Væn, græn og kæn

Hefur þú heyrt um hvernig úlfarnir í Yellowstone þjóðgarðinum í Bandaríkjunum breyttu ekki bara lífríkinu þar heldur líka landslagi og árfarvegi?

Árið 1995 höfðu úlfar verið útdauðir og víðs fjarri þessum víðlenda þjóðgarði í 70 ár. Þá var tekin ákvörðun um að flytja litla úlfahjörð inn á svæðið til að auðga dýralífið. Engan grunaði hvað áhrifin af þeirri aðgerð áttu eftir að ná langt.

Það sem hafði gerst í fjarveru úlfanna, var að dádýrum hafði fjölgað upp úr öllu valdi vegna þess að enginn náttúrulegur óvinur var fyrir hendi. Þrátt fyrir reglulega grisjun, af manna völdum, hafði aldrei náðst að halda stofninum í skefjum. Allur þessi fjöldi af dýrum þurfti sitt að éta og gekk mjög nærri gróðri á öllu svæðinu, þannig að stórsá á.

Um leið og úlfarnir komu, urðu breytingar á hegðun dýranna. Úlfarnir veiddu og drápu dýrin, en einungis í litlum mæli, því þeir voru fáir og dýrin mörg. Dýrin hreinlega breyttu því hvernig þau hreyfðu sig og héldu sig til að mynda fjarri á þeim svæðum sem þau máttu búast við því að úlfarnir skytu upp kollinum og þar sem þau voru sem berskjölduðust fyrir árásum þeirra.

Þetta hafði strax ótrúleg áhrif á gróðurinn á svæðinu. Á örfáum árum snarhækkuðu tré sem höfðu áður verið nöguð niður að rótum og tegundir sem ekki höfðu þolað ágang dýranna náðu sér á strik. Nýir skógar mynduðust og greinar og lauf uxu og döfnuðu. Það laðaði að alls konar fugla, farfuglar sem áður höfðu ekki átt í nein hús að venda á svæðinu, fundu þar nú gósenland og snarfjölgaði. Einnig fjölgaði öðrum lífverum, sem þurfa á trjám að halda til lífsviðurværis, eins og bjórar. Bjórarnir eru miklir byggingarsnillingar og nota tré og greinar til að búa til stíflur í ám. Þessar stíflur skapa skilyrði fyrir önnur smádýr, eins og otra og fleiri nagdýr, en líka vatnalífverur af öllum stærðum og gerðum.

Úlfarnir nýinnfluttu veiddu ekki bara dádýr, heldur líka frændur sína, sléttuúlfana. Fækkun sléttuúlfa skilaði sér í mikilli fjölgun smádýra eins og kanína og músa sem áður höfðu verið étin upp til agna af villihundunum – og það hafði jákvæð áhrif á ránfuglastofna eins og erni og hauka, og einnig á minni rándýr eins og merði, refi og greifingja.

Þessi dýr, og feiri, eins og hrafnar og skógarbirnir, nutu síðan góðs af hræjunum sem úlfarnir skildu eftir. Björnunum fjölgaði hins vegar ekki síst vegna aukins framboðs af berjum sem hinir nýju skógar gáfu af sér. Þeir studdu síðan við að halda dádýrunum í skefjum, með því að veiða einn og einn dádýrskálf.

Svona hafði nærvera úlfanna mikil áhrif á lífríkið í þjóðgarðinum. En áhrifin einskorðuðust ekki við það. Árnar í þjóðgarðinum breyttust líka í rennsli og farvegi. Það gerðist vegna þess að bakkarnir styrktust með auknum gróðri, landeyðing minnkaði þannig að árnar brutu ekki eins mikið land á leið sinni og héldust betur í farveginum.

Örfáir úlfar breyttu þannig ekki bara lífríki þjóðgarðsins heldur líka landslagi hans, með því að koma af stað keðjuverkun í náttúrunni með þessum afleiðingum.

* * *

Í vetur höfum við í æskulýðsstarfi kirkjunnar staldrað svolítið við svona keðjuverkun í umhverfinu og íhugað með ýmsum hætti hlutverk okkar sjálfra, hvers og eins, í því að lifa ábyrgu, sjálfbæru lífi sem tekur tillit til annars fólks og náttúrunnar. Við höfum skoðað hvar okkur hættir til að eyða um efni fram og ganga á auðæfi náttúrunnar, sem eru ekki án takmarkanna. Við höfum rannsakað með hvaða hætti við, hvert og eitt, getum spyrnt við fótum og stoppað vitleysuna sem felst í því að láta berast meðvitundarlaus með neyslustraumnum. Stoppað rányrkju á gjöfum jarðar og öðru fólki. Við höfum haft áhuga á því að vera betur upplýst um hvaða áhrif lífsstíllinn okkar hefur á börn, konur og karla í fjarlægum löndum. Við viljum vera betur meðvituð um hvernig val okkar á mat og drykk, hreinlætisvörum, snyrtivörum og fötum, hefur áhrif á umhverfið og okkar eigin líkama.

Við höfum velt því upp hvort það sé nóg að eiga t.d. bara tvennar eða þrennar gallabuxur í staðinn fyrir tíu. Hvort það skipti máli að eignast allt nýtt eða hvort hægt sé að slá nokkrar flugur með því að versla hjá Kristniboðssambandinu eða í Góða hirðinum.

Við höfum velt því fyrir okkur hvort við viljum frekar vera eins og dádýraflokkurinn sem étur allt upp til agna og skilur eftir sig auðn og tóm – eða eins og úlfarnir, sem viðhalda jafnvægi og skapa skjól fyrir margbreytileika lífsins. Viljum við fylgja straumnum hugsunarlaust og ekkert pæla í því hvaða áhrif lífstíllinn okkar hefur á umhverfið eða viljum við vera gerendur í eigin lífi og umhverfinu?

* * *

Yfir tvöhundruð unglingar í æskulýðsstarfi kirkjunnar á suðvesturhorninu komu saman í Vatnaskógi fyrir hálfum mánuði á árlegu Febrúarmóti. Græna lífið var þeim hugleikið og þau hlýddu m.a. á erindi Andra Snæs Magnasonar um náttúruvernd og endurvinnslu. Mörgum brá í brún að heyra sláandi tölur um verðmæti sem er hent. Á tíu ára tímabili hentu Bandaríkjamenn áldósum, undan gosi og bjór, sem hefðu nægt til að byggja fleiri þúsund flugvélar. Svona skiptir máli að endurnýta og endurvinna, því það léttir stórlega á þunganum sem er beitt á auðlindir jarðarinnar, hvort sem um er að ræða málma, vatn eða loft. Það var líka áhrifaríkt að sjá myndir af náttúrunni sem fór undir vatn þegar Kárahnjúkavirkjun var byggð og vera minnt á þær fórnir sem við förum fram á að náttúran færi til að við getum reist verksmiðjur, aukið hagvöxt og búið til meira dót.

Unglingarnir í Vatnaskógi ákváðu að til að breyta heiminum, væri best að byrja heima, og fengu m.a. það verkefni að skrifa sóknarnefndunum í kirkjunum sínum og benda á hvað mætti betur fara í því hvernig hugað er að umhverfinu í kirkjunum.

Ein sóknarnefndin fékk bréf með þeirri góðu ábendingu að hægt væri flokka sorp sem til félli miklu betur og ennfremur að draga úr notkun pappaglasa. Þessum ábendingum unglinanna var vel tekið og þessi sóknarnefnd er þegar búin að ákveða að fá bláa tunnu í húsið og vanda sig betur í að flokka og skila.

* * *

Hvers vegna er æskulýðsstarf kirkjunnar að velta sér upp úr umhverfismálum? Hvernig tengjast trú og umhverfisvernd? Kannski helst í tveimur punktum. Annars vegar þeirri virðingu fyrir lífinu sem er innbyggð í kristna trú og meðvitundinni um að manneskjan er hluti af og nátengd hinni heilögu jörð og sköpuninni allri. Hins vegar með því að viðurkenna að það er pottur brotinn umgengni okkar við náttúruna og að einnig þar brjótum við af okkur með eigingirni og græðgi. Með þessar forsendur vinnum við þegar við skoðum með hvaða hætti við getum verið trú þeirri köllun sem kristin trú beinir til okkar, að elska náungann og gera gott.

Unglingarnir í æskulýðsstarfi kirkjunnar vilja vera eins og sáðmaðurinn sem Jesús segir frá í guðspjalli dagsins, og fer út með kornið sitt og sáir því í jörðina. Sáðmaðurinn sýnir framtak, ábyrgð og getu og gegnir lykilhlutverki í því ferli sem sagan lýsir. Textinn minnir okkur þannig á hlutverkið sem við sjálf gegnum í lífinu. Við uppskerum vegna þess að við sáum. Við viljum vera eins og sáðmaðurinn því við viljum ekki sitja með hendur í skauti heldur hafa áhrif og setja af stað keðjuverkun til góðs.

* * *

Rétt bráðum gengur fastan í garð. Fastan er tími í kirkjunni þar sem við lítum inn á við og íhugum á hvaða leið við erum með lífið okkar. Það er tíminn sem við horfum gagnrýnum augum á hvar við erum stödd, hvaða ósiðum við höfum komið okkur upp og hvernig lífstíll okkar og framferði hefur neikvæð áhrif á náunga okkar. Við íhugum hvernig okkur gengur að vera glaðar og góðar manneskjur, sem láta drauma sína rætast og hjálpa öðrum til þess sama. Er ekki upplagt að nota föstuna í ár til að rýna í hvernig spor við skiljum eftir okkur í umhverfinu, og hvað við getum gert til að vera væn og græn við jörðina sem Guð gaf okkur?

Umhverfissporin okkar birtast nefnilega með ýmsum hætti. Við höfum í vikunni verið minnt á hvernig orð sem við notum í samskiptum, hvort sem er í ræðustól á alþingi, eða á samskiptasíðum á netinu, geta virkað eins og eitur sem er spúð út í andrúmsloftið eða jarðýtur sem ryðjast yfir viðkvæman gróður. Það sem við segjum, skrifum og gerum, hefur áhrif og stundum er það óafturkræft. Keðjuverkun getur leitt til uppbygginar eða niðurrifs. Leggjum okkar af mörkum í keðjuverkun kærleikans og verum væn, kæn – og græn – til að móta samfélag þar sem umhverfi og einstaklingum er sýnd virðing og sómi.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.