Ég og Jesús

Fimmtudagsmorgunn í Bústaðakirkju.

Lífið og dauði mætast í kirkjunni.

Í kapellunni eru ungir foreldrar – aðallega mæður – með nýfæddu börnin sín. Þær hittast á vikulegum foreldramorgni hér í kirkjunni. Þær koma saman til að deila reynslu, eiga samfélag, fá góð ráð. Börnin leika sér. Þær drekka kaffi og te og gott meðlæti sem þær leggja í púkk. Þær heyra sagt frá Jesú, þær biðja með börnunum sínum.

Þetta er lífið í kirkjunni.

Í kirkjunni er kista. Fulltrúar útfararþjónustunnar komu með hana. Hún var lögð á svartan pall og komið fyrir framan við altarið. Svo kom annað fólk með blóm og kransa í kirkjuna. Og kirkjan fylltist af ilmi blóma sem er eins og ilmur sorgarinnar. Því sorgin er ekki lyktarlaus eins og sumir halda. Hún er þrungin af lykt! Svo fylltist kirkjan af fólki eftir hádegið sem kom til að þakka fyrir lífið sem var lifað, rifja upp gamlar minningar, kveðja. Þau hlustuðu líka á orð um Jesú og báðu saman.

Þetta er dauðinn í kirkjunni.

Það er mikið um að vera í kirkjunni okkar í hverri viku. Hver viðburður segir okkur hluta af sögunni um kirkjuna. Saman myndar þetta eina heild og sýnir okkur kirkju sem er þar sem líf og dauði mætast.

* * *

Sunnudagur í Bústaðakirkju.

Við höfum hlustað á lestra og bænir og ætlum að ganga saman til altaris á eftir. Hér eru sóknarbörn á öllum aldri. Hluti af hópnum eru fermingarbörnin – þið sem lifið nú sérstakan vetur. Veturinn þegar þið fáið að glíma við stóru spurningarnar hér í kirkjunni:

  • Hvað er að vera manneskja?
  • Hvernig eigum við að koma fram við hvert annað?
  • Hver er tilgangur tilverunnar?

Hvernig komumst við að því hvað það er að vera kristin manneskja?

Ég held að ein leið til þess sé að horfa til Biblíunnar. Í dag getum við til dæmis notað lestrana þrjá úr gamla og nýja testamentinu. Hvað stendur þar? Um Guð og um Jesú og um okkur?

Í lexíunni segir um Guð:

Hann rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og sýnir aðkomumanninum kærleika og gefur honum fæði og klæði.

Og í pistlinum segir um okkur:

Berið sama hug til allra, verið ekki stórlát, umgangist fúslega lítilmagna. Oftreystið ekki eigin hyggindum. Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi.

Og svo er bætt við:

En „ef óvin þinn hungrar þá gef honum að eta, ef hann þyrstir þá gef honum að drekka.“

Semsagt: Elskaðu alla, líka þá sem eru öðruvísi en þú ert, líka þá sem þú skilgreinir sem óvini þína. Vertu góður við aðra. Ekki svara illu með illu heldur góðu.

Ok.

Er þetta ekki það sem við búumst við? Er eitthvað sem kemur á óvart þarna?

Nei, ég held ekki.

* * *

En ef við horfum til guðspjallsins, til sögunnar af Jesú? Það eru þrír staðir í því sem mér finnast svolítið merkilegir. Jesús segir:

„Ég vil, verð þú hreinn!“

„Ég kem og lækna hann.“

„Sannlega segi ég ykkur, þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael … Verði þér sem þú trúir.“

Þrjár ég-setningar. Það er svo sem ekkert merkilegt við það að segja „ég“. En er það ekki svo að alla jafna þegar einhver segir ég þá vísar hann aðallega til sjálfs sín? Fjalla ég-setningarnar ekki fyrst og fremst um þann sem segir þær?

Ekki hér.

Þessar ég-setningar vísa út frá sér, á þann sem Jesús talar við. Fyrst á þann sem er læknaður. Síðan á þann sem þarf að lækna. Loks á þann sem trúir. Og þótt textinn fjalli um kraftaverk og lækningar sem eru auðvitað mögnuð fyrirbæri þá finnst mér ekki síður magnað hvernig Jesús kennir okkur að þetta snúist ekki allt um okkur í þessari sögu. Hér birtist nefnilega Jesús sem er ekki upptekinn af sjálfum sér þótt hann segi „ég“ heldur Jesús sem er upptekinn af öðrum.

Ég-setningarnar hans fjalla um aðra. Þær gefa vísbendingu um viðhorf til annarra sem er fólgið í (1) beinni aðstoð og (2) vilja til að hjálpa og setja hjálpina í forgang og (3) hrósi sem er stuðningur til sjálfshjálpar.

* * *

Í kirkjunni mætast upphaf og endir, fæðing og dauði.
Við berum börn til skírnar eins og hér í morgun og við fylgjum fólki til grafar eins og á fimmtudaginn.

En inni á milli er lífið allt og þar er kirkjan og hin kristnu líka. Kannski aðallega þar.

Ritningarlestrarnir þrír sem við lesum í kirkjunni í dag fjalla um viðhorfið til annarra og þannig eru þeir lykillinn að því hver eru brýnustu verkefni kristins fólks á öllum tímum:

Að sýna öðrum umhyggju.

Í þeim fáum við líka eins konar uppskrift að því út á hvað umhyggjan gengur og hvernig hún virkar. Við fáum að heyra dæmi um hópa sem þarf að huga sérstaklega að: Þau sem eru ein, þau sem eru komin langt að, þau sem eru öðruvísi. Við fáum líka að heyra hvernig hjálpin getur gengið fyrir sig: Þar sem er hægt að hjálpa strax hjálpum við strax. Þegar þarf að stökkva til gerum við það. Þegar við hjálpum skulum við alltaf hjálpa til sjálfshjálpar því þannig sýnum við þeim sem er hjálpað virðingu.

Þetta eiga að vera Biblíulegu prinsipin sem við förum eftir í lífinu, þannig að þegar einhver segir við okkur: Sonur minn, vinur, kunningi, óvinur, aðkomumaður, ekkja, munaðarleysingi … einhver … er í neyð þá sé svarið okkar:

„Ég kem …“

Þar getum við nefnilega náð saman, ég og Jesús.

Þannig náið þið saman, þú og Jesús.

Og það er að vera kristin manneskja.

Dýrð sé Guði sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur til að við fengjum öll að kynnast þessari ást og dýrð sé heilögum anda sem er þessi ást.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.