Kolaglóð og krýsólít: Reiðhjólabæn

Bobbin Daytripper reiðhjól

Vorið er tíminn þegar við tökum hjólin okkar fram og njótum hreyfingar og útiveru í sátt og samlyndi við umhverfið. Götur, torg og skólalóðir fyllast líka af ungu hjólreiðafólki með marglita hjálma og skrautlega lása.

Ég tók saman stutta helgistund þar sem við nefnum hluti sem eru mikilvægir öllu hjólafólki. Fyrst kemur ritningarlestur – sem er soldið flippaður, enda frá þeim magnaða spámanni og presti Esekíel, sem lifði á 6. öld fyrir Krist. Mér finnst hann passa vel í reiðhjólabæn þar sem hann fjallar um hjól og það er mikið líf í tuskunum. Svo kemur bæn sem er sett upp eins og almenn kirkjubæn í venjulegri messu, þar sem einn les og hinir svara. Að lokum fylgir blessun og smurning – því bæði fók og hjól þurfa réttu olíuna til að ganga vel. 

Form fyrir hjólamessu

A. Ritningarlestur úr Esekíel 1.13-21

Verurnar voru á að líta sem blossandi kolaglóð og minntu á kyndla og gengu leiftur á milli veranna, leiftrandi blossar. Verurnar hlupu fram og aftur, líkastar eldingarleiftrum.
Þegar ég horfði á verurnar sá ég eitt hjól á jörðinni við hliðina á hverri af verunum fjórum. Þessi hjól virtust vera gerð úr ljómandi krýsólítsteini og öll voru þau eins að sjá. Þau voru þannig gerð að eitt virtist vera innan í öðru. Hjólin gátu snúist í allar fjórar áttir án þess að breyta um stefnu þegar þau snerust. Á þeim voru hjólgjarðir og sá ég að allar fjórar voru alsettar augum allt um kring. Þegar verurnar gengu snerust hjólin við hlið þeirra og þegar verurnar hófu sig upp frá jörðinni hófust hjólin einnig. Þær gengu þangað sem andinn vildi að þær gengju og hjólin hófust um leið og þær því að andi veranna var í hjólunum. Þegar þær gengu snerust þau og þegar þær námu staðar staðnæmdust þau einnig og þegar verurnar hófu sig frá jörðu lyftust hjólin um leið og þær því að andi veranna var í hjólunum.

B. Bænir

L: Við skulum biðja. Við horfumst í augu við að jörðin okkar þjáist undan neysluþunga manneskjunnar og að hjólreiðar eru mikilvæg gæði í því sambandi. Við þökkum fyrir einfaldleika og fegurð reiðhjólsins. Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.

Svar: Drottinn heyr vora bæn.

L: Við biðjum fyrir börnum sem læra að hjóla og fyrir öllum sem hjóla um götur og stíga í samfélaginu okkar. Vernda þau frá óhappi og hættu. Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.

Svar: Drottinn heyr vora bæn.

L: Við biðjum fyrir þeim sem þjást vegna hjólaslysa og vegna hjólastulda. Gef okkur styrk til að fyrirgefa þeim sem brjóta gegn okkur. Fyrir Jesú Krist Drottin vorn.

Svar: Drottinn heyr vora bæn.

L: Við biðjum fyrir þeim sem smíða, gera við og hreinsa hjólin okkar og fyrir þeim sem sjá fyrir sér með því að þjónusta reiðhjólamenn. Takk fyrir þau sem hafa talað fyrir gæðum hjólreiða fyrir samfélagið og barist fyrir bættri aðstöðu hjólafólks. Blessa þau sem velja að hjóla til og frá vinnu. Fyrir Jesú Krist Drottin vorn.

Svar: Drottinn heyr vora bæn.

L: Við biðjum fyrir þeim sem hafa látist í hjólaslysum og þeim sem hafa misst ástvini í þeim aðstæðum. Blessa minningarnar um þau sem okkur eru kær og gjör okkur minnug hve lífið er viðkvæmt og varnarlaust. Vernda okkur þegar við hjólum. Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.

Svar: Amen.

C. Blessun og smurning

L: Meðtakið blessun og smurningu

Drottinn blessi hjólin okkar. Drottinn láti öll sem hjóla vera eins og leiftrandi blossa. Drottinn úthelli vernd sinni á hjálmana okkar. Drottinn veri við stýrið og leiðbeini okkur um réttan veg. Drottinn blessi hjólin sem leiða okkur um jörðina, sköpun hans, án þess að íþyngja henni. Drottin smyrji bremsur svo við förum ekki lengra eða hraðar en gott er. Drottinn leiðbeini okkur á rétta vegu svo við finnum alltaf veginn heim. Amen.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.