Gleðidagur 50: Hvítasunnan og fjölmenningin

Fjölmenningin

Í dag er hvítasunnudagur og 50 daga gleðiblogssátakinu lýkur. Þess vegna viljum við rifja upp hvað gleðidagarnir eru og hvers vegna við bloggum á hverjum degi.

Tíminn frá páskum og fram að hvítasunnu er oft kallaður gleðitími og á hverjum degi þessa 50 daga höfum við einsett okkur að blogga um eitthvað sem er jákvætt og uppbyggilegt, og reynum þar að lyfta upp fólki og atburðum sem bæta samfélagið.  Umfjöllunarefnin hafa verið afar fjölbreytileg, frá því að hrósa Pollapönkurunum fyrir fallegan og mikilvægan boðskap til hvatningar til að reglulegrar hreyfingar og yfir í gómsætra uppskrifta að fiski og límonaði.

Kirkjuárið er byggt upp í kring um atburði í lífi Jesú. Við höldum upp á fæðingu hans á jólunum, við minnumst föstunnar, dymbilviku, síðustu kvöldmáltíðarinnar, föstudagsins langa þegar hann var krossfestur og fögnum á páskunum þegar hann reis upp frá dauðum. Tíminn eftir páska og upprisan er tími þar sem sigur lífsins yfir dauðanum er umfjöllunarefni kirkjunnar, allt fram að hvítasunnu. Hefð er fyrir því að tala um þessa daga sem 50 gleðidaga. Gott er að muna að allt hefur sinn tíma, sorgin hefur sinn tíma en líka gleðin. Við höfum 40 daga í lönguföstu og lesum Passíusálmana en síðan taka við 50 gleðidagar.

Hvítasunnan markar upphaf kirkjunnar

Hvítasunnan sem við höldum upp á í dag er þriðja stórhátíð kirkjunnar, á eftir páskum og jólum. Í daglegu lífi fellur hvítasunnan í skuggann. Það eru engar jólagjafir eða páskaegg. Fyrir mörgum er hvítasunnan bara löng helgi þar sem gott er að fara í sumarbústað. Hvítasunnan er hins vegar mjög merkilegur viðburður og gaman að lesa um hann í Nýja testamentinu.

Við tölum gjarnan um að á hvítasunnunni hafi upphaf kirkjunnar átt sér stað. Þarna er Jesú ekki lengur með lærisveinum sínum heldur farinn til himna. Á hvítasunnunni var saman kominn hópur fólks í Jerúsalem, sem hafði mótast af boðskap Jesú og vildi halda honum á lofti. Þetta er saga sem kallast skemmtilega á við samtímann og lýsir því sem gerist í fjölmenningarsamfélagi.

Þau eru stödd í Jerúsalem þegar heilagur andi kemur yfir þau og lærisveinarnir fara að tala tungum. Þarna er fólk frá ýmsum þjóðum en allt skilur það hvað þeir segja og hugsa með sér að þeir séu að tala sitt tungumál. Aðrir túlkuðu þennan viðburð þannig að fólkið hefi einfaldlega verið drukkið og sé að bulla tóma vitleysu. En í kjölfar þessa varð kirkjan til og þeir sem hlýddu á lærisveinana voru skírðir.

Fjölmenningarsamfélagið er eitt af stóru málunum í dag og okkur finnst hvítasunnufrásögnin, þar sem lögð er áhersla á að kristin trú máir út þröskulda, múra, tungumál og stétt, eiga mikið erindi. Hvítasunnan er í raun fjölmenningarhátíð kirkjunnar. Fagnaðarboðskapurinn er ætlaður öllum og það er okkar hlutverk að búa til rými þar sem allir eru velkomnir.

Á fimmtugasta gleðidegi viljum við þakka fyrir fjölmenninguna og líka fyrir ykkur öll, kæru lesendur, sem gáfuð ykkur tíma til að fylgjast með. Guð blessi ykkur í leik og starfi.

Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.