Leyfðu okkur að vera hendur þínar

Í dag er dagur kærleiksþjónustunnar í þjóðkirkjunni. Í dag lyftum við upp þjónustunni við náungann sem er kjarnaatriði í kristinni trú og lífi og birtir okkur trúna í verki. Í sögunni af miskunnsama Samverjanum erum við minnt á okkur á að við spyrjum ekki um trú eða stétt eða stöðu þess sem er í neyð heldur nálgumst hann sem náunga sem þarfnast handa okkar í þjónustu. Í Matt 25.35-36 lesum við svo um inntak kærleiksþjónustunnar:

Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.

Í dag viljum við deila þremur bænum með ykkur og gera það að okkar.

I. Þakklæti

Drottinn Guð, við þökkum þér fæðuna og minnumst þeirra sem hungur sverfur að.
Við þökkum þér líf og heilsu og minnumst þeirra sem eru sjúk og deyjandi.
Við þökkum þér vini og fjölskyldu og minnumst þeirra sem eru einmana.
Við þökkum þér frelsið og minnumst þeirra sem eru í fangelsi, og í fjötrum fíknar og skulda.

Leyfðu okkur að tjá þakklætið til þín í þjónustu við aðra.

II. Vitnisburður

Góði Guð. Hjálpaðu okkur að sjá son þinn, Jesú Krist, í hverjum bróður og systur sem við mætum.
Líka þeim sem eru ólík okkur, hafa aðra trú, annað tungumál, annan bakgrunn og annan efnahag.
Öll eru þau í þinni mynd og óendanlega dýrmæt í þínum augum, eins og við sjálf.

Leyfðu okkur að bera trú okkar á þig vitni með þjónustunni við aðra.

III. Hendur

Lifandi Guð. Lát okkur minnast að allt sem við gerum einum okkar minnstu bræðra og systra, gerum við þér.
Þegar við heimsækjum, heimsækjum við þig, þegar við gefum að borða, gefum við þér að borða,
þegar við gefum, gefum við þér, þegar við elskum, elskum við þig.

Leyfðu okkur að vera hendur þínar á jörðu í þjónustunni við aðra.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.