Fastað á stóru orðin

Fastað á stóru orðin

Fasta er töfraorð í samtímanum. Allt árið er fastað til að koma skikki á líkamsþyngd, blóðsykur og mittismál. Sum okkar fasta á hveiti eða sykur, á kjöt, áfengi eða nammi. Markmiðið er að hnika hegðun og venjum sem gera okkur ekki gott.

Fastan á sér trúarlegar rætur. Við lesum um föstur í Gamla og Nýja testamentinu. Jesús fastaði í fjörutíu daga í eyðimörkinni og kirkjan heldur föstu í aðdraganda jóla og páska. Múslímar fasta frá sólarupprás til sólarlags í Ramadanmánuði. Markmið hinnar trúarlegu föstu er að rækta andann og efla trúræknina með því að leggja líkamlegar þarfir eða hvatir til hliðar.

Aðferðafræði föstunnar virkar líka í öðru samhengi og þarf ekki að takmarkast við að halda sig frá mat. Við getum fastað til góðs fyrir samfélagið okkar hér og nú, með því að leggja af hegðun og venjur sem draga okkur öll niður.

Óvægin orð, illt umtal og uppnefni eitra andrúmsloft og menga sameiginleg rými okkar. Samhengi slíkra orða getur verið pólitískt eða persónulegt, þau eru sögð í fúlustu alvöru eða undir formerkjum húmors. Óháð samhenginu er slík umræða íþyngjandi. Hún getur orðið eins og illkynja æxli þegar hún grefur sig inn í þjóðarlíkamann. Hún stendur í vegi fyrir því að við þroskumst sem einstaklingar og samfélag og getum orðið besta útgáfan af okkur sjálfum.

Á þessari föstu skulum við fasta á stóryrtar yfirlýsingar um annað fólk, hvort sem er í persónulegum samskiptum, á ræðustóli, í fjölmiðlum eða á netinu. Markmiðið með föstu er nefnilega að verða betri manneskja í betra samfélagi. Föstum á stóru orðin og sjáum hvort við njótum ekki öll góðs af.

Birtist fyrst í Fréttablaðinu, 6. mars 2014.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.