Aðventukrans minninganna

Aðventukrans í Hallgrímskirkju

Ljósin á aðventukransinum lýsa okkur í biðinni eftir jólunum og minna á tímann sem líður og reynsluna sem mótar okkur. Stundum tökum við á móti jólunum í gleði og eftirvæntingu. Stundum væntum við þeirra í sorg og sársauka. Hvert kerti á kransinum getur skírskotað til minninganna sem við berum með okkur en vísar um leið til vonarinnar sem jólin eru fyrirheit um.

Fyrsta kerti

Fyrsta aðventukertið minnir á ástvinina sem eru ekki lengur með okkur. Við nemum staðar, nefnum nafnið þeirra, rifjum upp röddina þeirra, andlitið þeirra og allar minningarnar sem tengjast þeim og jólatímanum. Við tendrum ljós, felum þau Guði og þökkum fyrir það sem lífið þeirra gaf okkur.

Annað kerti

Annað aðventukertið lýsir upp sársaukann yfir erfiðum breytingum sem hafa orðið í lífinu okkar. Það geta verið sambandsslit, atvinnumissir, fjárhagslegt áfall, heilsubrestur, frelsissvipting vegna streitu og álags, og hvers kyns breytingar sem skilja okkur eftir í einsemd. Við nefnum það sem veldur sársaukanum, leggjum okkur í Guðs hendur og biðjum um frið í hjartað.

Þriðja kerti

Þriðja aðventukertið er tendrað fyrir þau sem hafa misst áttir í lífinu og finnst þau vera týnd. Við þurfum öll að hafa stefnu í lífinu, að vita hver við erum og á hvaða leið við erum. Þess vegna er gott að þiggja leiðsögn ljóssins sem kemur í heiminn og vill upplýsa hvert og eitt okkar. Við tendrum ljós og biðjum fyrir þeim sem hafa misst sjónar á ljósinu og biðjum Guð að leiða þau í öruggt skjól.

Fjórða kerti

Fjórða aðventukertinu fylgir vonin um allt það sem jólin færa okkur. Barnið í jötunni er fyrirheit um frið og gleði handa öllum Guðs börnum. Við biðjum að ljós jólanna upplýsi huga og hjarta og að ljós okkar fái lýst bræðrum okkar og systrum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.