Saltið og síðasti söludagurinn

Morgunbæn á Rás 1, miðvikudaginn 14. janúar.

Góðan dag kæri hlustandi.

Ég vona að þú hafir átt góða nótt og vaknað endurnærður.

Um daginn sótt ég nokkur krydd til að nota í uppáhaldsrétt. Þau eru ekki notuð á hverjum degi og þegar ég kíkti á baukana, þar sem síðasti söludagur er skráður, kom þetta í ljós:

Timjan. Útrunnið.
Steinselja. Útrunnin.
Svínakjötssoðteningur. Útrunninn.

Ég þurfti því að gera mér ferð og kaupa nýtt krydd í matinn. Mig langar að lesa fyrir þig einn af kryddtextunum úr Biblíunni. Jesús segir við mannfjöldann sem hafði komið saman til að hlusta á hann:

„Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.

Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.“

Kryddið í baukunum í skápnum dofnar með tímanum. Það er merkt með síðasta söludegi og eftir hann á ekki að nota það. En það gildir annað um manneskjurnar. Við – þú og ég – sem eru salt jarðar höfum ekki síðasta söludag. Við erum kölluð til að vera öðrum salt og ljós í heiminum alla ævina, með því að reynast þeim vel.

Við skulum biðja:

Guð, þú veist hvað bíður mín á þessum degi.
Viltu gefa mér þann styrk sem ég þarf til að mæta því sem að höndum ber og vinna störf mín af alúð og gleði.
Viltu gefa mér að sjá þig þig í þeim sem verða á vegi mínum verða í dag
og viltu gefa að ég reynist þeim ljós og salt í lífinu. Amen.

Við skulum fara saman með bænina sem Jesús kenndi okkur:

Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð.
Fyrirgef oss vorar skuldir,
svo sem vér og fyrirgefum
vorum skuldunautum.
Og eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin
að eilífu.
Amen.

Nú höldum við út í daginn, megi æðruleysi, kjarkur og vit, leiðbeina þér í önnum og áskorunum.