Hvaða erindi á kristinn boðskapur við Nýja-Ísland?

Hvaða erindi á kristinn boðskapur við Nýja-Ísland? Svo spyr G8 hópurinn sem hefur skrifað snarpar og snjallar greinar um hrunið af sjónarhóli guðfræðinnar. Þau efna til málþings á Sólon í dag og bjóða til samtals um þessa spurningu. G8 hópurinn er samtals- og lausnamiðaður og það þurfum við svo sannarlega í dag. Um að gera að mæta klukkan 17 á Sólon.

Trúverðug kristni

Við Kristín Þórunn stungum niður penna og skrifuðum stutta grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag og á trú.is. Hún fjallar um kristni í samtímanum – um trúverðuga kristni. Við segjum meðal annars:

Það er ábyrgðarhluti að lifa í nútíma samfélagi, að vera upplýst, læs og geta tekið þátt í lýðræðisumræðu. En ábyrgðin stoppar ekki þar heldur felur hún líka í sér að við eigum að vera þjónar hins góða og talsmenn vonar í samfélaginu.

Svo þarf stíga næsta skref. Jesúbarnið sem kemur býður okkur ekki aðeins að læra af sér og tala heldur kallar það okkur til þjónustu við lífið. Hin fjölþætta áskorun aðventunnar er þá þessi: Að við hlustum, horfum, lesum og þjónum. Tölum um hið góða líf og þjónum því í öllu sem við gerum. Höfum augun opin fyrir táknunum kringum okkur. Fyrir táknum um fegurð, gleði og von, lyftum þeim fram og minnum á þau. Fyrir táknum um það sem er ekki í lagi: um fjölskyldur sem líða skort, um fólk sem er troðið á, um misrétti, um misferli, um börn sem fá ekki að vera börn.

Við eigum að haga eigin lífi þannig að það sé tími og rými til að láta gott af okkur leiða. Við eigum að láta okkur annt um þau sem þarfnast – til dæmis með því að gefa mat, peninga eða tíma til hjálparstofnanna sem sinna fólki nú fyrir jólin. Við eigum að forgangsraða þannig að börnin okkar finni hvers virði þau eru. Við eigum að vera málsvarar réttlætis, sáttar og vonar í samfélaginu.

Lesið greinina á trú.is.

Getur þú tínt í aukapoka?

Aukapokinn

„Getur þú tínt í einn aukapoka fyrir þá sem mest þurfa hjálp?“ Svo spyr Hjálparstarf kirkjunnar sem hefur hleypt af stokkunum nýstárlegri söfnun. Aðsóknin í innanlandsaðstoð Hjálparstarfsins hefur aukist mjög mikið á því ári sem er liðið frá efnahagshruninu. Þörfin er mikil. Það skiptir því miklu máli að allir sem geta leggi sitt af mörkum.

Getur þú hjálpað?

Ps. Hægt er að gerast meðlimur í Aukapokahópi á Facebook.

Réttlætið

„Réttlætið er … ástand í samfélaginu þar sem réttur hins smæsta er ekki fyrir borð borinn heldur varinn. Þar sem réttur umkomulausra er varinn er samfélagið á réttri leið og þar þrífst mannúð, menning og menntun, þrenning sem fylgir siðbótinni frá upphafi.“

Svo skrifar dr. Gunnar Kristjánsson í pistlinum Til mögru áranna sem birtist á trú.is á dögunum. Holl áminning!

Blessun dauðans

Frá því þú fæddist
hefur þinn eigin dauði gengið þér við hlið
og þótt hann sýni sig sjaldan
finnur þú hola snertingu hans
þegar óttinn heldur innreið sína í líf þitt
eða þegar það sem þú elskar glatast
eða þú verður fyrir hnjaski hið innra.

Þegar örlögin leiða þig
á þessa fátæklegu staði
og hjarta þitt er áfram örlátt
þar til dyr opnast inn í ljósið
þá ertu smátt og smátt að vingast við eigin dauða
þannig að þegar stundin rennur upp
og þú þarft að snúast á hæli og hverfa á braut
hafir þú ekkert að óttast.

Megi þögul nærvera dauða þíns
kalla þig til lífsins
og vekja þig til vitundar um það að tíminn er af skornum skammti
og til þess að þú verðir frjáls og
lifir köllun þinna eigin örlaga.

Megir þú safnir þér saman
og ákveða hvernig þú ætlar að lifa hér og nú
lífinu sem þú myndir vilja
líta til baka á
frá þínu eigin dánarbeði.

Írski presturinn og heimspekingurinn John O’Donohue skrifaði þessa fallegu blessun og brýningu. Við Kristín Þórunn fluttum hana í prédikuninni okkar í Víðistaðakirkju í gær þar sem við ræddum meðal annars um lífið og dauðann, börnin og barnalánið og barnalánin sem voru í fréttum í síðustu viku og sitthvað fleira.

„Smátt og smátt lærist mér …“

Í dag er allra heilagra messa. Á þessum degi minnast margir látinna ástvina og íhuga sorgina og lífið. Við horfum yfir farinn veg. Mörg okkar halda líka í kirkjugarða til að vitja um leiði, kveikja kannski á kerti og gera stutta bæn. Mig langar í dag að deila með ykkur sem heimsækja þetta blogg stuttu ljóði eftir ástralska ljóðskáldið Marjorie Pizer:

Ég taldi að dauði þinn
væri eyðing og eyðilegging,
sársaukafull sorg sem ég fékk vart afborið.
Smátt og smátt lærist mér
að líf þitt var gjöf og vöxtur
og kærleikur sem lifir með mér.
Örvænting dauðans
réðist að kærleikanum.
En þótt dauðinn sé staðreynd
fær hann ekki eytt því sem þegar hefur verið gefið.
Með tímanum læri ég að líta aftur til lífs þíns
í stað dauða þíns og brottfarar.

„Smátt og smátt lærist mér,” skrifar hún. Með tímanum lærist okkur að horfa á lífið, vera þakklát fyrir það sem þegið var meðan okkur auðnaðist að ganga saman en ekki bitur yfir því sem aldrei fékk að verða. Kannski er það stærsti lærdómur þess sem fetar sig eftir stíg sorgarinnar.

Kannski er það líka áskorun okkar sem þjóðar, nú á þessum tímum, þegar við glímum við úrvinnslu kreppusorgarinnar.

Fimm þúsund börn

Það mætti halda að allt snerist um peninga á Íslandi þegar horft var til forsíðna morgunblaðanna fyrr í vikunni. Þar mátti lesa:

  • Vogunarsjóðir sjá tækifæri í íslensku bönkunum á ný
  • Fimmtungur lána í frystingu
  • Afskrifa líklega milljarða vegna lána Jötuns Holding
  • Hvöss gagnrýni á umframútgjöld og málsmeðferð hjá ríkinu

Aðalfréttin rataði hins vegar ekki á forsíður blaðanna. Og þó mér fannst hún vera forsíðuefni í dagblöðum og á vefmiðlum. Og hvaða frétt var það? Átakið gegn einelti sem hleypt var af stokkunum. Í tengslum við það hafa samtökin Heimili og skóli m.a. bent á að 5000 börn eru lögð í einelti hér á landi.

5000 börn.

Það eru alltof margir.

Og á bak við þessa tölu eru auðvitað fleiri: Aðstandendur og gerendur.

Á vef Heimilis og skóla er hægt að fræðast meira um átakið og þar er hægt að sækja bækling með hollráðum til foreldra. Við ættum að taka okkur saman og vekja athygli á þessu, skapa meðvitund og styðja Heimili og skóla til góðra verka. Miðla á Facebook og vefmiðlum og til þeirra sem eru í tengslanetunum okkar. Og hvetja svo íslenska fjölmiðla til að setja þetta mál í forgang.

Því það á ekki allt að snúast um peninga.

Það á allt að snúast um fólk.

Það er eins gott að við áttum okkur á því.