. Því þótt stundum væri sól og blíða var það ekki alltaf raunin. Stundum var ferlegt veður, mótvindur, snjórinn festist við skíðin, hæðir og hólar urðu á vegi hennar. Stundum náði hún settu marki en stundum ekki. Hvað skipti þá máli? Þrautseigja skipti máli og það að hafa augun á markinu og mæta hverjum degi í gleði og láta mótstöðu ekki hafa of mikil áhrif á sig.

Það var annað sem hún gerði. Hún bjó sér til ritúöl – vana – sem studdu hana að markinu. Markmiðið með þeim var að passa upp á að hún borðaði rétt, klæddi sig rétt, mæti aðstæðurnar rétt, gætti að kuldanum. Þannig varð til farvegur fyrir lífið sem hún gekk inn í á hverjum degi og hjálpaði henni að ná árangri. Hún gerði sömu hluti og í ákveðinni röð. Vilborg náði markinu á endanum. Góður undirbúningur og vinna á hverjum degi skilaði sér.

Á sama tíma voru fleiri að ganga á pólinn. Það komust ekki allir á leiðarenda.

Þannig er það líka með hjónabandið.

Eitt grunngildið hennar Vilborgar er hugrekki. Það hefur verið kallað gildi hjartans og á einum stað stendur skrifað:

„Leið hjartans er að þora – að lifa í ást og trausti og þora inn á pólferð hugrekkis. Lifandi fólk þorir að halda mót hinu óþekkta, stóra og mikla. Hin hugrökku þora að lifa.“

Kannski getum við líka kallað hugrekkið grunngildi hjónabandsins. Því lífsferðin sem hjón ætla að ganga saman er einmitt ferð mót hinu óþekkta og stóra og mikla. Og það þarf sannast sagna heilmikið hugrekki til að játast annarri manneskju og ganga svo upp að altari í vitna viðurvist og segja já við því að ganga þessa leið með besta mögulega ferðafélaganum í lífinu okkar: makanum.

Það er að þora og stökkva inn í framtíðina.

Ég held að það sé einmitt þetta sem við þurfum að skoða í aðdraganda hjónabandsins því eins og pólferðin kallar það á skarpa sýn á hvert við viljum stefna og þrautseigju hjartans og hugrekki vonarinnar sem leiða okkur áfram. Sá undirbúningur er vinna hjónanna beggja, saman og sitt í hvoru lagi. Ef við vinnum þá vinnu vel þarf engu að kvíða.

Ég held líka að við getum lært af vönunum og siðunum hennar Vilborgar því gott hjónaband getur einmitt verið borið uppi af góðum vönum. Af vönum sem skapa nánd og auka tengsl. Til dæmis að:

  • Gefa hvort öðru blóm reglulega.
  • Kyssast þegar hjónin hittast og kveðjast og fara að sofa.
  • Leiðast.
  • Snerta hvort annað.
  • Opna hurðir fyrir hvort öðru.
  • Sýna þakklæti.
  • Hrósa.
  • Taka frá tíma fyrir sambandið, fara á deit reglulega. Dansa.
  • Halda upp á mikilvægu dagana eins og brúðkaupsdaginn.
  • Leita jafnvægis og jafnræðis þegar kemur að heimilinu.

Allt þetta og meira til getur gagnast okkur til að byggja gott samband og gott hjónaband. Ég held líka að það væri snjallt að gera eins og Vilborg: Skrifa grunngildin og vanana góðu inn á tjald hjónabandsins – eða hengja þau kannski framan á ísskápinn.

Gott hjónaband er nefnilega líka vanaband.

* * *

Hvað komast margir fyrir í kirkjunni?

Það er iðulega fyrsta spurningin sem við fáum. Við eigum tvö svör hér í Bústaðakirkju. Kirkjan rúmar 350-500 manns í sætum. Það dugar fyrir mörg brúðkaup. Þetta er fyrra svarið og það skiptir sannarlega máli. Síðara svarið skiptir þó enn meira máli að mínu mati:

Kirkjan rúmar hjörtu brúðhjónanna og elskenda sem vilja slá í takt og hún rúmar framtíð sem er full af hugrekki og þrautseigju og von – og góðum vönum – full af ást og kærleika. Hún gerir það á brúðkaupsdeginum og líka upp frá því. Til þess erum við hér. Til þess er þessi kirkja.

Ég er nokkuð viss um að þannig var það í Kana forðum daga
Og þannig er það í Bústaðakirkju.

Dýrð sé Guði sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur til að við fengjum öll að kynnast þessari ást og dýrð sé heilögum anda sem er þessi ást.

Lestrar: 2M 33.17-23, Rm 12.6-15, Jh 2.1-11

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.