Fjögur ráð til að endurræsa hjartað og ná tökum á lífinu

Hvað eru margir hér inni sem eiga tölvu? Svona gamaldags borðtölvu eða fartölvu, ekki spjald eða snjallsíma.

Hvað eru mörg ykkar sem hafa þurft að endurræsa tölvuna, af því að hún var orðin of hæg eða virkaði ekki alveg nógu vel?

Allt í lagi.

Ég las bók fyrr í vetur sem fjallaði um hreyfingu. Þar var sagt frá því hvernig það er ekki bara nauðsynlegt að endurræsa tölvurnar, það þarf líka að endurræsa líkamann. Höfundarnir tveir nefndu fjórar æfingar sem við getum gert á hverjum degi – tekur um það bil 3 mínútur – sem miða að þessu.

Æfingarnar fjórar eru:

  • Rúlla sér eins og barn
  • Skríða eins og barn
  • Rugga á fjórum fótum
  • Krossa hné í olnboga

Ef þú gerir þetta æfingasett þrisvar á dag þá tekur það um það bil 9 mínútur og skilar semsagt heilmiklum árangri. Líkaminn endurnærist og endurræsist og rifjar aftur upp hvernig það var að hreyfa sig þegar þú varst pínuponsulítil.

Magnað.

Þið sem eigið börn eða barnabörn eða kannski lítil systkini þekkið þetta: Lítil börn hreyfa sig rétt og flest geta þau margt sem við getum alls ekki. En svo fara þau að sitja lengi og vera kyrr og þá glatast þessi hreyfing.

Ég hef prófað æfingarnar, þær virka ágætlega – nema kannski þegar maður er í messuklæðum.

Jesús og börnin

Þegar ég las þessa bók hugsaði ég um Jesú. Hann segir nefnilega á einum stað að við þurfum að verða eins og börnin til að komast inn í himnaríki. Og svo er annar staður þar sem hann hampar börnunum. Við lesum þetta alltaf við skírn lítilla barna:

Menn færðu börn til Jesú að hann snerti þau en lærisveinarnir átöldu þá. Jesús sá þetta og honum sárnaði og hann sagði: Leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim eigi því að slíkra er himnaríki.

Hvernig endurræsum við hjartað?

Ég held að endurræsingarhugmyndin sé góð. Og að hún virki ekki bara fyrir tölvur eða líkama heldur líka hugann og hjartað – það er að segja fyrir lífið allt.

Og kannski er hún einmitt byggð inn í kerfið sem við erum hluti af í kirkjunni.

Hvað á ég við?

Ég er að aðallega að hugsa um þrennt:

  1. Við eigum tímabil í kirkjunni þar sem við erum sérstaklega mikið að hugsa um að endurræsa, til dæmis fastan sem hefst á miðvikudag.
  2. Við leggjum ríka áherslu á unga fólkið í kirkjunni. Hér í kirkjunni er til dæmis fjölbreytt starf fyrir ungt fólk og í dag fáum við að reyndar að njóta þess sérstaklega þegar kórarnir syngja fyrir og með okkur og Daníel hugleiðir og Bára leiðir okkur í söng.
  3. Við höldum hátíð í kirkjunni þegar börnin ungu eru borin til skírnar og boðin velkomin í þetta samfélag. Og eins og ég nefndi áðan þá er það svo að alltaf þegar ungt barn er skírt erum við minnt á mikilvægi barnanna og á það að guðsríkið er þeirra.

En hvernig endurræsum við huga og hjarta? Út á hvað gengur þetta?

Hugsum um börnin. Hvernig nálgast þau aðra? Og heiminn?

Þau sýna fullkomið traust. Skilyrðislausa ást. Þau hafa vonarríka afstöðu til lífsins. Og svo gefa þau mikið af því sem er algjörlega ókeypis en getur breytt heiminum: Brosum.

Og þið sem hafið haldið á grátandi barni heilt kvöld eða hálfa nótt af því að því leið illa og hafið svo vaknað örþreytt morguninn eftir vitið alveg hvað brosið frá barninu gerir mikið. Það leysir jafnvel upp þreytuna.

Það má alveg hugsa sér að byrja meðvitað í þrisvar sinnum þrjár mínútur á dag: Að brosa og mæta öðrum í umhyggju og hlýju, að sýna ást í verki, að treysta því að allt fari vel.

Svo gæti gerst að tíminn lengist aðeins á hverjum degi – svona eins og birtan á himninum þessa dagana.

Hverjum sáum við?

Sagan um sáðmanninn – sem við lásum reyndar líka fyrir viku síðan – minnir okkur líka á þetta. Hún fjallar um meginhlutverk hinna kristnu sem er að bera áfram boðskap og kærleiksverk. Við erum öll sáðmenn sem förum út að sá.

Hverju er þá sáð?

Góðum verkum.
Umhyggju.
Kærleika.
Brosum.

Og það er þannig að þegar við gerum einmitt þetta þá breytumst við, smátt og smátt.

Fyrirmyndir fullorðna fólksins

Nú er æskulýðsdagurinn. Það er einn af ungmennadögunum í kirkjunni og í samfélaginu okkar.

Á miðvikudag er öskudagurinn. Það er annar ungmennadagur.

Framundan eru svo fermingar. Það eru ungmennadagar. Þröskuldsdagar.

Hvað segja þessir dagar við okkur sem erum hér saman komin í kirkjunni? Hvað segja þeir við ykkur, unga fólkið – fermingarbörnin?

Þeir segja: Þið skiptið okkur máli. Þið skiptið máli almennt. Þið eruð mikilvægur hluti af samfélaginu okkar í kirkjunni. Þið eruð líka mikilvægur hluti af því að bera ástina – umhyggjuna – þjónustuna út í samfélagið okkar.

Takk fyrir það.

En það er annað. Unga fólkið í kirkjunni – unglingarnir, fermingarbörnin, krakkarnir í barnastarfinu, litlu börnin sem eru borin til skírnar – eru líka öll fyrirmyndir okkar sem eldri erum og þurfum að endurræsa hjörtun og hugana. Því það eru þau sem Jesús átti við þegar hann sagði: „því að slíkra er guðs ríki.“

Hjarta á réttum stað

Og þá erum við komin að því sem við Hófý lofuðum fyrir þessa messu. Að upplýsa hvað skiptir mestu máli í lífinu. Við erum samt eiginlega búin að kjafta frá.

Við settum þetta sem yfirskrift messunnar í dag.

Þetta snýst um að hafa hjartað á réttum stað. Og við setjum það á réttan stað með því að endurræsa: með því að rækta meðvitað vonina, umhyggjuna, ástina og brosin í lífinu.

Kæru vinir,
Verið dugleg að endurræsa – líkamann og hjartað – notið föstutímann sem hefst á miðvikudaginn til þess.

Byrjið á 9 mínútum á dag.

Verið dugleg að láta fræin ykkar bera ávöxt með því að segja frá því sem er gott og fallegt og uppbyggilegt.

Og þegar þið stígið út –  héðan út úr kirkjunni, úr skólanum, vinnunni, bílnum, af heimilinu – farið þá í friði og þjónið Drottni með gleði.

Þið eruð nefnilega hendur Guðs, til góðra verka í heiminum.

* * *

Ps. Í prédikuninni sagði Hófý djákni frá kærleiksþjónustunni í kirkjunni og frá starfi heimsóknarvina. Hún skrifaði góðan pistil um það hér á trú.is sem þið skuluð endilega lesa.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.