Biblíublogg 6: Konur eiga 1,1% orðanna í Biblíunni

Á síðasta ári kom út bók eftir Lindsay H. Freeman um konur í Biblíunni og orðin sem eru höfð eftir þeim. Þar kemur fram 93 konur tala í Biblíunni. Af þeim eru 49 nefndar með nafni. Alls eiga þessar konur 14.056 orð (út frá enskri þýðingu) sem gerir u.þ.b. 1.1 % af orðum í Biblíunni.

Þekktar og lítt þekktar konur

Sumar konurnar eru vel þekktar eins og María móðir Jesú. Í bók Freeman kemur fram að hún eigi alls 191 orð í ritningunni. María Magdalena á 61 orð, en Sara, kona Abrahams segir 141 orð.

Höfundurinn bendir á að margar af þeim konum sem koma fyrir í Biblíunni hafa gengið í gegnum áföll og ofbeldi. Hún spyr sig hvort þöggunin sem beið þeirra bætist ekki ofan á það.

„Af einhverjum ástæðum hefur vitnisburður og reynsla kvenna verið sett skörinn lægra þegar kemur að trú, en það sem karlar hafa fram að færa“ segir Freeman. „Við erum loksins farin að leggja við hlustir þegar konur eru annars vegar.“

Biblían skrifuð af körlum, fyrir karla?

Biblíufræðingar taka undir þetta sjónarmið, því staðreyndirnar tala sínu máli. Miðað við þessar tölur er Biblían skrifuð af körlum og fyrir karla, þar sem rýmið er ekki mikið fyrir konur og reynslu þeirra. Lítil skref, eins og að lyfta upp þeim konum sem fá að tala í Biblíunni getur skipt sköpum í að gera trúarvitnisburðinn lifandi í lífi bæði karla og kvenna í dag.

Gamla vs. Nýja….fleiri konur í Gamla?

Eitt af því áhugaverða sem bók Freemans leiðir í ljós er að Gamla testamentið, sem er sannarlega grjótharður vitnisburður um rótgróið feðraveldi, inniheldur fleiri orð kvenna en Nýja testamentið. Auðvitað er fleiri blaðsíðum til að dreifa, en það er líka umhugsunarvert að í 1. Mósebók er hlutfallið 11 konur á móti 50 körlum. Það er mun hagstæðara en heildarhlutfallið.