Gleðidagur 49: Kaupmaðurinn á horninu

Kaupmaðurinn á horninu

Um daginn keyrðum við með eldri vinum okkar eftir Langholtsveginum þar sem við búum og talið barst að öllum þeim verslunum og sjoppum sem einu sinni voru út um allt í hverfinu. Hér var búð, hér var sjoppa, hér var kaupmaður – en nú er þetta eiginlega allt horfið.

Nema ein lítil verslun sem við búum svo vel að hafa beint á móti okkur. Hún er aldrei kölluð neitt annað en Ólabúð – því þar stendur Óli kaupmaður vaktina. Það hefur oft komið sér vel að hafa hann þarna á horninu. Ekki amalegt að geta beðið börnin að hlaupa út og kaupa pylsubrauð eða mjólkurlítra, þegar þessa hluti vantar á ögurstundu. Það er líka orðinn fastur liður að kaupa laugardagsnammið hjá Óla. Það eru mjög stoltir sælgætisgrísir sem fá að fara með hundraðkall í lófanum yfir Langholtsveginn og velja sér bland í poka – alveg sjálf!

Hverfisbúðin er ómetanleg í flóru hverfisins og styrkir okkur í að vera sjálfbær og umhverfisvæn. Á næst-síðasta gleðidegi segum við: Lengi lifi kaupmaðurinn á horninu!

Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.