Simpsons fjölskyldan á hvíta tjaldinu – með umræðuspurningum

Simpsons fjölskyldan hefur verið tíður gestur á mörgum heimilum frá því þættirnir hófu göngu sína árið 1989. Þættirnir hafa notið mikilla vinsælda og það mátti því alveg búast við því að fjölskyldan rataði loksins á hvíta tjaldið. Kvikmyndin um Simpsons fjölskylduna var frumsýnd árið 2007 og hún fékk nokkuð góðar viðtökur. Hér er stutt kynning á myndinni og helstu trúar- og siðferðisstefjunum í henni ásamt þremur spurningum sem má nota til að koma af stað samtali um myndina.

Þetta má notast að vild en mér þætti vænt um að heyra af því ef einhver hefur gagn af þessu og ég þigg ábendingar um betrumbætur. Þær má skrifa í ummæli við færsluna eða senda mér í tölvupósti á arni (hjá) p2.is.

Úr Simpsons kvikmyndinni

Um myndina

Myndin hefst í Springfield, heimabæ fjölskyldunanr. Þar eru teikn á lofti því bærinn er orðinn að mengaðasta smábæ Bandaríkjanna. Þegar Hómer tæmir úr rotþró heimilsins í stöðuvatnið grípur umhverfisstofnunin EPA í taumana og hylur bæinn með risastórum glerkúpli. Simpsons fjölskyldan sleppur þó út, en þarf að snúa aftur til að bjarga Springfield frá bráðri glötun.

Á leiðinni lærir Bart Simpsons heilmikið um hvað það er að vera fjölskylda og Hómer Simpsons lærir heilmikuð um hvað það er að vera ábyrgur og hvað það er að vera faðir.

Trúar- og siðferðisstef

Simpsons-þættirnir eru uppfullir af áhugaverðum trúar- og siðferðisstefjum. Kirkja og kristni er sýnilegur og stór hluti af samfélaginu í Springfield; kirkjuferðir eru tíðar og kristni nágranninn Flanders er áberandi. Kvikmyndin er engin undantekning þegar kemur að þessu. Flanders reynist Bart sem annar faðir og lykilatriði í myndinni gerist í kirkjunni.

Myndin hefst á tónleikum hljómsveitarinnar Green Day þar sem fjölmargir íbúar Springfield eru samankomnir. Þegar hljómsveitin hefur spilað síðasta lagið nefnir söngvarinn að nú vilji þeir ræða örlítið um umhverfismál (sveitin er meðal annars kunn fyrir áhuga sinn á þeim). Tónleikagestirnir bregðast þá ókvæða við. Þar með hafa umhverfismálin verið sett á dagskrá um leið og lögð er áhersla á það að bæjarbúar eru sér lítið meðvitaðir um þennan vanda.

Í myndinni er Hómer fulltrúi umhverfissóðanna. Þorpsbúar hafa sammælst um að hætta að losa sig við úrgang í ána og vatnið, en Hómer þarf að stytta sér leið og hendir rotþrónni í vatnið – það er dropinn sem fyllir mælinn og kemur atburðarásinni af stað.

Lisa Simpson er aftur á móti fulltrúi þess hóps vill vekja aðra til meðvitundar um umhverfisvandann. Hún er í myndinni látin kallast á við Al Gore og kvikmyndina An Inconvenient Truth og fær þannig í vissri merkingu stöðu spámanns.

Umhverfismálin eru stórt siðferðislegt vandamál, en í Simpsons kvikmyndinni eru þau jafnframt sett í samhengi heimsenda. Annars vegar er ýjað að því að heimurinn líði undir lok ef ekkert er að gert; hins vegar vofir eyðing Springfield yfir og Hómer og fjölskylda þurfa að láta til sín taka. Þetta er undirstrikað í atriði sem gerist í kirkjunni snemma í myndinni. Andinn kemur yfir afa Simpson fjölskyldunnar og hann mælir fram spádóm um yfirvofandi ógn.

Þrjár umræðuspurningar

Þrjár spurningar til umhugsunar og umræðu að sýningu lokinni:

  1. Hvað er að vera fjölskylda? Skoðað í samhengi sambands feðra og sona – foreldra og barna – Hómer og Bart, Hómer og Lísa, Ned og Bart. Hvað kennir myndin okkur um þetta? Hvað eru góð samskipti? Hvað eru slæm samskipti? Getur fólk breyst? Eru allir alltaf eins?
  2. Í Biblíunni kemur spurningin „á ég að gæta bróður míns fyrir?“ Veltið henni fyrir ykkur í samhengi þessarar myndar.
  3. Í myndinni er Hómer fulltrúi umhverfissóða, en Lísa umhverfissinna. Hver er munurinn á afstöðu þeirra. Breytist viðhorf þeirra í myndinni?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.