Samtal um trú og samfélag

Spurningin um tilvist Guðs eða tilvist hins illa er ekki knýjandi í trúmálaumræðu dagsins. Trúarspurningar samtímans snúast fremur um sýn okkar á hið góða samfélag og um hlutverk og rými hins trúarlega innan þess. Um þetta fjallar samtalið um kirkju og skóla í höfuðborginni.

Fermingarbörn úr Hafnarfirði heimsækja SkálholtDeilur um ákvörðun mannréttindaráðs Reykjavíkur endurspegla ágreining um sýnina á hið góða samfélag. Ekki er deilt um trúarbragðafræðslu. Námskrá grunnskóla er skýr og henni er fylgt eftir efnum og aðstæðum á hverjum stað. Deilurnar standa um þann félagslega umbúnað sem trú og trúariðkun nemenda er sniðinn af skóla og menntayfirvöldum.

Aðgerðir borgarinnar beinast að því starfi trúfélaga með börnum og unglingum sem getur flokkast sem boðun og skarast við tíma og rými skólans. Hér má nefna fermingarstarf sem krefst sveigjanleika frá hefðbundnu skólastarfi og tilboð um kirkjustarf í skipulögðum frístundum skólabarna.

Barna- og æskulýðsstarf kirkjunnar byggir á þeirri sýn að trúin sé eitt af því mikilvæga í lífi manneskjunnar og þar með í samfélaginu. Gagnrýna má borgaryfirvöld fyrir að taka trúna út fyrir rammann og setja önnur viðmið fyrir tengsl trúfélaga og skóla en íþróttahreyfinga, skáta og tónlistarskóla.

Þjóðkirkjan er stærsta trúfélagið í Reykjavík og á landinu öllu. Að mörgu leyti hefur kirkjan gengið hreint til verks. Hún hefur markað sér stefnu um aðgreiningu fræðslu sem er á ábyrgð skólans og boðunar sem kirkjan sinnir. Forsvarsmenn sókna og hverfisskóla hafa einnig nálgast málið af ábyrgð og virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum og fundið leiðir til að umgangast hið trúarlega sem hluta af fjölbreytileika samfélagsins.

Samtalið um hið góða samfélag og hlutverk trúarinnar heldur áfram í kirkju, skóla og borg. Áskorunin er að draga úr tortryggni og efla traust. Aðferðin er samtal og hlustun með visku og skilningi.

Birtist líka í Fréttablaðinu, á Vísi.is og á Trú.is.

Myndin með pistlinum var tekin í Skálholti á sumarnámskeiði fermingarbarna í Hafnarfjarðarkirkju.

7 responses

 1. Nú ætla ég að spyrja ósköp sakleysislegrar spurningar:
  Hvers vegna í ósköpunum „krefst [fermingarstarf] sveigjanleika frá hefðbundnu skólastarfi“? Er bannað að hafa það eftir skóla eða á laugardögum. Ég get svo svarið að ég var í fermingarundirbúningi á laugardögum hér í denn??

 2. Takk fyrir viðbrögðin þín Björn Friðgeir.

  Liður f í reglunum fjallar um fermingarfræðslu:

  „Skólayfirvöld beini því til trúar- og lífsskoðunarfélaga að þau skipuleggi fermingarfræðslu og barnastarf með það að leiðarljósi að það hvorki trufli lögbundið skólastarf um skemmri eða lengri tíma.“

  Í Reykjavík fer fermingarfræðsla ekki fram á skólatíma. Hún er með öðrum orðum eftir skóla eða á laugardögum. Í mörgum kirkjum hefur sú leið líka verið farin að halda sumarnámskeið fermingarbarna.

  Stundum fara nemendur í fermingarfræðslu í fermingarferðalög að hausti eða vetri. Þá er nauðsynlegt fyrir þau að fá frí úr skóla.

  Fyrir nokkrum árum komu tilmæli frá menntamálaráðherra um að slík leyfi yrðu ekki veitt nema beiðni um frí kæmi beint frá foreldrum. Það er því venjan að foreldrar biðji sjálfir um frí fyrir börnin sín. Slíkt frí er í ekki frábrugðið því sem foreldrar biðja um út af öðrum tilefnum, s.s. vegna íþróttaiðkunar, tónlistarnáms eða annars.

 3. Sæl Árni og Kristín,

  Þið segið:

  „Deilur um ákvörðun mannréttindaráðs Reykjavíkur endurspegla ágreining um sýnina á hið góða samfélag.“

  og stuttu síðar:

  Deilurnar standa um þann félagslega umbúnað sem trú og trúariðkun nemenda er sniðinn af skóla og menntayfirvöldum

  Þetta tvennt er ólíkt. Ég skil ekki alveg fyrri staðhæfinguna, nema að með því séuð þið að segja að „hið góða samfélag“ sé háð trú á Guð. Samt byrjið þið einmitt pistilinn á því að segja að spurningin um „tilvist Guðs“ sé ekki knýjandi.

  Um hvað snýst þá ágreiningurinn um „hið góða samfélag“? Eruð þið að segja að samfélag barna sem alast upp utan kirkjunnar, t.d. vegna þess að að foreldrarnir eru utan trúfélags en taki þátt í félagsstarfi Siðmenntar, sé ekki eins „gott samfélag“ og samfélag sem þið kjósið ykkar börnum?

  Nú virði ég að sjálfsögðu ykkar skoðanir og skil að þið viljið ala upp YKKAR börn samkvæmt ykkar lífssýn og siðgæði. En þurfið þið nokkuð að búa til „ágreining“ um það hvernig ég el upp MÍN börn?

  Með vinsemd og virðingu.

 4. Jón Yngvi Avatar
  Jón Yngvi

  Fríið er þó frábrugðið að því leyti að engir aðrir viðburðir valda því að 80-90% nemenda fái frí í einu og allt hefðbundið skólastarf leggst niður. Mér þykir þessi þörf kirkjunnar fyrir sveigjanleika vera argasta frekja. Elsta stelpan mín minnist með hryllingi þessara daga þegar hún og tveir eða þrír aðrir nemendur, ýmist af erlendum uppruna eða trúlausir þurftu að mæta í skólann einir og sitja þar með grautfúlum kennurum sem ekki vildu halda áfram með námsefnið meðan meirihluti árgangsins var í burtu. Ég lét þetta ekki endurtaka sig og bað um frí fyrir miðdótturina þegar farið var í ferðalag í ár. Ég gaf þá ástæðu að hún þyrfti að þvo á sér hárið.

 5. Takk fyrir viðbrögðin þín Einar Karl.

  Ég skil ekki alveg fyrri staðhæfinguna, nema að með því séuð þið að segja að “hið góða samfélag” sé háð trú á Guð.

  Ein víddin í samtalinu um hið góða samfélag er spurningin um hið trúarlega. Umræddar reglur gilda fyrir öll trúarbrögð á Íslandi og bráðum kannski líka félög eins og Siðmennt. Því má ljóst vera að við lítum fremur á þetta sem opið en lokað samtal. Fyrir okkur vakir að benda á gildi hinnar trúarlegu víddar í uppskriftinni að góðu samfélagi.

  Með öðrum orðum: Samstarf ólíkra aðila sem koma að uppeldi barnanna okkar er mikilvægt. Hver og einni aðili, s.s. trúfélög, lífsskoðanafélög, tónlistarskólar, íþróttafélög og aðrir, leggur eitthvað mikilvægt til samfélagsins.

  Við erum einmitt ekki að gera ágreining um það hvernig þú elur þín börn upp.

 6. Takk fyrir þína ábendingu Jón Yngvi.

  Það er alltaf erfitt þegar einhver finnur sig utangátta. Við þekkjum til bekkja þar sem mikill meirihluti af strákum og stelpum er í fótbolta eða handbolta. Mót úti á landi kalla á að foreldrar biðji um frí og það raskar kennslu.

  Ég vona að á flestum stöðum geti verið gott samtal um þessi mál milli skóla, foreldra og kirkju, íþróttafélaga og annarra, þannig að hægt sé að forðast ágreining og núning og slæma daga.

 7. Sæll Árni Svanur,
  takk fyrir svarið, skil það ekki alveg, en reyni að melta! :-)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.