Ósíuð aðventa 15: Þeir skilja sem vilja

Í morgun hlustuðum við á veðurfræðinginn Martin Hensch í útvarpinu. Hann er frá Þýskalandi, hefur búið hér á landi frá 2009 og starfað á Veðurstofunni frá 2012. Stundum les Martin veðurfregnir í útvarpinu, hann gerir það á góðri íslensku en talar með hreim.

Sumir hafa gagnrýnt hann fyrir það. Við erum ósammála og erum þvert á móti þakklát fyrir að heyra röddina hans Martin á morgnana. Það minnir okkur á að við erum hluti af stærra samfélagi og að á Íslandi er alls konar fólk. Það gerir okkur líka þakklát því á öld fjölmenningarinnar er ekki sjálfgefið að allir sem setjast hér að læri íslensku.

Við hugsum líka til hirðanna og vitringanna sem sem sóttu fjölskylduna í Betlehem heim og töluðu líklega með hreim eða allt annað tungumál en Jósef og María. En þeir voru velkomnir og við vonum að veðurfræðingurinn Martin finni sig líka velkominn .

Svo tökum við undir með honum. Þeir skilja sem vilja.

#ósíuðaðventa

Ósíuð aðventa 14: Von í myndum

Aðventan er tími vonarinnar. Á vef tímaritsins The Atlantic var á dögunum deilt þrjátíu vonarmyndum sem sýna fólk í jákvæðum og uppbyggilegum aðstæðum og minna okkur á það góða í heiminum. Það er gott að skoða þær til að lyfta sér upp.

Eitt af því sem vekur okkur von eru sumar- og vetrargöturnar í Reykjavík. Þeim er lokað hluta dagsins og þá eru gangandi og hjólandi vegfarendur settir í forgang. Það minnir okkur á að fólk skiptir meira máli en bílar og að umhverfið verður að fá forgang. Ekki bara á sumrin heldur líka á aðventunni.

#ósíuðaðventa

 

 

Ósíuð aðventa 13: Ljós í myrkri

Þrettándi desember er messudagur heilagrar Lúsíu. Hún birtist okkur fyrst og fremst í fallegum siðum sem rekja má til Svíþjóðar og breiðast kannski út um heiminn með verslunum IKEA. Í dag eru Lúsíuhátíðir haldnar víða í Svíþjóð og reyndar einnig hér á landi.

Í kirkjuhefðinni er Lúsía verndardýrlingur blindra, veikra barna, bænda, vændiskvenna sem hafa snúið við blaðinu, glergerðarmanna, bílstjóra, hjúkrunarkvenna, klæðskera, vefara, ritara og fleiri.

Lúsía er táknmynd fyrir reynslu margra kvenna sem hafa þurft að þola ákvarðanir annarra fyrir sína hönd. Hún bjó við heimilisofbeldi og mansal eins og kynsystur hennar um allan heim enn í dag. Ofbeldi gegn konum er svartur blettur á menningu okkar. Þess vegna er við hæfi að staldra við einmitt á dimmasta tíma ársins og horfast í augu við þær konur sem hafa lifað og dáið við kerfisbundna beitingu ofbeldis í skjóli fjölskyldutengsla eða hefða.

Aðventan vísar til komu ljóssins í heiminn. Hún hefur þeim mun meiri áhrif eftir því sem myrkrið er meira. Hjúpuð myrkri blindu og valdbeitingar heldur Lúsía uppi ljósi vonarinnar sem nær til hinna kúguðu og gleymdu – einnig þessa jólaföstu.

#ósíuðaðventa

Ósíuð aðventa 12: Út með óttann

Rauður þráður í boðskap guðspjallanna er hvatningin um að vera ekki hrædd. Aftur og aftur lesum við af vörum Jesú og englanna: Óttastu eigi, verið óhrædd.

Óttinn er frumtilfinning sem líkja má við faraldur í lífi manneskjunnar. Það er nóg í lífinu til að vera hræddur við: eigin afkomu og heilsu, líf og velferð þeirra sem okkur er annt um, slysin sem ekki gera boð á undan sér, og dauðann sem bíður okkar allra.

Óttinn er líka stjórntæki og er óspart beitt sem slíku. Í sögunni og heimspólitíkinni sjáum við hvernig spilað hefur verið á ótta fólks og myndir af óvinum hafa verið særðar fram. í Þýskalandi nasista voru gyðingar óvinurinn sem fólk átti að hræðast, við sjálf ólumst upp við að vera skelfingu lostin yfir möguleikanum á kjarnorkustríði við kommúnista, börnin okkar alast upp við ótta við hryðjuverk og islamista.

Óttinn virðist líka vera gjaldmiðill í innlendri pólitík. Við erum látin vera hrædd við að okkar minnstu bræður og systur gjaldi þess ef hingað komi fólk frá Sýrlandi eða Albaníu, í leit að betra lífi. Að lífeyrisþegar og íslensk börn gjaldi þess ef langveik börn og hælisleitendur fái hér vernd. Við erum líka svolítið hrædd um að ef við notum ekki alla virkjunarkosti landsins, munu lífgæðin okkar skerðast og allt verða vont.

Óttinn er kröftugt stjórntæki og notaður óspart af þeim sem hafa hag af því að við séum hrædd og að við stjórnumst af óttanum. Og við föllum alltaf fyrir því, þess vegna látum við ógert að spyrna við fótum þótt við vitum betur.

Þess vegna hefur hvatning Jesú um að vera ekki hrædd aldrei verið mikilvægari en á þessari aðventu. Við þurfum að hætta að vera hrædd og stjórnast af óttanum, því það kemur í veg fyrir að við breytum rétt gagnvart okkur sjálfum, náunga okkar og náttúrunni. Og eins og Angela Merkel, sem Times magazine valdi mann ársins 2015 segir, þá er óttinn glataður förunautur sem gefur aldrei góð ráð.

#ósíuðaðventa

Ósíuð aðventa 11: Uppskerutími

Allir sem eiga börn vita að á aðventunni fer mikill tími í að fylgjast með uppskeru barnanna á því sem þau hafa verið að vinna að á haustmisserinu. Á barnmörgu heimili eru ótal stundir í desember sem fara í að mæta á danssýningar, tónleika, helgileiki, jólaböll og kynningar af ýmsu tagi.

Þetta eru kærkomin andartök og dýrmæt tilefni að eiga stund með börnunum. Allt of oft einkennast samskipti og samvera við börnin okkar af hlaupum og stressi. Á jólum er kannski það dýrmætasta sem þú getur gefið börnunum í lífi þínu að vera til staðar, sýna áhuga á því sem þau gera, gefa tíma og skemmtilegheit sem þau kunna að meta.

Áskorun dagsins

Hérna er áskorun: Þegar þú veltir fyrir þér hvað þú eigir að gefa barninu þínu eða börnunum þínum í jólagjöf, íhugaðu hvað það gæti verið sem það/þau langar mest í – nefnilega þú og athyglin þín. Allt legó, Barbie, Batman, Playstation dót í heiminum nær ekki að slá út það sem barnið þráir mest: athygli pabba og mömmu og áhuga þeirra á því sem barnið er að gera og leggja sig fram við.

Kannski er skemmtilegasta verkefnið sem við fáum með börnunum okkar að gera ekkert með þeim: bara að vera, leika, borða, kúra, knúsa og fylgjast með hvað þau hafa stækkað, þroskast og blómstrað allt árið sem nú er að líða.

Aðventan er uppskerutími.

Ósíuð aðventa 10: Dagur mannvirðingar og mannréttinda

Tíundi desember, er mannréttindadagur Sameinuðu þjóðanna. Haldið hefur verið upp á hann frá árinu 1948 þegar Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti Mannréttindayfirlýsinguna eða Heimsyfirlýsingu um mannréttindi eins og það var orðað á þeim tíma.

#mannréttindi365

Þema dagsins 2015 er #mannréttindi365 (#rights365) sem er áminning um grundvallarsjónarmið Mannréttindayfirlýsingarinnar. Þar er gengið út frá því að mannréttindi er allra. Þau binda mannkynið saman sem heimssamfélag. Þetta gildir 24 tíma á sólarhring, 365 daga ársins.

„Allir dagar eru mannréttindadagar. Þeir eru dagar sem við verjum við það að tryggja að allar manneskjur geti öðlast jafnrétti, reisn og frelsi,“ segir Zeid Ra’ad Al Hussein, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Við stöldrum við á þessum degi og íhugum hver það eru í samfélagi okkar sem njóta ekki jafnrétti, reisnar og frelsis. Í hugann koma óneitanlega þau sem koma hingað í neyð og biðja um skjól. Landlausa fólkið sem oft fær ekki réttarmeðferð eða umfjöllun út frá sínum aðstæðum, heldur er sett í fyrirframgefinn flokk sem á að ganga yfir línuna óháð aðstæðum hvers og eins. Slík meðferð tekur ekki tillit til einstaklingsins, bakgrunns hans og aðstæða. Þess vegna virðir hún ekki manneskjuna og réttindi hennar.

Fjölskylda á hrakningum

Í Víðsjá dagsins – á degi mannréttinda – gerði útvarpsmaðurinn Guðni Tómasson mál hælisleitenda að umfjöllunarefni sínu. Hann tengdi þau við jólasöguna:

„Viljum við búa í samfélagi sem er gjörsneitt mannúð og samkennd? Þar sem kaldhamraður veruleiki reglugerðarinnar er æðstur boðorða? Þar sem mannréttindi eru alltaf túlkuð eins þröngt og mögulega er hægt? Kannski, kannski viljum við bara fá að vera í friði, loka okkur af eins og hræddir fuglar í búri.

En svo koma jól og við minnumst fjölskyldu á hrakningum í Mið-Austurlöndum forðum daga, ekki svo ýkja fjarri Sýrlandi þar sem sprengjur ríku þjóðanna falla sem ætlað er að leysa allt, frelsa okkur undan óttanum í lífi okkar. Já, það koma jól og við gleymum albönsku börnunum, Kleu og Kevi, og foreldrum þeirra. Eftir situr óbragð í munninum sem jafnvel jólasteikin og möndlugrauturinn eiga erfitt með að eyða.“