Menu

árni + kristín

hjón, foreldrar, prestar

Guð blessi jörðina, hafið, gróðurinn …

Þessi blessun var samin fyrir æskulýðsdaginn 2014 og notuð í messunni Græn í garði Guðs. Hana má nota í helgihaldinu við ýmis tækifæri. Árni notaði hana til dæmis í Hreyfimessu í Lágafellskirkju 3. maí 2015.

„Guð blessi jörðina og allt sem hún gefur af sér. Guð blessi hafið og vötnin sem fæða af sér líf. Guð blessi gróðurinn, trén og blómin sem gefa fæðu, ilm og fegurð. Guð blessi dýr merkurinnar, fugla himinsins og fiska hafsins. Guð blessi hendur sem sá, rækta og uppskera. Guð blessi hendur sem matreiða, baka og útbúa næringu. Guð blessi þau sem líða skort og eiga ekki mat til morgundagsins. Guð blessi þau sem gefa með sér og muna eftir fátækum.“

Við gerum hana að 25. tilbeiðsluráðinu okkar.

Bænastundir með fólki á öllum aldri

Ég rakst á skjal frá ensku kirkjunni í Bristol sem er stútfullt af skemmtilegum hugmyndum og útfærslum á bænasamverum.

Það sem hugmyndirnar eiga sameiginlegt er að þær nálgast viðfangsefnið alltaf út frá einhverju áþreifanlegu sem dýpkar og skerpir upplifunina af sameiginlegri bæn. Þótt þetta skjal sé tekið saman fyrir barnastarf kirkjunnar, er þarna fullt af efni sem er hægt að nýta á breiðari grundvelli – enda segir frelsarinn að barnanna sé Guðs ríki….

Stríð 0 – friður 1

Kristín í prédikun að morgni páskadags:

Þetta er það fallega og öfugsnúna við upprisuna, sem snýr ríkjandi gildismati á hvolf. Við lifum nefnilega í menningu sem er með þráhyggju á háu stigi fyrir hinu sterka, því að ná árangri, skara fram úr, vera best og mest. En Jesús tekur ekki þátt í því, heldur býður fram leið friðarins.

Kranarnir og krossinn

Kristín í útvarpsprédikun á föstudeginum langa:

Í dag er dagur krossins, föstudagurinn langi, sem opnar augu okkar fyrir þeim sem þjást. Og andspænis þjáningu krossins finnum við mennskuna sem tengir okkur hvert öðru, í auðsæranleika okkar og varnarleysi. Við finnum mennskuna sem gerir okkur bæði hæf til fremja óskiljanleg grimmdarverk og elska óhindrað. Andspænis krossinum finnum við að við þurfum á hvert öðru að halda, og við finnum að við þurfum á einhverju sem er stærra og meira en við sjálf að halda. Andspænis krossinum finnum við að við þurfum á Guði að halda.

Biblíublogg 27: Við getum ekki annað

Í dag verður haldið málþing í tilefni af sjötugsafmæli Gunnars Kristjánssonar prófasts á Reynivöllum í Kjós um framlag Gunnars í ræðu og riti á ólíkum sviðum kirkjulífs, menningar og samfélagsumræðu.

Eitt af því sem skoðað verður er prédikunarguðfræði Gunnars en hann er ekki bara mikilhæfur prédikari sjálfur heldur hefur hann skrifað og þýtt prédikunarfræði.

Í samtíma prédikunarfræðum er mikið horft á prédikarann sjálfan og hvernig hann eða hún miðlar trúarreynslunni. Í bókinni Á mælikvarða mannsins sem Gunnar þýddi, kemur fram að eldri áherslur litu á prédikunarþjónustuna sem þjónustu boðberans eða kallarans. Hlutverk boðberans er jú að flytja það sem honum er trúað fyrir, hvorki meira né minna, og láta sig síðan hverfa. Innihaldið skiptir hann engu máli, engu skiptir hvað hann sjálfur hugsar og honum má standa á sama um þýðingu þess sem honum er falið að flytja.

Samkvæmt prédikunarguðfræði sem byggir á mikilvægi einstaklingsins í miðlun fagnaðarerindisins, er því ekki þannig farið. Hliðstæðan við prédikarann eða prestinn er miklu fremur vitnið heldur en boðberinn, sbr. Post. 4.20 um fólkið sem tjáir sig um það sem það hefur sjálft séð og heyrt og getur ekki þagað yfir. „Við getum ekki annað en talað það sem við höfum séð og heyrt.“

Næstsíðasta biblíubloggið okkar rifjar því upp fordæmið sem við finnum í hinum fyrstu kristnu sem fóru með boðskapinn út í heiminn af því þau gátu ekki annað en talað það sem þau höfðu séð og heyrt.

Biblíublogg 21: Elskhugi minn

Samband kristinnar trúar og kynlífssviðsins er margrætt og flókið. Bent hefur verið á að á sínum tíma hafi áhrifamiklir kristnir guðfræðingar hreinlega farið í stríð við kynhvötina og séð hana sem óvin og keppinaut trúarinnar.

Það breytir ekki mannlegri reynslu og vitnisburðinum um hana, sem við finnum í Biblíunni. Ein áhugaverðasta bók ritningarinnar er Ljóðaljóðin sem innihalda ástarjátningar tveggja elskenda og mjög litríkar og fallegar lýsingar á unaði ástarinnar.

Þessi vers úr fjórða kaflanum eru gott dæmi um það:

Hve fögur ertu, ástin mín, hve fögur,
og augu þín dúfur
undir andlitsblæjunni.
Hár þitt er sem geitahjörð
sem rennur niður Gíleaðfjall,
tennur þínar ær í hóp,
nýrúnar og baðaðar,
allar tvílembdar
og engin lamblaus.
Varir þínar eru sem skarlatsborði
og munnur þinn yndislegur,
gagnaugun eins og sneitt granatepli
undir andlitsblæjunni.
Háls þinn er eins og turn Davíðs
sem vopnum er raðað á,
þar hanga þúsund skildir,
öll hertygi garpanna.
Brjóst þín eru eins og tveir hindarkálfar,
dádýrstvíburar
að leik meðal lilja.
Þegar kular í dögun
og skuggarnir flýja
mun ég halda til myrruhólsins
og reykelsishæðarinnar.
Öll ertu fögur, ástin mín,
lýtalaus með öllu.

Hér eru engir 50 gráir skuggar á ferð, heldur eintóm litadýrð, ást og unaður.

Biblíublogg 18: Margþætt merking öskunnar

Mold

Í dag er öskudagur, sem markar upphaf föstunnar, sem í kristinni hefð er tími samlíðunar og iðrunar. Askan hefur verið notuð af kristnu fólki frá upphafi, til að tjá hluti sem er erfitt að koma í orð og kerfi en móta samt alla tilveru okkar. Í fyrsta lagi táknar hún forgengileikann. Askan minnir á eitthvað sem var, en er ekki lengur. Í annan stað er hún tákn um hreinsun, þar sem hún var notuð sem hreinsiefni í stað sápu. Í þriðja lagi er hún tákn um ákveðna hringrás sem kristin trú boðar, að við erum fædd af jörðu, við verðum að jörðu og við rísum upp af jörðu.

Myndmál öskunnar á sér rætur í orðum ritningarversins í 1. Mósebók, 3. kafla, 19. versi sem er svona í íslenskri þýðingu:

Því að mold ert þú
og til moldar skaltu aftur hverfa.

Í greftrunarhelgihaldi ensku kirkjunnar, í The Book of Common Prayer árið 1662 taka þessi orð á sig þessa mynd:

earth to earth, ashes to ashes, dust to dust.

Tilvistarlega tengingin er að þegar við förum í kirkju á öskudaginn og fáum öskukross á ennið, göngumst við þessum veruleika. Askan á enninu ber hlutum vitni sem við eigum kannski erfitt með að orða eða sætta okkur við, en trúum að við erum ekki ein um að bera.

Öskukrossinn á enninu segir sögu manneskjunnar í heiminum, sem elskar, missir, saknar og deyr. Öskukrossinn tjáir líka trúna um í gegnum þjáningu og dauða Jesú, sem við íhugum á föstunni, tengjumst við hinum endanlega veruleika á sérstakan hátt.

Askan á enninu nær utan um sársaukann sem við berum innra með okkur, sorgina yfir því sem við höfum misst og angistina yfir því að lífið sem við elskum verður fyrr en seinna tekið frá okkur.

Askan á enninu er hjálp til að fá þetta til að ganga upp og feta sig eftir lífsveginum í trú á tilgang og merkingu í því sem við erum hér og nú.

Mannleg tilvist er vist-leg því við erum hluti af hringrás vistkerfisins. Kannski er það eftir allt saman frekar heavy að horfast í augu við að alveg eins og við erum komin af jörðu, verðum við aftur að jörðu. En það er eins gott að hafa það í huga, það minnir öskudagurinn okkur á.

Biblíublogg 15: Hlustað frekar en lesið

Það er áhugavert að hafa í huga þegar við veltum fyrir okkur Biblíunni og áhrifum hennar í kristinni kirkju að lengst af hafði fólk ekki sjálft aðgang að henni, hvorki í hlutum eða heild. Það var því ekki um að ræða að fólk læsi sjálft úr henni eða hefði rit hennar við hendina til að fletta í.

Biblían var þar að auki lengst af bara til á latínu, sem var hið opinbera mál rómversk-kaþólsku kirkjunnar, og enginn almenningur talaði. Bækur voru fyrir tíma prentiðnaðarins líka fádæma dýrar og fágætar. Það er því ýmislegt sem bendir til þess að margar kirkjur hafi heldur ekki átt sína eigin Biblíu – og að prestarnir hafi notað og stuðst við einstaka texta úr henni í öðrum ritum, eins og messubókum og guðspjallabókum, sem voru minni í sniðum og aðgengilegri en sjálf Biblían.

Fyrsta íslenska Biblían sem kom út á Hólum árið 1584 var heldur engin smásmíði. Fyrir utan hvað bókin hefur verið dýr og á fárra færi að eignast hana, var heldur enginn leikur að burðast með hana, hreint líkamlega séð.

Hvernig lærði þá fólks sögur og orð úr Biblíunni, fyrir tímana sem við þekkjum best, þegar Biblían er til í aðgengilegu og ódýru formi sem allir hafa aðgang að, hvort sem er í prentuðu formi eða í gegnum snjalltæki? Með því að hlusta á orð hennar lesin í bænastundum og messuhaldi í kirkjunum. Eða með því að hlusta á hugvekjur og bænir byggða á textum hennar, sem rötuðu í hómilíubækur og skáldskap.

Biblían hefur því lengst af verið tekin í gegnum eyrun frekar en augum.

Biblíublogg 13: Jörðin er full af ofbeldi

Ein af sögunum sem iðulega eru kenndar og endursagðar í barnastarfi kirkjunnar er sagan um Nóa og örkina. Kannski er þetta þekktasta saga Gamla testamentisins í dag.

Á Nóasögunni eru ótal hliðar sem höfða til okkar á ólíkan hátt á ólíkum tímum. Meðal þeirra vinkla sem lyft hefur verið upp er vistfræðilega sjónarhornið sem útskýrir flóðið með því að benda á sjálfseyðingu manneskjunnar og ofbeldi gagnvart lífríkinu í heild og sín á milli.

Eitt af því sem er óendanlega heillandi við að rannsaka ritningarnar er að spá í einstök orð og merkingarsvið þeirra. Í aðdragandi sögunnar um Nóaflóðið og örkina, er að finna setningar um ástandið sem verður til þess að jörðin eyðist í flóðinu. Í íslensku Biblíunni hljómar þessi setning úr 1. Mós 6.13 svona:

„Ég hef ákveðið endalok allra manna á jörðinni því að jörðin er full orðin af ranglæti þeirra vegna.“

Í flestum enskum þýðingum er hins vegar talað um violence eða ofbeldi í þessu samhengi. Dæmi er í New Revised Standard Version svona:

„I have determined to make an end of all flesh, for the earth is filled with violence because of them“.

Og í gömlu góðu King James Version er setningin svona:

„The end of all flesh is come before me; for the earth is filled with violence through them“.

Það er gaman og gagnlegt að velta fyrir sér hughrifum sem orðið ofbeldi annars vegar og orðið ranglæti hins vegar vekur. Ofbeldi er einhvern veginn sterkara og kemur ansi mikið heim og saman við það sem við fréttum um ástandið í heiminum í dag.

Er ekki jörðin einmitt full orðin af ofbeldi mannanna vegna?

Biblíublogg 6: Konur eiga 1,1% orðanna í Biblíunni

Á síðasta ári kom út bók eftir Lindsay H. Freeman um konur í Biblíunni og orðin sem eru höfð eftir þeim. Þar kemur fram 93 konur tala í Biblíunni. Af þeim eru 49 nefndar með nafni. Alls eiga þessar konur 14.056 orð (út frá enskri þýðingu) sem gerir u.þ.b. 1.1 % af orðum í Biblíunni.

Þekktar og lítt þekktar konur

Sumar konurnar eru vel þekktar eins og María móðir Jesú. Í bók Freeman kemur fram að hún eigi alls 191 orð í ritningunni. María Magdalena á 61 orð, en Sara, kona Abrahams segir 141 orð.

Höfundurinn bendir á að margar af þeim konum sem koma fyrir í Biblíunni hafa gengið í gegnum áföll og ofbeldi. Hún spyr sig hvort þöggunin sem beið þeirra bætist ekki ofan á það.

„Af einhverjum ástæðum hefur vitnisburður og reynsla kvenna verið sett skörinn lægra þegar kemur að trú, en það sem karlar hafa fram að færa“ segir Freeman. „Við erum loksins farin að leggja við hlustir þegar konur eru annars vegar.“

Biblían skrifuð af körlum, fyrir karla?

Biblíufræðingar taka undir þetta sjónarmið, því staðreyndirnar tala sínu máli. Miðað við þessar tölur er Biblían skrifuð af körlum og fyrir karla, þar sem rýmið er ekki mikið fyrir konur og reynslu þeirra. Lítil skref, eins og að lyfta upp þeim konum sem fá að tala í Biblíunni getur skipt sköpum í að gera trúarvitnisburðinn lifandi í lífi bæði karla og kvenna í dag.

Gamla vs. Nýja….fleiri konur í Gamla?

Eitt af því áhugaverða sem bók Freemans leiðir í ljós er að Gamla testamentið, sem er sannarlega grjótharður vitnisburður um rótgróið feðraveldi, inniheldur fleiri orð kvenna en Nýja testamentið. Auðvitað er fleiri blaðsíðum til að dreifa, en það er líka umhugsunarvert að í 1. Mósebók er hlutfallið 11 konur á móti 50 körlum. Það er mun hagstæðara en heildarhlutfallið.

Kyndilsmessa og múrmeldýr

Kyndilmessa

Annar febrúar er kyndilmessa sem er í almanakinu okkar tengdur veðri og veðurspá. Frá Evrópu barst til Bandaríkjanna siður sem tengist íkornategundinni groundhog – er það ekki múrmeldýr? – sem gengur úr á að fylgjast með hegðun dýrsins þennan dag og spá um tíðarfarið út frá því.

Ef dýrið, sem heldur sig í holum neðanjarðar, skýtur upp kollinum og sér skuggann sinn, vegna þess að sólin skín á það, er það til merkis um að veturinn verði langur og vari 6 vikur enn. Ef enginn skuggi sést, má vænta vorkomu upp úr þessu.

Eins og gildir um allan almennilegan sannleik, er þessi bundinn í vísu sem er m.a. til í þessu formi á enskri tungu:

If Candle-mas Day is bright and clear,
There’ll be two winters in the year.
If Candle mas be fair and bright,
Winter has another flight.
If Candlemas brings clouds and rain,
Winter will not come again.

Þótt múrmeldýrið lifi ekki á Íslandi er þessi ratar þessi pæling líka í vísu, sem er til í þessari útgáfu:

Ef í heiði sólin sést
á sjálfa kyndilmessu
snjóa vænta máttu mest,
maður, upp frá þessu.

Kyndilmessan, sem vísað er til markar í kristinni hefð tímann sem hefði átt að líða þar til María móðir Jesú gat sýnt sig í musterinu, þar sem fjörutíu dagar voru liðnir frá því hún átti sveinbarnið sitt. Dagurinn markar í kirkjuárinu skilin á milli jólatímans og föstunnar, kristið fólk beinir sjónum sínum frá undrinu í Betlehem og yfir til átakanna í Jerúsalem sem enda í krossfestingunni á föstudaginn langa.

Í dag ætlum við að sjálfsögðu að horfa á kvikmyndina Groundhog Day með Bill Murray og íhuga boðskap hennar um endurtekninguna (hæ Sören Kierkegaard!). Svo má hugsa um það að ef Jesús hefði verið stúlkubarn, hefði kyndilmessan ekki verið fyrr en 14. mars. Er það ekki eitthvað?

Biblíublogg 2: Með hvaða gleraugum lesum við Biblíuna?

Biblían geymir sögu sem kristnir menn taka til sín með sérstökum hætti. Í henni heyrir kristið fólk Guð ávarpa sig. Það leitast því við að vera opið fyrir því sem Guð vill segja við lestur eða hlustun.

Sögunni sem Biblían geymir er miðlað á fjölbreyttan hátt því hún er hvorki einsleit í stíl né uppbyggingu. Ólíkt flestum öðrum bókum er Biblían ekki texti sem er lesinn frá upphafi til enda. Hún samanstendur af textum sem koma úr ólíkum áttum og urðu til á löngum tíma. Hver og einn kafli, hvert og eitt rit, er sjálfstætt verk þannig séð en aðferðafræði kristins fólks er að nálgast texta Biblíunnar í gegnum aðra texta hennar. Þannig er Biblían sjálf gleraugun sem við lesum hana með.

Þetta þýðir að við tökum Biblíuna ekki upp í leit að því sem Guð vill segja okkur og látum svo staðnæmast við það fyrsta sem við sjáum sem svar við knýjandi málum líðandi stundar. Þannig virkar það ekki. Ástæðan er sú að tengsl hins trúaða og Biblíunnar eru allt önnur, miklu dýpri og flóknari.