Ellefti gleðidagur: Brosið sem gladdi einmana sál

IMG_2195

Ása Björk Ólafsdóttir, prestur í írsku kirkjunni, er góð vinkona okkar. Hún er gestabloggari á ellefta gleðidegi.

Brosið sem gladdi einmana sál

Á gleðidegi gerist margt í lífi einnar manneskju. Þar sem ég keyrði stúlkuna mína í skólann, lauk morgunsamveru okkar og skemmtilegum samræðum. Vitjun á sjúkrahúsið þar sem ég er sjúkrahússprestur næst á dagskrá. Kona sem ég hef vitjað vikum saman er farin, ég finn fyrir gleði fyrir hennar hönd en einnig söknuði þar sem samtöl okkar voru alltaf gefandi, gleðirík og áhugaverð. Blendnar tilfinningar.

Annar sjúklingur var fluttur á nýja deild og vissi aldrei alveg hvað var í gangi. Heilabilun er erfið viðureignar. Þegar ég birtist í dyrunum, fékk ég breitt bros og orðin: Þú ert komin aftur! Í eitt augnablik vonaði ég að viðkomandi væri með á nótunum og myndi eftir mér í raun og veru, en það var víst brosið sem munað var eftir. Það kom fram aftur og aftur í samtali okkar.

Annars snerist stundin um að viðkomandi upplifði sig á ferðalagi þar sem verið var að skipuleggja hvar næsta máltíð yrði snædd og hverjum yrði boðið með í það og það skiptið. Áratugir orðnir að móðu og eftir var aðeins tilfinning eða minning um eitthvað skemmtilegt sem gerst hafði í fyrndinni.

Gleði mín þennan morguninn var að brosið mitt skuli gleðja þreytta og einmana sál.

Á ellefta gleðidegi viljum við þakka fyrir brosin og nærveruna sem gleður og fyrir gestabloggarann Ásu Björk.

Myndin með bloggfærslunni er af kúnum sem voru á beit á túninu við gamla prestssetrið hennar Ásu Bjarkar í Kells.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.