Biblíublogg 1: Skrifaði Guð Biblíuna?

Biblían er stundum kölluð orð Guðs. Það þýðir ekki að Guð hafi skrifað hana eða að allt þar sé frá Guði komið. Biblían er ekki Guðs verk heldur mannanna verk.

"Escribano" eftir Jean Le Tavernier
Höfundur skrifar bók. Mynd frá 15. öld. Wikipedia
Samt lítur kristið fólk á Biblíuna sem hluta af sinni sögu sem inniheldur ávarp Guðs til sín hér og nú. Hvernig kemur það heim og saman?

Svarið liggur í snertifletinum sem við finnum við fólkið sem við lesum um í Biblíunni, við fólkið sem setti söguna sína í texta Biblíunnar og vitnar um leið um reynslu sína af því að vera manneskja í heiminum, að vera manneskja sem elskar, þráir, kreppist, óttast og missir, að vera manneskja sem trúir af því hún hefur reynslu af hinu heilaga sem birtist henni sem leiðarljós, fyrirheit um frelsi og frið.

Við þurfum að hafa í huga hvers konar textar eru í Biblíunni. Þar er að finna lagatexta. Þar er að finna ljóðræna texta. Þar er að finna sendibréf, þar er að finna sögulega texta. Þessir textar eru allir viðbrögð fólks við því sem Guð gerir og segir. Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga. Textar Biblíunnar eru mannleg viðbrögð við verkum Guðs.

Textar Biblíunnar eru ekki verk Guðs, heldur mannleg verk. Það þýðir að ekki er allt í Biblíunni vitnisburður um hvað Guði er þóknanlegt. Ekki það hvernig Guðs útvalda þjóð brást við óvinum sínum eða reglur sem hún setti sér í umgengni og siðum. Ekki heldur allt sem postular Jesú setja í bréf sín til kristinna manna á fyrstu öldinni eftir að Jesús lifði.

#biblíublogg