Askan á enninu

Aska á enni

Einhver sagði um tónlist J. S. Bach að hún kæmi í lag því sem lífið réði ekki við. Út á þetta gengur trúin fyrir mér. Í gegnum trúna getum við tjáð og nálgast hluti sem eru einhvern veginn of stórir, flóknir og erfiðir fyrir litlu okkur að skilja og fá til að ganga upp.

Öskudagurinn er gott dæmi um þetta. Hann markar upphaf föstunnar, sem er tími samlíðunar og iðrunar. Askan hefur verið notuð af kristnu fólki frá upphafi, til að tjá hluti sem er erfitt að koma í orð og kerfi en móta samt alla tilveru okkar. Í fyrsta lagi táknar hún forgengileikann. Askan minnir á eitthvað sem var, en er ekki lengur. Í annan stað er hún tákn um hreinsun, þar sem hún var notuð sem hreinsiefni í stað sápu. Í þriðja lagi er hún tákn um ákveðna hringrás sem kristin trú boðar, að við erum fædd af jörðu, við verðum að jörðu og við rísum upp af jörðu.

Þegar við förum í kirkju á öskudaginn og fáum öskukross á ennið, göngumst við þessum veruleika. Askan á enninu ber hlutum vitni sem við eigum kannski erfitt með að orða eða sætta okkur við, en trúum að við erum ekki ein um að bera.

Öskukrossinn á enninu segir sögu manneskjunnar í heiminum, sem elskar, missir, saknar og deyr. Öskukrossinn tjáir líka trúna um í gegnum þjáningu og dauða Jesú, sem við íhugum á föstunni, tengjumst við hinum endanlega veruleika á sérstakan hátt.

Askan á enninu nær utan um sársaukann sem við berum innra með okkur, sorgina yfir því sem við höfum misst og angistina yfir því að lífið sem við elskum verður fyrr en seinna tekið frá okkur.

Askan á enninu er hjálp til að fá þetta til að ganga upp og feta sig eftir lífsveginum í trú á tilgang og merkingu í því sem við erum hér og nú.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.