Morfís, boð og bönn

Rautt spjald

Mælsku- og rökræðukeppnin Morfís hefur verið áberandi í umræðunni undanfarna daga. Athygli landsmanna hefur verið vakin á ósæmilegri og ofbeldisfullri framgöngu í gegnum árin. Nánar tiltekið að ofbeldi gegn konum sem hafa tekið þátt í keppninni. Nýjasta dæmið er tengt viðureign MA og MÍ fyrr í mánuðinum. Eftir hana steig Eyrún Björg Guðmundsdóttir, ræðukona úr MA, fram og sagði sínar farir ekki sléttar. Hún lýsti ofbeldi liðsmanna ræðumanns MÍ sem var þeim, skólanum og keppninni ekki til sóma.

Hvað er til ráða?

Hér má kannski horfa til fótboltans.

Þegar menn brjóta leikreglur í fótbolta eru þeir sendir út af. Ef brotin eru gróf eru þeir dæmdir í leikbann. Fyrir brot gegn almennu velsæmi og gróf ofbeldisbrot eru leikmenn sektaðir. Fyrr í vetur kepptu Ísland og Króatía um sæti á HM í knattspyrnu. Eftir leikinn heilsaði einn Króata áhorfendum að sið fasista. Fyrir uppátækið var hann sektaður um rúma hálfa milljón króna.

Við þekkjum líka dæmi um að lið hafi goldið þess að stuðningsmenn þeirra beiti ofbeldi í tengslum við leiki.

Með því að taka svona á ofbeldismálum stuðlar fótboltahreyfingin að því að leikurinn sem slíkur nýtur meiri virðingar en ella. Jafnvel er komið í veg fyrir ofbeldi.

Mætti ekki hugsa sér eitthvað svipað í Morfís? Nei, ég er ekki að tala um fjársektir. Ég á við að liðsmenn og stuðningsmenn sem beita ofbeldi fái gula eða rauða spjaldið – fái refsistig eða sé jafnvel vísað úr keppni. Á hverri keppni í Morfís eru dómarar, gætu þeir ekki tekið á þessu?

Í yfirlýsingu frá stjórn Morfís í síðustu viku er talað um lausn í þessum anda:

„Stjórn MORFÍs mun hins vegar beita sér fyrir lagabreytingu á næsta aðalfundi mælskukeppni framhaldsskólanna til að koma málum af þessu tagi í viðunandi horf, bæði um tilgang og markmið keppninnar og viðurlög eða refsingar þegar við á með hliðsjón af slíkum reglum hjá öðrum keppnisgreinum.“

Þetta þarf að vera kýrskýrt.

Þátttakendur eiga ekki að gjalda þess að ofbeldi rúmist innan leikreglnanna.

Keppnin sem slík á heldur ekki að gjalda skemmdu eplanna. Forsenda þess er hins vegar að aðstandendur keppninnar geri það ekki að máli þolandans eins að taka á ofbeldinu.

Í því myndu felast góð skilaboð til unga fólksins okkar um að kerfið standi með þolanda en ekki geranda.

Þannig á það að vera, í Morfís og í samfélaginu okkar almennt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.