Jólakranar handa þeim þyrstu

Fyrstu versin í Biblíunni greina frá því þegar Guð skapar himinn og jörð (1. Mós 1). Ástandinu sem ríkir áður en Guð byrjar að skapa er lýst þannig að jörðin var auð og tóm, og andi Guðs sveif yfir vötnunum. Áður en nokkuð annað verður til, ljósið, landið, gróðurinn, dýrin og manneskjan, er vatnið til. Vatnið var með Guði í upphafi sköpunarinnar.

Drykkjarbrunnur í erlendri borg
Drykkjarbrunnur í erlendri borg þar sem nóg er af vatni.

Þessi sérstaða vatns í kristinni heimsmynd kemur vel fram í því að kirkjan talar um Guð með vatnsmyndum. Guð er uppspretta hins lifandi vatns og hinn trúaði þráir samvistina með Guði eins og hindin þráir vatnslindir (Sálm 42.2). Umhyggja Guðs gagnvart manneskjunni er sömuleiðis tjáð með vatnsveituorðfæri þegar spámaðurinn Jesaja segir fyrir hönd Drottins: „Ég leiði vatn um eyðimörkina og ár um öræfin til þess að svala lýð mínum, mínum útvalda“ (Jes 43.20).

Jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar hefst formlega í dag. Hún er vatnssöfnun og miðar að því að mæta þörfum okkar allra fyrir vatn með því að grafa og reisa vatnssöfnunartanka í Úganda og Eþíópíu. Þú getur lagt þitt af mörkum með því að greiða valgreiðslu í heimabanka, hringja í söfnunarsímann 907 2003 og greiða þannig 2500 krónur, gefa á framlag.is eða leggja beint inn á söfnunarreikning: 0334–26–50886 kt. 450670–0499.