Búsáhaldaaðventan er hér

Aðventan er elskulegur og dýrmætur tími. Hún er í eðli sínu undirbúningur og bið eftir jólahátíðinni þegar við fögnum fæðingu Jesúbarnsins blíða.

A curious place for cutlery IIVið höfum öll upplifað þennan undirbúning fara úr böndunum og eigum það stundum til að yfirkeyra okkur á hlutum eins og verslun, neyslu á mat og drykk, framkvæmdum og skemmtanahaldi. Reikningurinn sem kemur á eftir getur gengið nærri efnahag og tilfinningum. Aðallega rænir asinn og erillinn því fegurðinni í því smáa og hljóða sem aðventan gefur fyrirheit um.

Þess vegna viljum við enduruppgötva aðventuna og boðskap hennar með því að einfalda og hægja á. Við köllum það búsáhaldaaðventu. Við tengjum forskeytið búsáhalda- við friðsamleg mótmæli – krúttpönk – sem leiða til breytinga.

Búsáhaldaaðventan beinir sjónum okkar inn á við, til barnanna í kringum okkur, inn á heimilið, inn í eldhús, til þess sem vex og dafnar í nærumhverfinu okkar, til hins veika og smáa sem verður undir í kapphlaupinu um það sem er nýjast, dýrast, stærst og best.

Búsáhaldaaðventan er alsgáð og heldur vöku sinni gagnvart þeim sem standa höllum fæti en hún gleðst líka yfir góðra vina fundi og samveru sem skapar og byggir upp.

Þetta blogg verður vettvangur Búsáhaldaaðventunnar og miðlar áherslum hennar og hugðarefnum fram að jólum. Við ætlum líka að skrifa í búsáhaldatístið á hverjum degi.

Lumar þú kannski á einhverju sem á erindi á Búsáhaldaaðventu? Sendu okkur línu.

Aðventukrans minninganna

Three

Ljósin á aðventukransinum lýsa okkur í biðinni eftir jólunum og minna á tímann sem líður og reynsluna sem mótar okkur. Stundum tökum við á móti jólunum í gleði og eftirvæntingu. Stundum væntum við þeirra í sorg og sársauka. Hvert kerti á kransinum getur skírskotað til minninganna sem við berum með okkur en vísar um leið til vonarinnar sem jólin eru fyrirheit um.

Fyrsta kerti

Fyrsta aðventukertið minnir á ástvinina sem eru ekki lengur með okkur. Við nemum staðar, nefnum nafnið þeirra, rifjum upp röddina þeirra, andlitið þeirra og allar minningarnar sem tengjast þeim og jólatímanum. Við tendrum ljós, felum þau Guði og þökkum fyrir það sem lífið þeirra gaf okkur.

Annað kerti

Annað aðventukertið lýsir upp sársaukann yfir erfiðum breytingum sem hafa orðið í lífinu okkar. Það geta verið sambandsslit, atvinnumissir, fjárhagslegt áfall, heilsubrestur, frelsissvipting vegna streitu og álags, og hvers kyns breytingar sem skilja okkur eftir í einsemd. Við nefnum það sem veldur sársaukanum, leggjum okkur í Guðs hendur og biðjum um frið í hjartað.

Þriðja kerti

Þriðja aðventukertið er tendrað fyrir þau sem hafa misst áttir í lífinu og finnst þau vera týnd. Við þurfum öll að hafa stefnu í lífinu, að vita hver við erum og á hvaða leið við erum. Þess vegna er gott að þiggja leiðsögn ljóssins sem kemur í heiminn og vill upplýsa hvert og eitt okkar. Við tendrum ljós og biðjum fyrir þeim sem hafa misst sjónar á ljósinu og biðjum Guð að leiða þau í öruggt skjól.

Fjórða kerti

Fjórða aðventukertinu fylgir vonin um allt það sem jólin færa okkur. Barnið í jötunni er fyrirheit um frið og gleði handa öllum Guðs börnum. Við biðjum að ljós jólanna upplýsi huga og hjarta og að ljós okkar fái lýst bræðrum okkar og systrum.

#SethGodin, #Íþróttaálfurinn og #GeorgeBryant og tístið

Ég var í Háskólabíói í morgun og hlustaði á þrjá markaðsmenn flytja fyrirlestra um fræðin sín. Fyrstur á svið var George Bryant, á eftir honum kom íþróttaálfurinn Magnús Scheving og loks steig markaðsgúrúinn Seth Godin á svið. Ég sat með spjaldið í kjöltunni og tísti án afláts. Þetta gefur kannski örlitla innsýn í magnaðan morgun. Ég lærði heilmikið og fór heim innblásinn.

Takk Ímark.

Það vantaði sex atkvæði

Í síðustu viku fór fram atkvæðagreiðsla á kirkjuþingi ensku kirkjunnar hvort prestsvígðar konur mættu taka biskupsvígslu eða ekki. Sex atkvæði vantaði upp á að málið væri samþykkt. Núverandi erkibiskup af Kantaraborg og sá sem tekur við honum eftir áramót hvöttu báðir til þess að þingið segði já við þessari spurningu og meirihlutinn gerði það.

Nánar tiltekið sögðu 94% biskupa, 77% presta og 64% leikmanna já við biskupsvígðum konum. En það var kosið eftir deildum og í hverri deild þurftu 2/3 hlutar að segja já. Það vantaði 2% upp á leikmennina, alls sex atkvæði.

Það er því ekki rétt sem Egill Helgason skrifaði í bloggfærslu á dögunum að „meirihluti þingmeðlima reyndist hafa íhaldssamari skoðanir [en erkibiskupinn af Kantaraborg].“ Það er meirihluti fyrir málinu á kirkjuþinginu og í kirkjunni líka. Hann dugði bara ekki til miðað við leikreglurnar. Nick Baines, biskup í Bradford, orðar þetta svona:

The point is basically this: the Church of England has not rejected women bishops – the House of Laity of the General Synod has. The Church of England has massively and overwhelmingly approved not only the principle, but the process. The only question now is how to find the right wording to make law that makes this a reality.

Það verður spennandi að fylgjast með framvindu málsins og vonandi styttist í að fyrsta konan verði vígð til biskupsþjónustu í ensku kirkjunni.

Ralf, rústirnar og kirkjan

Ég messaði í Borgarholtsskóla í morgun. Þar er alltaf þemamessa og í dag var þemað tölvuleikir og bíó. Ég lagði út af kvikmyndinni um rústarann Ralf og talaði um hvort persónur – í tölvuleikjum og í lífinu – geta breyst og um mikilvægi vonarinnar. Þetta er góð mynd sem ég mæli með og hún átti vel við í Borgarholtsskóla þar sem fermingarbörnin eru stærstur hluti safnaðarins á sunnudögum.

Staða og fjármál þjóðkirkju og safnaða – bloggað í beinni

Nú fer fram sérstök umræða á Alþingi um um stöðu þjóðkirkjunnar og safnaða landsins í ljósi niðurskurðar undanfarinna ára. Málshefjandi er Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og til andsvara verður innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson. Ég ætla að blogga þetta í beinni, frá upphafi til enda. Continue reading „Staða og fjármál þjóðkirkju og safnaða – bloggað í beinni“