Búsáhaldaaðventan er hér

Aðventan er elskulegur og dýrmætur tími. Hún er í eðli sínu undirbúningur og bið eftir jólahátíðinni þegar við fögnum fæðingu Jesúbarnsins blíða.

A curious place for cutlery IIVið höfum öll upplifað þennan undirbúning fara úr böndunum og eigum það stundum til að yfirkeyra okkur á hlutum eins og verslun, neyslu á mat og drykk, framkvæmdum og skemmtanahaldi. Reikningurinn sem kemur á eftir getur gengið nærri efnahag og tilfinningum. Aðallega rænir asinn og erillinn því fegurðinni í því smáa og hljóða sem aðventan gefur fyrirheit um.

Þess vegna viljum við enduruppgötva aðventuna og boðskap hennar með því að einfalda og hægja á. Við köllum það búsáhaldaaðventu. Við tengjum forskeytið búsáhalda- við friðsamleg mótmæli – krúttpönk – sem leiða til breytinga.

Búsáhaldaaðventan beinir sjónum okkar inn á við, til barnanna í kringum okkur, inn á heimilið, inn í eldhús, til þess sem vex og dafnar í nærumhverfinu okkar, til hins veika og smáa sem verður undir í kapphlaupinu um það sem er nýjast, dýrast, stærst og best.

Búsáhaldaaðventan er alsgáð og heldur vöku sinni gagnvart þeim sem standa höllum fæti en hún gleðst líka yfir góðra vina fundi og samveru sem skapar og byggir upp.

Þetta blogg verður vettvangur Búsáhaldaaðventunnar og miðlar áherslum hennar og hugðarefnum fram að jólum. Við ætlum líka að skrifa í búsáhaldatístið á hverjum degi.

Lumar þú kannski á einhverju sem á erindi á Búsáhaldaaðventu? Sendu okkur línu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.