Bráðum

Aðventan kom með látum þetta árið, með óveðri og aflýstum aðventukvöldum. Lætin eru skemmtileg andstæða við innreið Jesú í Jerúsalem sem einkenndist öðru fremur af látleysi. Aðventan er tími eftirvæntinganna, nú hefst undirbúningurinn fyrir alvöru, nú hefst biðin og allt miðar að stundinni helgu þann tuttugusta og fjórða.

Okkur finnst sálmurinn hans Arnar Arnarsonar sem er tónlistarstjóri Fríkirkjunnar í Hafnarfirði ná vel að fanga kjarna þess tíma sem aðventan er. Þess vegna viljum við deila honum á blogginu í dag.

Þótt dauf sé dagsins skíma
og dimma okkur hjá,
við bíðum bjartra tíma
því bráðum kemur sá
sem ljós af ljósi gefur,
nú lífið sigrað hefur!
Við lofum hann Guðs son
sem gefur trú og von.

Við fögnum því við fáum
að halda heilög jól.
Hann kom frá himni háum
og hann er lífsins sól.
Herskarar engla´ og manna
nú syngja „Hósíanna!“.
Við lofum soninn þann
sem boðar kærleikann.

Okkur langar, á fyrsta mánudegi aðventunnar, að bera fyrir lesendur bloggsins spurningu. Hún er þessi: Hvaða vonir berð þú í brjósti á aðventunni? Þið megið svara hér á vefnum eða senda okkur línu á arni (hjá) p2.is.

Takk fyrir að lesa.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.