Gleðidagur 4: Fætur á jörðu, hjarta á himni

Tré ber við himinn

Í morgun hlustuðum við á viðtal við skáldið og ritstjórann Sigurð Ingólfsson sem býr á Egilsstöðum. Sigurður er nýbúinn að gefa út ljóðabókina Fimmtíu og tvær þakkarbænir. Hann útskýrði fyrir hlustendum að þakklætið væri í hans huga stærst og mest þeirra dyggða sem við getum ræktað með okkur og látið móta okkur. Þakklæti fyrir litlu hlutina í lífinu og í kringum okkur.

Það er alltaf betra að bregðast við uppákomum og aðstæðum með þakklæti heldur en pirringi.

Sigurður segir að það sé alltaf betra að bregðast við uppákomum og aðstæðum með þakklæti heldur en pirringi og reiði. Hann tók skemmtilegt dæmi um þegar maður missir sultukrukkuna í gólfið og hún fer út um allt. Þegar það gerist og maður er búinn að þrífa hana upp, er svo miklu betra að finna fyrir þakklæti yfir því að ná að tína öll glerbrotin upp án þess að skera sig – eða eitthvað svoleiðis – heldur en að ganga pirringi og reiði á hönd.

Fimmtíu og tvær þakkarbænir hvíla á viljanum og þörfinni á því að helga t.d. einn dag í viku því að þakka. Það getur verið í kirkjunni á sunnudögum,  heima hjá sér á miðvikudögum eða í fjallgöngu á föstudögum. Þakklætið tengir okkur við himinn og jörð, og tengir himinn og jörð saman, eins og tréð sem hefur rætur sínar í jörðinni og teygir greinar sínar til himins.

Á fjórða gleðidegi viljum við taka undir með skáldinu fyrir austan. Pirringur er orku- og tímasóun. Þakklæti gefur af sér orku og vitund fyrir núinu. Iðkum þakklætið, stöndum föstum fótum á jörðinni og teygjum huga okkar upp til himins.

Myndin með bloggfærslunni er af háu tré hinni fornu Rómaborg.

One response

  1. Sigurður Ingólfsson Avatar
    Sigurður Ingólfsson

    Innilega takk fyrir þetta!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.